Flakkað á milli fjölmiðlanna

ISG

Ég sá um daginn á netinu umfjöllun um fund Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur, formanns Samfylkingarinnar, með Styrmi Gunnarssyni, ritstjóra Morgunblaðsins. Sat Ingibjörg Sólrún fundinn með Skúla Helgasyni, framkvæmdastjóra Samfylkingarinnar. Kom þessi fundur mörgum að óvörum, enda hefur ritstjórn Morgunblaðsins ekki beinlínis verið að ausa forystu Samfylkingarinnar lofi í ritstjórnargreinum á borð við leiðara og Staksteina. Hvarflaði því að mér að þessi fundur væri haldinn undir því yfirskini að formaður Samfylkingarinnar vildi ná sáttum við Styrmi og tala saman um þau. Eins og gefur að skilja hafa stuðningsmenn Samfylkingarinnar ekki mikið verið að flagga þessum fundi, og eða að gera hann mikið að umtalsefni, enda þeim varla til geðs að formaðurinn sé að friðmælast við Styrmi.

Ég verð að viðurkenna að það hvarflaði að mér hvort að Jón Baldvin Hannibalsson, ráðgjafi og pólitískur trúnaðarmaður Ingibjargar Sólrúnar, hafi komið fundinum á. Eins og flestir vita er Jón Baldvin æskuvinur Styrmis, en tengdafaðir Styrmis, Finnbogi Rútur Valdimarsson, var föðurbróðir Jóns Baldvins, bróðir Hannibals Valdimarssonar, fyrrum formanns Alþýðuflokksins, Alþýðubandalagsins og Samtaka frjálslyndra og vinstrimanna. Allir sem lesa ævisögu Jóns Baldvins sjá að Styrmir er mikill félagi Jóns Baldvins, þó að þeir hafi oft verið ósammála í stjórnmálum. Styrmir hefur verið ófeiminn að gagnrýna Samfylkinguna undir forystu Ingibjargar Sólrúnar og þótti því nokkur tíðindi að þau skyldu ákveða að hittast og fara yfir málin. Þótti mörgum sem að þarna væri kominn sannkallaður sáttafundur.

Nú er hinsvegar komið upp úr dúrnum að ekki er um að ræða einn fund sérstakan fyrir formann Samfylkingarinnar að ræða við fjölmiðlamenn. Um virðist að ræða, skv. umfjöllun á netinu, að hér sé fundaferð formannsins með fjölmiðlamönnum almennt. Eru því formaður og framkvæmdastjóri Samfylkingarinnar á ferð milli fjölmiðla til að ræða málin. Er þetta eiginlega kómískt finnst mér. Mér finnst ótrúlega lítið fjallað um þetta verklag formannsins að fara til fjölmiðlamanna og ræða við þá. Hvaða boðskap hefur formaðurinn til fjölmiðlamanna er líður að kosningavetri? Mér þætti forvitnilegt hvað yrði sagt um það ef að Geir Hilmar Haarde, forsætisráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins, og Kjartan Gunnarsson, framkvæmdastjóri Sjálfstæðisflokksins, færu á milli fjölmiðla til að ræða við yfirmenn og millistjórnendur þar.

Eitthvað hljóð myndi heyrast úr horni á "vissum" stöðum ef að Geir og Kjartan vildu fara milli staða og tala um fjölmiðlaumfjöllun pressunnar og verklag þeirra í byrjun kosningavetrar. Kannski eru Ingibjörg Sólrún og Skúli bara talin svona léttvæg að það er ekki rætt um þetta. Ég veit ekki hvað veldur. En þetta er kómískt engu að síður, lesandi góður. Veltum því fyrir okkur hvað stjórnarandstaðan myndi segja ef að fréttist af forystumönnum Sjálfstæðisflokksins í svona ferðalagi og eða t.d. bara af þeim á svona fundi með Þorsteini Pálssyni, ritstjóra Fréttablaðsins, en mér skilst reyndar að Ingibjörg Sólrún fari þangað líka. Þau hafa svosem um nóg að tala, enda voru þau saman í stjórnarskrárnefndinni.

Það er eiginlega merkilegast að vita hver boðskapur forystufólks Samfylkingarinnar er á þessum kostulegu fundum. Er þetta bara tespjall með léttu yfirbragði um settlega pólitík og stöðu mála eða hart pólitískt spjall og aðfinnsluhjal formannsins? Það segir mér allavega svo hugur að spjall Ingibjargar Sólrúnar og Styrmis hafi ekki bara verið dútlspjall, enda sjá allir sem fylgjast með að enginn hlýhugur hefur verið í garð Samfylkingarinnar frá Morgunblaðinu í ritstjórnarskrifum. Það er því ólíklegt að spjall þeirra hafi verið rólegt og án stjórnmálabrags.

En já þetta er kostulegt ferðalag flokksforystu sem hefur ekkert veganesti í stjórnmálabaráttu, það er ekki hægt að segja annað.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Hver er summan af einum og tíu?
Nota HTML-ham

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband