9.12.2003 | 04:43
Engin fyrirsögn

Eins og flestum er kunnugt hlaut Samherji hf. á Akureyri útflutningsverðlaun forseta Íslands í maímánuði. Var það á svipuðum tíma og fagnað var því að tveir áratugir voru frá því að núverandi eigendur keyptu fyrirtækið. Í tilefni þessa komu forsetahjónin, Ólafur Ragnar Grímsson og frú Dorrit Moussaieff, ásamt fulltrúum þeirra sem völdu fyrirtækið þegar kom að verðlaununum í heimsókn til Samherja í gær. Á móti gestunum tóku Þorsteinn Már Baldvinsson forstjóri Samherja, og Kristján Vilhelmsson útgerðarstjóri, ásamt hátt í 200 starfsmönnum Samherja á Akureyri og Dalvík. Eftir því sem fram kom í fréttum skoðuðu gestirnir vinnsluferlið í frystihúsinu á Dalvík. Telst frystihúsið á Dalvík eitt fullkomnasta frystihúsið í heiminum. Í pökkunarsal Samherja á Dalvík var móttaka í boði fyrirtækisins. Þar flutti Þorsteinn Már ávarp. Í því sagði hann t.d. að kosningabaráttan sl. vor hefði verði óvægin í garð þeirra sem störfuðu í sjávarútvegi og að síðan þá hefði fátt gott gerst fyrir greinina. Sagði hann að til stæði að skerða aflaheimildir þeirra sem litu á greinina sem eina heild, þ.e. veiðar, vinnslu og markaðsmál. Þá sagði hann að Íslendingar hefðu verið í forystu meðal sjávarútvegsþjóða heims á allra síðustu árum en því miður sýndist honum allt stefna í að Íslendingar væru að glata því forystuhlutverki. Að lokinni ræðu forseta var haldið til Akureyrar og Strýta heimsótt. Heimsókn forseta lauk síðdegis í gær.



Líf og fjör einkennir pólitíska umræðu á frelsinu þessa vikuna eins og ávallt áður. Í tilefni talsverðra umræðna seinustu vikur um kjölfar frumvarps á þingi hafa Ósk Óskarsdóttir, Heiðrún Lind Marteinsdóttir, Helga Baldvinsdóttir Bjargardóttir og María Margrét Jóhannsdóttir skrifað pistla um vændismál. Óhætt er að segja að skiptar skoðanir séu um reynsluna frá Svíþjóð, en það er eina landið sem hefur fetað þá slóð að banna kaup á vændi. Ungir sjálfstæðismenn hafa ritað greinar í Morgunblaðið og buðu upp á athyglisverðan fyrirlestur sænska mannfræðingsins Petru Östergren. Fyrsti pistillinn í vændispistlaflokknum er eftir Heiðrúnu Lind Marteinsdóttur og ber titilinn Hin ,,raunverulega sænska leið í vændismálum. Þar fjallar hún um eitt aðaldeilumálið í þessu, sem er hvort gera skuli kaup á vændi refsiverð í stað sölu, líkt og nú getur um í almennum hegningarlögum. Í gær birtist góður pistill Stefáns Einars, nafna míns, þar sem hann fer yfir borgarmálin. Ennfremur birtist nýlega ítarlegur pistill Tobbu um fjárhagsáætlun Reykjavíkurborgar fyrir árið 2004.

Heldur betur líflegt var yfir dægurmálaþáttum gærkvöldsins og fersk og góð umfjöllun. Í Íslandi í dag hjá Jóhönnu og Þórhalli, byrjaði kokkurinn Óli Gísli að kenna okkur að elda hina einu sönnu pörusteik, eins og þær gerast bestar. Engin jól eru án þess að elda svínabóg og mikilvægt að hafa hann á boðstólum yfir hátíðirnar. Ætla ég að bjóða góðum hópi í mat til mín að kvöldi annars dags jóla og bjóða upp á þetta lostæti. Eflaust einhverjir farnir að hlakka til þess. Siggi stormur kom með langtímaspána sem reyndar var fyrir aðfangadag (ótrúlegt en satt). Ef eitthvað verður að marka hana verða hvít jól hér norðan heiða og jólasnjór í massavís. Söng kvennakórinn Vox Feminae eitt ekta jólalag. Eftir kvöldfréttir var Brynjólfur Bjarnason forstjóri Landssímans, gestur þeirra og farið var yfir fjárdráttarmál aðalgjaldkerans í fyrirtækinu. Eftir ítarlega rannsókn er ljóst að hann hefur dregið sér rúmlega 260 milljónir króna. Skelfilegt mál, mikilvægt að stokka upp öll vinnubrögð þarna innanhúss. Í Kastljósinu voru heldur betur hressilegar umræður. Þorsteinn Már Baldvinsson forstjóri Samherja, og Kristinn H. Gunnarsson alþingismaður, ræddu um línuívilnun og voru ekki sammála eins og við mátti búast. Komu svo Garðar Sverrisson og Jónína Bjartmarz og ræddu öryrkjamálið. Var með ólíkindum að sjá hversu ókurteis Garðar var. Fór hann vel yfir strikið.

Eftir dægurmálaþættina horfði ég á þátt á Stöð 2 um ferð hljómsveitarinnar Írafár til Orlando en þar voru lögð drög að nýrri plötu hljómsveitarinnar Nýtt upphaf. Kom platan út fyrir skömmu og er þegar komin í gull, semsagt seld 5000 eintök. Athyglisverður þáttur og líflegur. Eftir hann horfði ég The Apartment, magnaða kvikmynd leikstjórans Billy Wilder. Eftirminnilegt gamandrama frá árinu 1960 sem sló í gegn. Hlaut fjölda óskarstilnefninga, hlaut verðlaunin sem besta mynd ársins, fyrir leikstjórn Wilders og handrit hans og I.A.L. Diamond. Jack Lemmon á stórleik í hlutverki hins skemmtilega einfeldnings C.C. Baxter, hiklaust ein besta frammistaða ferils hans. Einnig er Shirley MacLaine heillandi sem Fran Kubelik. Magnaður samleikur milli Lemmon og MacLaine. Eftir myndina fór ég að glugga í bókina Kæfusögur, en hana fékk ég lánaða á bókasafninu. Þetta er ný bók, kom út fyrir jólin og inniheldur margar skemmtilegar sögur. Gaman að kíkja á hana. Átti svo gott spjall við marga vini á MSN undir lok viðburðaríks og góðs dags.
Vefur dagsins
Í dag bendi ég öllum á að líta á vef dr. Hannesar Hólmsteins Gissurarsonar. Þar er að finna athyglisverð greinaskrif Hannesar, fræðandi efni úr kennslu hjá honum í stjórnmálafræði, athyglisverðar myndir og margt fleira. Litríkur maður - litríkur vefur.
Snjallyrði dagsins
Stjörnurnar, sem við sjáum
sindra um himininn,
eru gleðitár Guðs, sem hann felldi,
er hann grét í fyrsta sinn.
Davíð Stefánsson skáld frá Fagraskógi í Eyjafirði. (1895-1964)
Breytt 18.9.2006 kl. 08:02 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Þú ert innskráð(ur) sem .
Innskráning