4.12.2003 | 21:55
Engin fyrirsögn

Þingflokkar stjórnarflokkanna samþykktu í gærkvöld frumvarp heilbrigðisráðherra um tvöföldun grunnlífeyris yngstu öryrkjanna. Samkomulag ríkisstjórnarinnar og Öryrkjabandalagsins var handsalað í marsmánuði en verður nú endanlega að lögum. Staðið er að fullu við samkomulag það og þann ramma sem ráðherra var settur í ríkisstjórn. Er um að ræða kostnað upp á einn milljarð króna og verður málið endurskoðað um mitt næsta ár. Undarleg umræða hefur verið um þetta mál seinustu daga, eins og flestum ætti að vera kunnugt. Hefur verið undarlegt að fylgjast með gífuryrðum stjórnarandstöðu og Öryrkjabandalagsins vegna þessa máls, í ljósi þess að um er að ræða eitt mesta framfaraspor fyrir öryrkja í fjölda ára. Þetta hefur verið baráttumál þeirra til fjölda ára og því er mætt með þessum hætti. Eftir stendur að samið var um þetta og staðið við það. Ekki veit ég hvort heilbrigðisráðherra hefur persónulega lofað forystu öryrkja meiru en þessu. En eftir stendur að þetta var það sem rammi í ríkisstjórn gerði ráð fyrir og umboð var haft fyrir til að semja um. Svo einfalt telst það. Leitt er að forsvarsmenn öryrkja sólundi peningum skjólstæðinga sinna í dýra auglýsingamennsku í fjölmiðlum.



Í pistli dagsins á frelsinu fjallar Ósk um frumvarp sem fyrir liggur á Alþingi, þess efnis að einkaleyfi HHÍ á rekstri peningahappdrættis skuli framlengt um 15 ár. Eins og Ósk bendir á vekur furðu hversu mikil eining ríkir í þingflokki Sjálfstæðisflokksins um þetta mál. Einkaleyfi þetta mun gefa HHÍ talsvert samkeppnislegt forskot og gera öðrum aðilum enn erfiðara að keppa við happdrættið á jafnréttisgrundvelli. Orðrétt segir Ósk í pistlinum: "Niðurstaðan er sú að einokun ríkisins á ákveðnum markaði, sem réttilega ætti að vera frjáls er óafsakanleg, en hvorki þarf mögulegar vanefndir á EES-samningnum né brot á samkeppnislögum til þess að renna stoðum undir þá augljósu staðreynd. Fyrirkomulag þetta er vænlegt til tekjuöflunar með lögmætu ráni en alls ekki til vinnings fyrir skattgreiðendur og atvinnurekendur á happdrættismarkaðnum. Harmakvein um niðurfellingu einkaleyfisgjaldsins fellur algjörlega í skugga þess hróplega óréttlætis sem felst í einkaleyfinu sjálfu. Vaknið!". Góður pistill hjá Ósk. Er henni algjörlega sammála.

Í Kastljósinu í gærkvöld ræddu Guðjón Vilhelm Sigurðsson hnefaleikaþjálfari og Hjalti Már Björnsson læknir, um slys seinustu helgar í hnefaleikakeppni í Vestmannaeyjum. Varð spjall þeirra mjög athyglisvert og gott að heyra misjöfn sjónarmið þessa máls. Ég taldi rétt að leyfa ólympíska hnefaleika og fannst rétt af Alþingi að samþykkja frumvarp þess efnis í fyrra. Það er leitt að slys af því tagi sem varð í keppninni varð, en rétt er að minna á að vart er til sú keppnisíþrótt sem ekki getur leitt til slysa, gott dæmi eru boltaíþróttir og akstursíþróttir. Það er aldrei hættulaust að stunda íþróttir. Hinsvegar er rétt að fólk velji hvaða íþróttir það stundi. Forræðishyggja í þessum efnum kann aldrei góðri lukku að stýra. Hef skilning með þeim sem eru á móti þessu og hef aldrei persónulega líkað vel að fólk reyni að berja annað fólk og allra síst í keppnum, en það á hver að taka valið fyrir sig hvort hann vilji stunda þetta. Í Pressukvöldi sat Jón Kristjánsson heilbrigðisráðherra, fyrir svörum. Þar sóttu þrír fréttamenn fast að honum. Kom ráðherra vel að sjónarmiðum sínum og ríkisstjórnarinnar, t.d. vegna öryrkjamála.

Keypti í gær nýja hljómplötu Björgvins Halldórssonar. Þar eru skemmtilegir dúettar hans með yngri söngvurum. Virkilega góð plata, vönduð og skemmtileg. Sérstaklega finnast mér lögin Hjartasól, Nótt eftir dag og Ég veit að þú vakir, mjög góð. Hið fyrstnefnda er besta lag plötunnar, frábær dúett Björgvins og Leone Tinganelli. Undurljúft lag sem ég féll algjörlega fyrir. Horfði í gærkvöldi á Gosford Park, stórfenglega kvikmynd snillingsins Roberts Altman. Sögusviðið er breskt hefðarsetur á hinu herrans ári 1932, þar sem McCordle-fjölskyldan býður vinum og ættingjum til helgardvalar og skotveiða. Sagan snýst að mestu um húsbóndann á hefðarsetrinu, William McCordle. Í gegnum árin hefur William orðið fjárhagslegur bakhjarl margra skyldmenna sinna og vina. Eftir því sem helgin líður eru leyndarmál afhjúpuð og svo virðist sem allir gestirnir eigi eftir að gera upp sakir við William. Spurningin er bara hversu langt munu gestirnir ganga. Stórfengleg mynd á allan hátt. Skylduáhorf fyrir aðdáendur breskra úrvalsmynda. Er búinn með bækurnar um Jónas frá Hriflu, alveg magnaðar. Skelli mér næst í að lesa fyrra bindi ævisögu Stephans G.
Vefur dagsins
Eins og fyrr segir var Valgerður Sverrisdóttir viðskiptaráðherra valin Kona ársins af tímaritinu Nýju lífi í gær. Valgerður er með heimasíðu þar sem birtast pistlar hennar og dagbók þar sem hún fer yfir verk sín og það sem hún gerir í starfi sínu. Hvet alla til að líta á vef hennar í dag.
Snjallyrði dagsins
Það eina sem þarf að óttast, er óttinn sjálfur.
Franklin D. Roosevelt forseti Bandaríkjanna (1882-1945)
Breytt 18.9.2006 kl. 08:02 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Þú ert innskráð(ur) sem .
Innskráning