Engin fyrirsögn

StjórnarráðiðHeitast í umræðunni
Í morgun flutti Halldór Ásgrímsson utanríkisráðherra, á þingi skýrslu sína um utanríkismál. Sagði ráðherrann í umræðu um málið að framboð Íslands til öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna muni styrkja stöðu Íslands á alþjóðavettvangi og markaði mikil tímamót í íslenskri utanríkisstefnu. Umsókn til ráðsins var meginefni í skýrslunni. Markmið ráðherrans og ráðuneytis er framlag til varðveislu friðar og öryggis og annarra stefnumiða Sameinuðu þjóðanna. Ég er algjörlega mótfallinn þessu. Þetta mál var mikið rætt í störfum utanríkis- og varnarmálanefndar á SUS-þingi í Borgarnesi 12. - 14. september sl. Niðurstaðan var að við ályktuðum á þá leið að kostnaður við inngöngu í öryggisráðið væri svo mikill að það skorti rök fyrir þeim ávinning sem myndi hljótast af setu í ráðinu. Við teljum þetta því ekki rétt skref og erum á móti þessu.

Tómas Ingi og Kristján ÞórVerkefnisstjórn um byggingu menningarhúss á Akureyri leggur til að byggt verði 3500 fm. stórt menningarhús á Akureyri á uppfyllingunni sunnan Strandgötu og austan Glerárgötu. Í húsinu muni verða m.a. 500 manna tónlistarsalur auk fjölnotasalar sem nýtist við fjölbreytileg tækifæri. Verkefnisstjórnin var skipuð í kjölfar samkomulags menntamálaráðuneytisins og Akureyrarbæjar sem undirritað var 7. apríl sl. af menntamálaráðherra og bæjarstjóra, en þar var miðað við að kostnaður við verkið yrði 1200 milljónir króna sem skiptist þannig að Akureyrarbær beri 40% og ríkið 60%. Tillögur verkefnisstjórnarinnar voru kynntar bæjarráði Akureyrar og menntamálaráðherra í dag með greinargerð sem kallast Orkuver við Pollinn. Fram kemur í tilkynningu frá Akureyrarbæ að vinna verkefnisstjórnarinnar hafi ekki síst snúist um að fara yfir fyrri tillögur og hugmyndir og laga húsið að þeim ramma sem verkinu var settur.

Alþingi ÍslendingaÁ Alþingi hefur verið lagt fram nýtt frumvarp um réttindi og skyldur opinberra starfsmanna. Verði það samþykkt mun falla úr gildi sú skylda forstöðumanna hjá ríkisstofnunum að áminna starfsmann skriflega áður en honum er vikið úr starfi. Andmælaréttur verður ennfremur felldur niður. Fram kemur í greinargerðinni að markmiðið með lagabreytingunni verði að færa rekstur ríkisins nær almenna vinnumarkaðnum. Í sameiginlegri ályktun frá BSRB, BHM og KÍ kemur fram að frumvarpið feli í sér breytingar á grundvallarréttindum ríkisstarfsmanna hvað varðar starfsöryggi.

Heiðrún Lind MarteinsdóttirSvona er frelsið í dag
Á frelsinu í dag er góður pistill eftir Heiðrúnu Lind um aðgerðaleysi R-listans í málefnum ungs fólks í borginni. Fram kemur í pistli hennar að þegar fólk á aldrinum 20 – 30 ára sé spurt í aðdraganda kosninga hvaða málefni þau telji brýnust úrbóta hafi húsnæðis- og velferðarmál einna oftast orðið ofan á. Ungt fólk í Reykjavík væri engin undantekning og ætla mætti að velferð ungra barna þeirra og kaup á húsnæði séu þeim ofarlega í huga. Vert væri að skoða hvernig á þeim málum hefði verið tekið í tíð R-listans og hvort gefin loforð hafi verið efnd. Fer Heiðrún vel yfir loforð R-listans og efndir þeirra sem lítið hefur bólað á. Fram kemur að R-listi þriggja flokka hafi lítið gert í þessum málum. Niðurstaða hennar er að R-listinn skuli hafa það í huga að betra sé ólofað en illa efnt. Ástæða sé til að skipta um meirihluta í borgarstjórn Reykjavíkur.

Pressukvöld RÚVDægurmálaspjall gærkvöldsins
Í gærkvöldi voru Ásta Ragnheiður Jóhannesdóttir og Hjálmar Árnason gestir Jóhönnu og Þórhalls í Íslandi í dag. Umræðuefnið var starfslokasamningar við forystumenn í ríkisstofnunum. Tilefni þessa er skýrsla viðskipta- og félagsmálaráðherra um starfslok tveggja forstjóra Byggðastofnunar og hinsvegar forstöðukonu Jafnréttisstofu sem fékk önnur kjör við starfslok en hinir tveir. Rifust þau allharkalega um málið. Mitt mat er að viðkomandi aðilar eigi að fá jafnmikið og semja eftir kaupum og kjörum í þessu, það á jafnt yfir alla að ganga sama hvar þeir eru í ríkisstofnunum. Í Pressukvöldi RÚV var gestur þriggja fréttamanna Guðni Ágústsson landbúnaðarráðherra. Mér fannst mjög athyglisvert að ráðherrann svaraði vart þeim spurningum að honum var beint heldur sneri útúr þeim öllum með einkar undarlegum hætti. Svo merkilegt er við þennan stjórnmálamann að maður telur að hann sé alltaf að grínast. Það er enda svo að hann er eftirsóttari sem skemmtikraftur í sveitum landsins en sem ábyrgur stjórnmálamaður.

Bókalestur - MSN spjall
Í gærkvöldi hóf ég að lesa Grafarþögn eftir Arnald Indriðason og fór langleiðina með að klára hana, geri það í kvöld. Alveg mögnuð bók. Hef svo í hyggju eftir helgina að lesa Bettý eftir sama höfund, nýja bók hans. Var að glugga í gærkvöldi í bókina Samtíðarmenn frá 1993, alltaf gaman að lesa hana. Hef mikinn áhuga á nýju bókinni sem nýlega er komin í verslanir, tvö bindi þar sem hægt er að fræðast um ættir íslensks merkisfólks. Í gærkvöldi átti ég gott spjall á MSN við marga félaga, alltaf jafngaman að spjalla þar. Nýlega kom félagi minn, Stefán Einar inn á MSN og höfum við rætt þar ýmis mál. Alltaf gaman að rabba við hann.

Vefur dagsins
Í dag opnar á netinu nýr spjallvefur. Ber hann heitið alvaran.com. Eins og nafnið ber með sér er það málefnalegur spjallvefur þar sem rætt er af viti um málin og á alvarlegum nótum, ekkert IRQ dæmi semsagt. Líst vel á þennan vef, hann lofar góðu.

Snjallyrði dagsins
Það sem vantar í heiminum eru fleiri lítillátir snillingar. Við erum svo fáir eftir.
Oscar Levant

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Hver er summan af átta og tuttugu?
Nota HTML-ham

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband