Flokkafylgi - sterk staða Sjálfstæðisflokksins

Flokkarnir

Í gær birtist könnun Fréttablaðsins á fylgi stjórnmálaflokkanna, fyrsta könnun blaðsins frá því í júní, skömmu eftir sveitarstjórnarkosningar. Þessi könnun er eins og allar aðrar vísbending á stöðu mála og athyglisvert innlegg í umræðuna. Ríkisstjórnin mælist með meirihluta í þessari könnun, þó naumur sé. Það hlýtur að vera áfall fyrir stjórnarandstöðuna, enda hefur hún hamast eins og hún frekast getur við að vekja athygli á sér og reyna að sýna hvað í henni getur búið, að ná ekki að höggva í stjórnina meira en þetta. Staða Samfylkingarinnar er mjög merkileg af stjórnarandstöðuflokki að vera og það gleður mig allavega ef að stuðningsmenn flokksins eru ánægðir með þessar tölur.

Eftir margra ára stjórnarandstöðu er Samfylkingin undir kjörfylginu árið 2003 og það hlýtur að valda þeim verulegum vonbrigðum, enda var jú ekki skipt um formann á þeim bænum til að lulla í því sama eða minna en þá fékkst upp úr kössunum. Sjálfstæðisflokkurinn er þarna að mælast vel yfir kjörfylginu árið 2003 og við getum litið vongóð til vetrarins. Það er vinna að standa í verkunum á kosningavetri og við erum tilbúin til þeirra verka sem framundan eru. Við erum með nýja forystu tilbúna til að leiða flokkinn og miklar breytingar hafa átt sér stað innan flokksins á þessu kjörtímabili. Staða flokksins mælist góð, sé mið tekið af því að flokkurinn hefur verið í ríkisstjórn samfellt í 15 ár.

Staða Framsóknarflokksins breytist lítið frá fyrri könnun. Vekur það athygli, enda hefur flokkurinn skipt um forystu. Væntanlega er það rétt sem fram hefur komið að það taki þessa nýju forystu tíma að ávinna sér traust og stuðning. Framsóknarflokkurinn hefur reyndar oft áður upplifað slæma tíma og t.d. í aðdraganda síðustu kosninga var flokkurinn ekki að mælast með neinn mann inni í Reykjavík en fékk þrjá er á hólminn kom, sem var það mesta í borginni fram að því. Það komu margar kannanir fyrir síðustu kosningar sem sýndi stjórnina fallna en hún hélt velli. Auk þessa vekur mikla athygli að sjá hrun Frjálslynda flokksins, en væntanlega ræður þar hvað flokkurinn hengur utan í Samfylkingunni.

Í dag birtist svo könnun á því hvernig mynstur af stjórn landsmenn vilja fá. Þar kemur fram með afgerandi hætti að meirihluti landsmanna vill að Sjálfstæðisflokkurinn verði áfram í ríkisstjórn. Það eru virkilega áberandi tíðindi, enda hefur flokkurinn verið í ríkisstjórn í 15 ár og leitt ríkisstjórnina nær samfellt frá árinu 1991, ef undan eru skildir 21 mánuðir á árunum 2004-2006. Framundan er spennandi kosningavetur og mikið fjör fyrir stjórnmálaáhugamenn. Verður fróðlegt að sjá næstu könnun hjá Gallup á föstudaginn.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Hver er summan af átta og þrettán?
Nota HTML-ham

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband