14.11.2003 | 11:28
Engin fyrirsögn

Dagblaðið DV kom í dag út í fyrsta skipti undir stjórn nýrra eigenda. Þar er byrjað með krafti. Forsíðufrétt blaðsins í dag er á þá leið að Jón Ólafsson, meirihlutaeigandi Norðurljósa er að selja allar eignir sínar hérlendis og í dag muni nýir aðilar taka við stjórn Norðurljósa. Hljóta það að teljast stórtíðindi í íslensku viðskiptalífi. Á hluthafafundi í Norðurljósum sem haldinn verður í dag á að færa hlutafé í félaginu niður um 80%. Nýir hluthafar munu koma inn í rekstur félagsins. Fram hefur komið í fréttum í dag að hlutafé í Norðurljósum sé um 1,7 miljarðar en skuldir félagsins hinsvegar á sjötta miljarð. Kaupþing-Búnaðarbanki er stærsti lánardrottinn Norðurljósa og einn þeirra aðila sem koma nú að endurfjármögnun. Aðrir sem koma inn í reksturinn eru aðilar nátengdir Jóni Ásgeiri Jóhannessyni, ennfremur VÍS og Kári Stefánsson. Með þessum breytingum er ljóst að Jón Ásgeir og fjölskylda hans eru orðið mikið fjölmiðlaveldi, auk stórs eignarhluta í Norðurljósum er hann einn helstu eigenda Fréttar ehf. sem gefur út DV og Fréttablaðið.

Hart var deilt á þingi í gær um skýrslu utanríkisráðherra um utanríkismál sem kynnt var þingmönnum í gærmorgun. Guðlaugur Þór Þórðarson alþingismaður, átti þar snörp orðaskipti við Rannveigu Guðmundsdóttur og Ásgeir Friðgeirsson varaþingmann, um samstarf Bandaríkjanna og Íslands. Steingrímur J. fór svo mikinn í umfjöllun sinni um skýrslu ráðherrans. Þar talaði hann um málefni Afganistans og Íraks. Ennfremur var mikið rætt um umsókn Íslendinga að Öryggisráði Sameinuðu þjóðanna og sitt sýndist hverjum. Fyrir nokkrum dögum áttu forsætisráðherra og Mörður Árnason snörp orðaskipti vegna málefna safns Halldórs Laxness sem mun opna á næsta ári á Gljúfrasteini. Líf og fjör á þingi semsagt.

14. nóvember hefur í gegnum tíðina verið mjög sögulegur dagur. Ákvað ég að líta í bók Jónasar Ragnarssonar, Daga Íslands, og kynna mér betur sögu hans. Það var þennan dag árið 1917 sem lögræðislög voru staðfest. Skv. þeim urðu menn sjálfráða 16 ára og fjárráða 21 árs. Fjárræði var lækkað í 20 ár 1967 og að lokum í 18 ár 1979. Á þessum degi 1930 var Hitaveita Reykjavíkur, fyrsta hitaveitan hérlendis tekin í notkun. Boranir eftir heitu vatni hófust árið 1928. Þennan dag árið 1963 eða fyrir nákvæmlega fjórum áratugum hófst Surtseyjargosið. Eldgos hófst á hafsbotni suðvestur af Vestmannaeyjum. Þar sem áður var 130 metra dýpi kom upp eyja sem nefnd var Surtsey. Gosið stóð með hléum í þrjú og hálft ár, eitt lengsta gos Íslandssögunnar. Hún var stærst 2,7 ferkílómetrar en hefur í gegnum tíðina minnkað um nær helming. Sama dag árið 1963 tók ríkisstjórn dr. Bjarna Benediktssonar við völdum. Hún var hluti af viðreisnarstjórn Sjálfstæðis- og Alþýðuflokksins sem sat samfellt í 12 ár, 1959-1971. Bjarni og ráðuneyti hans sat við völd til andláts hans árið 1970. Þennan dag fyrir tveim áratugum lést Tómas Guðmundsson skáld.

Í dag skrifar Stefán Ottó Stefánsson, grein á frelsi.is um Samkeppnisstofnun og einokunarverslun. Fram kemur í grein hans að með stofnun Samkeppnisstofnunar hafi ríkið sýnt einlægan vilja til að skipta sér beint af frjálsum markaði hér í landi, berjast gegn svokölluðum markaðsbrestum, svo sem fákeppni og einokun. Samkeppnisstofnun hafi nú þegar beitt ýmis konar ofbeldi gegn fyrirtækjum, til að mynda innrásir í höfuðstöðvar og gert upptæk skjöl í eigu þeirra. Að mati Stefáns Ottós er óhætt að segja að þetta raski starfsemi fyrirtækja gríðarlega. Ennfremur bendir hann á að það sé tímabært að einkavæða ÁTVR. Hann segir að fullorðnir einstaklingar séu fullfærir um að versla sín á milli með hvers kyns vörur jafnvel áfengi. Tek ég heilshugar undir skrif hans.
Grein í Morgunblaðinu - stjórnmálastarf
Í dag birtist grein mín í Mogganum um landsfund Samfylkingarinnar og hægristefnuna sem þar var mótuð í heilbrigðismálum. Fer ég ítarlega yfir hvaðan sú stefnubreyting er sótt, enda vita allir að leitað er í smiðju Heimdallar og Ástu Möller sem verið hefur í forystu innan Sjálfstæðisflokksins í þessum málum. Um helgina stendur mikið til. Ég fer suður seinna í dag. Stjórnarfundur er í SUS um fimmleytið. Að honum loknum heldur stjórn SUS í heimsókn á Alþingi. Þar tekur á móti okkur Guðmundur Hallvarðsson alþingismaður. Á morgun er ritnefndarfundur hjá frelsi.is, vísindaferð borgarstjórnarflokks Sjálfstæðisflokksins og gleðskapur á Hverfisbarnum. Ennfremur verður litið í heimsókn til vina og kunningja. Þetta verður góð helgi.

Í dag bendi ég á vef Heimis, félags ungra sjálfstæðismanna í Reykjanesbæ. Þar eru pistlar, fréttir úr starfinu og margt mjög athyglisvert. Formaður Heimis er frændi minn, Georg Brynjarsson.
Snjallyrði dagsins
Ólíkt háttvirtum þingmanni er ég ekki og verð aldrei fréttaskýrandi.
Davíð Oddsson forsætisráðherra (í svari til Marðar Árnasonar á Alþingi, 11. nóvember 2003).
Breytt 18.9.2006 kl. 08:02 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Þú ert innskráð(ur) sem .
Innskráning