Engin fyrirsögn

Schwarzenegger sver embættiseiðHeitast í umræðunni
Arnold Schwarzenegger tók í gærkvöldi við embætti ríkisstjóra Kaliforníu. Sex vikur eru nú liðnar frá því að hann var kjörinn ríkisstjóri í sögulegum kosningum og vann sigur á Gray Davis sitjandi ríkisstjóra. Eitt fyrsta embættisverk hans á stóli ríkisstjóra var efna eitt sitt helsta kosningaloforð. Hann á fyrir höndum erfitt verkefni við að bæta fjárhag Kaliforníufylkis og ennfremur styrkja undirstöður þess á margan hátt. Verkefnin eru næg og mikilvægt að Arnold taki vel til hendinni. Það er mikilvægt að hann vinni af krafti, mun í því reyna á skoðanir hans og sannfæringu í pólitík. Óskandi er að honum gangi vel og staða ríkisins batni til muna í valdatíð hans.

BaugurStarfsmenn skattrannsóknarstjóra sóttu bókhaldsgögn til Baugs í gær. Eftir því sem Hreinn Loftsson segir í fjölmiðlum veit hann ekki hvað verið sé að rannsaka. Beðið hafi verið um gögn úr bókhaldi félagsins frá árunum 1998-2002. Að sögn Skúla Eggerts Þórðarsonar skattrannsóknarstjóra, mun hafa staðið upphaflega til að sækja gögnin á föstudag, en hafi verið frestað vegna tíðinda um að Baugur ætlaði að skrifa undir stóran samning um helgina. Er rætt um að rannsóknin beinist einkum að Jóni Ásgeiri Jóhannessyni, aðaleiganda Baugs. Verður athyglisvert að fylgjast með framhaldi þessa máls en þessi tíðindi koma í kjölfar frétta um kaup Jóns á eignum Jóns Ólafssonar fyrir helgina.

George W. Bush forsetiÍ dag kemur George W. Bush forseti Bandaríkjanna, í opinbera heimsókn til Bretlands. Fram hefur komið að mati Scotland Yard að ekki hafi fyrr verið um jafnmikla öryggisgæslu í sögunni og þá sem verður í tengslum við komu forsetans. Heimsókn Bush er fyrsta heimsókn Bandaríkjaforseta til Lundúna í boði konungsdæmisins en forsetahjónin munu gista í Buckinghamhöll í boði Elísabetar Englandsdrottningar, þann tíma sem heimsókn þeirra til landsins stendur yfir. Búist er við miklum mótælum í Lundúnum vegna Íraksmálsins í tilefni af komu Bush forseta. Bush sagði í viðtali við David Frost um helgina að hann skildi áhyggjur þeirra Breta, sem voru andvígir því að gripið yrði til hernaðaraðgerða í Írak. Þeir hafi sinn rétt til mótmæla og að hafa skoðanir.

Kristinn Már ÁrsælssonGestapistillinn
Í gestapistli vikunnar á vefsíðunni skrifar Kristinn Már Ársælsson ritstjóri frelsi.is, um fyrsta ár sitt í Sjálfstæðisflokknum. Fyrir um 12 mánuðum var hann staddur í Oklahomafylki í Bandaríkjum Norður-Ameríku. Þar var hann að nema heimspeki við Ríkisháskólann í Oklahoma. Þegar hann kom heim sótti hann um í Sjálfstæðisflokknum. Þá kannaðist hann við einn mann í flokknum. Hann hafði áður en sótt var um inngöngu mestmegnis umgengist fólk sem hélt að honum sögum um að flokkurinn væri hinn allra spilltasti, og ungliðahreyfingin lokaður jakkafataklúbbur. Athyglisverður pistill og gott að fá ítarlegt sjónarhorn manns á flokknum sem hefur verið stuttan tíma í honum en verið í virkur í starfi þar allan þann tíma.

Haukur Þór HaukssonSvona er frelsið í dag
Í dag birtist góð grein Hauks Þórs á frelsinu um konungdæmi og hefðir því tengdar. Hann segir að áður fyrr hafi það verið "almennt viðurkennt” að konungar sóttu vald sitt til æðri máttarvalda. Í því sérstaka umboði hafi þeir ráðið ríkjum, sem háðu stríð og giftust hentugum valkostum í valdatafli konungsfjölskyldna. Hann segir að þjóðir vesturheims hafi sem betur fer tekið upp lýðræði þar sem landsmenn kjósi sér stjórn hins opinbera í frjálsum kosningum. Konungdæmið sé þar með fallið úr gildi. Hann spyr því af hverju sú staðreynd sé ekki viðurkennd? Í gær birtist grein Hjölla um fjölmiðlun í kjölfar hræringa á fjölmiðlamarkaði. Segir hann að í þeirri umræðu hafi ýmsir stuðningsmenn ríkisútvarpsins talið þörf á eflingu þess og meiri afskiptum ríkisins af hinum frjálsu fjölmiðlum. Sem eigi að tryggja frjálsan og óháðan fréttaflutning. Að hans mati sé ekkert þó fjær lagi ef menn vilji virkilega færa fjölmiðlun og fréttaflutning á Íslandi í tryggara horf. Tek ég undir skoðanir hans í þessum efnum og tel rétt eins og hann að stokka verði upp rekstur RÚV.

Jóhanna og ÞórhallurDægurmálaspjall gærkvöldsins
Í Kastljósi gærkvöldsins var ítarlegt viðtal (þétt yfirheyrsla) Svanhildar og Kristjáns við Halldór Ásgrímsson utanríkisráðherra þar sem rætt var um skýrslu hans í utanríkismálum og kynnt var á þingi fyrir tæpri viku. Ennfremur var hann spurður um vændisfrumvarpið sem til umræðu er á þingi og tvær framsóknarkonur eru flutningsmenn að. Vakti mikla athygli mína að hann ljáði máls á að styðja frumvarpið ef fram kæmu breytingar á því. Þykir mér mjög undarlegt að hann lýsi þeirri skoðun sinni á þessum tímapunkti. Þáttastjórnendur gengu mjög hart að Halldóri og stóðu sig vel. Í Íslandi í dag voru gestir Jóhönnu og Þórhalls, þær Sólveig Pétursdóttir og Jónína Bjartmarz og ræddu um vændisfrumvarpið. Ekki voru þær alveg sammála og fóru vel yfir málið. Sólveig stóð sig mjög vel í þessum þætti, kraftmikil.

Vefur dagsins
Í dag bendi ég öllum á að líta á hinn magnaða fréttavef CNN. Lít ég á þann góða fréttavef oft á hverjum degi. Vandaðar og góðar fréttir þar. Þeir sem vilja fylgjast vel með fréttunum eiga að líta í heimsókn á þennan góða vef. Hreint ómissandi!

Snjallyrði dagsins
Sumt fólk vill fá kampavín og kavíar þegar það á skilið gos og pylsur.
Dwight D. Eisenhower forseti Bandaríkjanna (1953-1961).

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Hver er summan af einum og átta?
Nota HTML-ham

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband