3.5.2004 | 15:41
Engin fyrirsögn

Kosning fór í gær fram innan Likud flokksins, stjórnarflokksins í Ísrael um tillögur Ariel Sharon forsætisráðherra Ísraels og leiðtoga flokksins, um að leggja niður allar landtökubyggðir gyðinga á Gaza og fjórum litlum byggðum á Vesturbakkanum en samhliða því innlima stærstu landtökubyggðir gyðinga á Vesturbakka Jórdanar í Ísrael. Flokksmenn höfnuðu tillögu forsætisráðherrans með nokkuð afgerandi hætti. Tæplega 60% þeirra greiddu atkvæði gegn áætluninni en rúm 40% voru henni samþykk. Niðurstaðan er áfall fyrir forsætisráðherrann sem hafði sagt þetta kosningu um traustsyfirlýsingu við sig og stefnu sína. Einungis rúm 40% flokksmanna mættu á kjörstað og tóku afstöðu. Ariel Sharon hélt blaðamannafund er úrslitin lágu fyrir og þar kom fram að hann muni ekki biðjast lausnar þrátt fyrir úrslitin. Hann sagði greinilegt að meirihluti landsmanna styddi áætlanir sínar og á þær reyndi í næstu þingkosningum, í nýlegri könnun kom fram að tillögur hans njóta stuðnings þjóðarinnar. Hann muni því leggja tillöguna samt sem áður fyrir þingið þar sem meirihlutastuðningur er fyrir henni og ennfremur fara í hart við andstæð öfl sér í flokknum, sem leidd eru af Benjamin Netanyahu fjármálaráðherra og fyrrum forsætisráðherra. Einnig gæti hann auðvitað breytt afstöðu sinni til málsins og farið í aðra átt.



Atli Rafn fjallar í pistli dagsins á frelsinu um málefni RÚV. Er greinilegt að við Atli erum að gagnrýna ráðherra og óbreytt eignarform á RÚV með sama hætti. Orðrétt segir í pistlinum: "Það eru mikil vonbrigði að menntamálaráðherra taki undir að efla skuli ríkisrekstur. Sjálfstæðisflokkurinn hefur oft hreykt sér af því að vera flokkur minni ríkisafskipta og bendir gjarnan á einkavæðingar ríkisfyrirtækja því til stuðnings. Menntamálaráðherra virðist því miður ekki hafa skilning á því að það verður ekki til heilbrigður rekstrargrundvöllur á fjölmiðlamarkaði ef ríkisfyrritæki starfa þar á þann máta sem RÚV hefur gert í gegnum árin. Engin arðsemiskrafa er gerð til stofnunarinnar sem ítrekað er rekin með tapi sem er svo fjármagnað með sköttum fólksins í landinu. Ennfremur innheimtir stofnunin afnotagjöld sem tvívegis hafa verið hækkuð á þessu ári. Auk þess er RÚV atkvæðamikið á auglýsingamarkaði í harðri samkeppni við einkafyrirtæki. Það er staðreynd að rekstur fjölmiðlafyrirtækja í einkaeigu hefur nær undantekningalaust gengið mjög illa. Flest hafa þau orðið gjaldþrota eða verið keypt upp af stærri aðilum. Við slíkar aðstæður er í raun eðlilegt að eignarhald fyrirtækja innan greinarinnar safnist á fárra manna hendur enda aðeins pláss fyrir fáa aðila á markaðinum. Þetta rekstrarumhverfi hefur Sjálfstæðisflokkinn varið um langt skeið og virðist því miður vera ófáanlegur til að breyta." Virkilega góður pistill, sem ég hvet alla til að lesa.

Fór eftir kvöldfréttirnar út í kuldann, hefur verið kalt hérna fyrir norðan um helgina. Vonandi seinasta norðanhretið eða kuldakastið á þessu vetrarskeiði. Fór á kaffihúsið Bláu könnuna, hitti þar nokkra vini og áttum við gott spjall um helstu málin, líflegt og gott spjall yfir súkkulaðitertu og kakósopa. Virkilega gaman, enda hress og góður hópur. Erum við farin að gera þetta reglulega og er virkilega gaman að þessu. Jafnast ekkert á við gott spjall í góðra vina hópi. Hitti ég þarna til dæmis gamlan félaga frá Dalvík, sem ég hafði ekki lengi hitt. Rabbaði ég allnokkuð við hann, enda um margt að tala. Var fínt kvöld á kaffihúsinu. Kom heim rétt fyrir 10. Fór þá að horfa á ítarlegt viðtal Sigmundar Ernis við Björn Bjarnason dómsmálaráðherra. Var þar rætt um fjölmiðlafrumvarp og ýmislegt sem Björn hefur unnið að í dómsmálaráðuneytinu, á því ári sem hann hefur setið þar á ráðherrastóli. Kom Gunnar Eyjólfsson í þáttinn og var rætt um qi gong við hann, en Gunnar er einn aðalforystumanna þess hérlendis. Áhugaverður þáttur. Eftir þáttinn fór ég að vinna í ítarlegum pistli sem ég þarf að skila í vikunni og mun birtast í riti um landbúnaðarmál á vegum SUS.
Dagurinn í dag
1943 14 bandarískir hermenn fórust er flugvél fórst á Fagradalsfjalli á Reykjanesi, m.a. Frank M. Andrews yfirhershöfðingi Bandaríkjanna - eftirmaður hans þar varð Dwight D. Eisenhower
1970 Álver Íslenska álfélagsins hf. í Straumsvík vígt við hátíðlega athöfn
1979 Bundinn endi á 5 ára valdatíð vinstrimanna á Bretlandi. Íhaldsmenn vinna kosningasigur
1986 Flugvél grandað í hryðjuverki Tamíl Tígra á Sri Lanka - 21 lætur lífið
1986 Íslendingar taka í fyrsta skipti þátt í Eurovision - lagið Gleðibankinn lendir í 16. sæti
Snjallyrði dagsins
Maðurinn er hvorki góður né vondur. Hann fæðist með tilhneigingar og hæfileika.
Honoré De Balzac
Breytt 18.9.2006 kl. 08:02 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Þú ert innskráð(ur) sem .
Innskráning