Mengella dauð - hulunni svipt af upprunanum

Jæja, þá er hin umdeilda Mengella, sem vakið hefur mikla athygli í netheimum, dauð. Hefur verið áhugavert að fylgjast með dauðateygjum þessa karakters síðustu dagana, þar til kom að nafnbirtingunni. Hún kemur þó ekki sem stórfrétt, enda var Gísli Ásgeirsson búinn að nafngreina Mengellu í ágúst og hitti þar naglann á höfuðið. Það var mjög mikið rætt þá en síðan einhvern veginn lognaðist það út af, en kraumaði samt undir niðri. Nýlegar nafnbirtingar þeirra sem áttu að standa að vefnum voru umdeildar, en flestir þeirra höfðu ekkert með síðuna að gera.

Segja má að endalokin hjá Mengellu komi eftir að 24 stundir fór að grafast fyrir um uppruna karaktersins og hét því að fólk kæmi með upplýsingar. Í staðinn fyrir að hlaupa frá 24 stundum er gengið frá aumingja Mengellu. Segja má þó að þessi leikur hafi gengið ótrúlega lengi. Það er samt ekki hægt að segja að Mengella sé einstök, enda er fullt af nafnlausu bloggi í gangi og sumir ganga lengra en aðrir. Talað hefur verið um Mengellu sem rotþró bloggsamfélagsins. Eflaust er það rétt, enda getur fólk gengið svo miklu lengra undir nafnleynd en ella væri gert.

Þetta er reyndar í fyrsta skipti sem ég skrifa um Mengellu, merkilegt nokk. Nokkrum sinnum tók ég eftir því að viðkomandi penni vék orðum að mér á bloggsíðu sinni. Það var svosem algjörlega mér að meinalausu. Með bloggskrifum mínum er ég fyrst og fremst að sinna áhugamáli mínu og tjá mig um mál málanna. Er þó varla einstakur, enda er ég bara einn þúsunda sem blogga hérlendis. Þeir lesa bara sem vilja og þeir sem þola ekki skrifin geta gert eitthvað annað, vonandi eitthvað annað þó en nöldra sig gráhærða yfir bloggsíðunni. 

Mengella var smátíma einhver brandari en gamanið var farið að kárna. Mörgum var nóg boðið og greinilegt var að nafnleyndin var að mást af og þetta var hætt að vera fyndið í huga æ fleiri einstaklinga. Því fagna eflaust flestir því að þessi karakter hafi verið blásinn af - fengið náðarhöggið.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Flosi Kristjánsson

Mengella hefur væntanlega skráð bloggið sitt undir kennitölu, eða hvað? Það held ég að menn þurfi almennt að gera, að minnsta kosti hjá Morgunblaðinu. 

Það er svo umhugsunarvert hve stutt eða langt menn mega ganga áður en teljast hættir að nýta tjáningarfrelsið og orðnir lögbrjótar.

Flosi Kristjánsson, 16.11.2007 kl. 14:56

2 Smámynd: Jónína Dúadóttir

Jahérna ég hef greinilega verið að missa af einhverju... merkilegu ? Aldrei heyrt þetta nefnt.

Jónína Dúadóttir, 16.11.2007 kl. 15:43

3 identicon

Hver var þessi Mengella? Ég hef ekki séð hvar hún var nafngreind.

Friðrik Jónsson (IP-tala skráð) 16.11.2007 kl. 18:45

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband