2.12.2003 | 23:58
Engin fyrirsögn

Halldór Ásgrímsson utanríkisráðherra, kom í opinbera heimsókn til Írans í gær, fyrstur íslenskra ráðamanna til að fara þangað frá valdatöku klerkastjórnarinnar 1979. Skömmu eftir komuna til landsins ræddi Halldór við Kamal Kharrazi utanríkisráðherra Írans, um samskipti Íslands og Írans, mannréttindamál, stöðu kvenna, afvopnunarmál, ástandið í Írak og Afganistan og deilurnar fyrir botni Miðjarðarhafs. Í spjalli þeirra á milli gerði Halldór grein fyrir ástæðu þess að íslensk stjórnvöld studdu ályktunartillögu um ástand mannréttinda í Íran á vettvangi Sameinuðu þjóðanna. Á fundi með Habi-bollah Bitaraf orkumálaráðherra, var svo rætt hugsanlegt samstarf ríkjanna við nýtingu jarðhita. Í för með ráðherra er viðskiptanefnd skipuð fulltrúum tíu íslenskra fyrirtækja þar á meðal Orkustofnunar, Sæplasts, Marels, Össurar og fleiri fyrirtækja. Í dag hitti Halldór Mohammad Khatami, forseta Írans og Mohammad Hojjati sjávarútvegsráðherra. Við forsetann ræddi hann um tvíhliða samskipti Íslands og Írans, mannréttindamál, réttindi kvenna, málefni Íraks og Afganistans, kjarnorkumál og margt fleira. Voru þeir ekki sammála að öllu leyti eins og við var að búast. Að sögn utanríkisráðherra er mikill áhugi í Íran á því að auka samskiptin við Ísland. Telur hann koma til greina að Íslendingar og Íranar hafi með sér samstarf um að fá aðild að Öryggisráði Sameinuðu þjóðanna.



Í dag birtist á frelsinu pistill minn um málefni RÚV. Nú hafa þrír þingmenn Sjálfstæðisflokks: Birgir Ármannsson, Pétur H. Blöndal og Sigurður Kári Kristjánsson, lagt fram á þingi frumvarp til laga um breytingu á útvarpslögum, lögum um Ríkisútvarpið og lögum um tekjuskatt og eignarskatt. Koma margar athyglisverðar tillögur um breytingar á rekstri RÚV þar fram og geri ég grein fyrir þeim. Er þar gert ráð fyrir stofnun hlutafélags um rekstur Ríkisútvarpsins, þann 1. júlí 2004. Hlutverk félagsins eigi að vera að annast þá starfsemi sem Ríkisútvarpið hafi haft með höndum. Frumvarpið gerir ráð fyrir að ríkissjóður leggi til allar eignir, réttindi, skuldir og skuldbindingar Ríkisútvarpsins til hlutafélagsins. Gert er ráð fyrir að þann 1. janúar 2005 taki Ríkisútvarpið hf. við rekstri og starfsemi Ríkisútvarpsins og skuli Ríkisútvarpið þá lagt niður. Í frumvarpinu er gert ráð fyrir að hlutafé ríkissjóðs í RÚV hf. skuli vera selt fyrir 1. janúar 2005. Er athyglisvert að lesa frumvarpið og kynna sér vel þær breytingar sem það gerir ráð fyrir. Það er gott að þessir þingmenn Sjálfstæðisflokksins leggi fram á þingi tillögur sínar til breytingar á stofnuninni. Ennfremur er í dag á frelsinu birt góð Moggagrein Helgu um vændisfrumvarpið.

Í gærkvöldi horfði ég á fróðlegan þátt í Sjónvarpinu um feril og ævi Ragnhildar Helgadóttur fyrrverandi ráðherra og alþingismanns Sjálfstæðisflokksins. Hún á að baki merkan feril í forystusveit íslenskra stjórnmála. Hún fæddist í Reykjavík 26. maí 1930. Hún lauk stúdentsprófi frá MR 1949 og lögfræðiprófi frá Háskóla Íslands 1958. Ragnhildur var kjörin á þing, aðeins 26 ára gömul árið 1956. Sat hún á þingi 1956-1963, en þá vék hún af þingi til að sinna heimili sínu. Kom aftur á þing 1971 og sat samfellt aftur til 1979. Hún varð forseti neðri deildar á þeim tíma og ennfremur varð hún fyrst kvenna árið 1975 til að setjast á forsetastól Norðurlandaráðs. Ragnhildur varð menntamálaráðherra 26. maí 1983, önnur kvenna til að gegna ráðherrastörfum hérlendis. Haustið 1985 varð hún heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra. Á ráðherraferli sínum 1983-1987 kom hún í gegn mörgum framfaramálum, t.d. lengingu fæðingarorlofs og afnámi einokunar ríkisins á ljósvakamarkaði. Hún lét af þingmennsku árið 1991. Hún telst hiklaust til fremstu forystumanna Sjálfstæðisflokksins á áttunda og níunda áratug 20. aldar. Merk kona sem vann farsæl verk fyrir flokk sinn og þjóð.

Í dag bendi ég öllum á að líta á vef Heimssýnar, hreyfingar sjálfstæðissinna í Evrópumálum. Þar er lífleg umfjöllun um Evrópumálin, ferskar fréttir og góðar greinar um málin. Er skemmtilegt að fylgjast með þessum góða vef, lít ég á vefinn allavega daglega. Enda er margt þar í gangi og alltaf eitthvað nýtt. Er ég félagi í Heimssýn, enda alfarið á móti því að Íslendingar verði aðilar að ESB.
Snjallyrði dagsins
Til góðs vinar, liggja gagnvegir.
Hávamál
Breytt 18.9.2006 kl. 08:02 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Þú ert innskráð(ur) sem .
Innskráning