9.4.2004 | 13:24
Engin fyrirsögn

Í dag er ár liðið frá því að endi var bundinn á 24 ára stjórnartíð Saddams Hussein. Valdakerfi hans hrundi eins og spilaborg í kjölfar innrásar Bandamanna í Írak í mars 2003. Ægivald hans á höfuðborginni Bagdad og íbúum hennar leið undir lok með dramatískum hætti í beinni útsendingu sjónvarpsstöðva. Ekki leið á löngu frá því að herir Bandamanna héldu inn í borgina, þar til spurðist út að ægivald einræðisherrans væri ekki lengur til staðar og hann flúinn. Í kjölfar þess héldu íbúar í Bagdad út á götur og fögnuðu þessum miklu þáttaskilum. Fólk tók að safnast saman á Firdos-torg þar sem stóð risastór stytta af einræðisherranum fallna. Hin sjö metra háa bronsstytta var felld af stalli, í beinni útsendingu fréttastöðva um allan heim, var það hin táknræn mynd endaloka einræðisstjórnarinnar. Hún var dregin niður með bandarískum herbíl og féll til jarðar með dramatískum hætti. Þegar styttan féll fögnuðu viðstaddir og hoppuðu á henni. Síðar var höfuðið brotið af og viðstaddir drógu það á eftir sér um torgið. Með falli styttunnar urðu tímamót í Írak og stríðinu þar. Einræði leið undir lok og hægt var að feta í átt til lýðræðis í landinu. Enginn saknar einræðisherrans sem náðist á flótta um Írak í desember 2003, og að því mun koma fljótlega að yfir honum verði réttað vegna verka hans og einræðistilburða.


Í dag birtist á frelsinu pistill eftir Kristinn Má um sjálfseignarréttinn. Þar segir svo: "Ástæðurnar fyrir því að þorri allra manna játar sjálfseignarréttinn en kýs gjarnan í almennum kosningum menn sem tilbúnir eru til að brjóta gegn honum eru ekki augljósar. Áhugavert væri að rannsaka þær sérstaklega. Vera kann að þar ráði íhaldssemi nokkru um. Ekki er útilokað að það sem áður hefur verið nefnt um að menn telji að ekki sé í raun verið að brjóta gegn sjálfseignarréttinum. Mörg vígorð eru notuð af vinstrimönnum gegn frjálshyggjunni. Meðal þeirra eru alþekktir frasar á borð við græðgi og trúarkreddur! Vitaskuld er ekkert hæft í slíkum upphrópunum. Virðingin fyrir sjálfseignarréttinum er ekki stefna græðgi eða valda heldur virðingar fyrir fólki. Baráttan fyrir frelsinu er laus við hroka og valdníðslu, hún er þvert á móti umbóta- og mannúðarstefna. Treystum fólki til þess að ákvarða um eigin hag og virðum rétt þeirra til að eiga sig sjálft."
Dagurinn í dag
1869 Kristján Jónsson Fjallaskáld lést, 26 ára - þekktasta kvæði hans er Yfir kaldan eyðisand
1962 Sophia Loren hlaut óskarinn fyrir leik sinn í kvikmyndinni Two Women
1979 Jane Fonda og Jon Voight hlutu óskarinn fyrir leik sinn í Coming Home
1984 Shirley MacLaine og Jack Nicholson hlutu óskarinn fyrir leik sinn í Terms of Endearment
2003 Einræðisstjórn Saddams Husseins fellur - risastytta af Saddam felld í Bagdad
Snjallyrði dagsins
Til eru tvenns konar menn í þessum heimi: sá sem fer á undan og gerir eitthvað og hinn sem kemur á eftir og gagnrýnir
Seneca
Breytt 18.9.2006 kl. 08:02 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Þú ert innskráð(ur) sem .
Innskráning