27.8.2006 | 02:15
Akureyrarvaka - tónlistarveisla í Listagilinu
Það var yndisleg stemmning í miðbænum hér á Akureyri í kvöld. Það var notalegt og ástríðufullt að helga sig menningunni á Akureyrarvöku, hátíð menningar og lista, hér í bænum í dag. Naut ég þess að labba um miðbæinn og eiga þar góða stund langt fram eftir kvöldi. Hitti marga vini og ættingja á svæðinu og var þetta sannkölluð unaðsstund. Þetta var kvöld menningar - ég hef alltaf verið mikill menningarvinur og met mikils hversu vel er haldið utan um þau mál hér. Við getum litið til okkar framlags í menningarmálum hér með miklu stolti - enda hefur Akureyrarvakan aldrei verið jafnglæsileg, lifandi og fersk eins og einmitt núna. Af þessu getum við öll verið stolt! Þetta er veisla sem við metum öll mikils.
Hápunktur Akureyrarvikunnar að þessu sinni voru óperutónleikar Sinfóníuhljómsveitar Norðurlands sem haldnir voru neðarlega í Listagilinu, á milli Hamborgar og Bautans, kl. 20:00 í kvöld. Þetta er einn fremsti menningarviðburður hér í bænum hin síðustu ár. Þetta var hvalreki í menningarmálum. Alveg unaðslegir tónleikar sem við munum öll minnast sem vorum þar stödd. Tónleikarnir voru haldnir í boði BM Vallár, en fyrirtækið er 60 ára á þessu ári, og voru þeir einnig sendir út í beinni útsendingu á Rás 1. Staðsetning tónleikanna hafði mikið að segja um hversu vel þeir tókust. Hljóðburður var mjög góður og það var notalegt að vera þarna er rökkva tók og hlusta á þessi meistaraverk í sögu óperutónlistar.
Sinfóníuhljómsveit Norðurlands er fyrsta flokks og perla í menningarlífi okkar. Það hefur sannast vel seinustu árin. Um síðustu helgi var hljómsveitin með glæsilega tónleika á borð við þessa á Klambratúni í Reykjavík. Með hljómsveitinni sungu þau: Kristinn Sigmundsson, Ólafur Kjartan Sigurðarson, Arndís Halla Ásgeirsdóttir, Kolbeinn Ketilsson og Sigríður Aðalsteinsdóttir. Stjórnandi hljómsveitarinnar er Guðmundur Óli Gunnarsson. Kynnir á tónleikunum var Akureyringurinn Arnar Jónsson, leikari. Tónleikar hljómsveitarinnar eru sannkallaður hvalreki fyrir okkur sem njótum menningar og lista og minnist ég með gleði í hjarta tónleika hljómsveitarinnar með Diddú og Jóhanni Friðgeir sem ég fór á í íþróttahús Síðuskóla á páskum 2005.
Einn af helstu kostum Akureyrar er blómlegt og öflugt menningarlíf. Það er alveg óhætt að fullyrða að menningarlífið hér norðan heiða sé engu líkt, í raun, sé miðað við íbúafjölda og framboð menningarviðburða. Akureyri hefur brag stórborgar hvað menningarlíf varðar. Hér er hægt að velja úr glæsilegum listviðburðum og njóta þeirrar sömu listaflóru og í raun og er í boði á höfuðborgarsvæðinu. Þegar ég ræði við sumt vinafólk mitt á suðurhluta landsins, sem sumt álítur mig vera staddan á hjara veraldar, bendi ég þeim á vef bæjarins og svo vefi listasafnsins og menningarvefi og þá verður þeim ljóst að hér er allt í boði sem lista- og menningarvinir þurfa á að halda.
Leikhúsið okkar er fyrsta flokks, listasafnið er stórfenglegt og fullt er af skemmtilegum viðburðum í Listagilinu okkar og sköpuð þar litrík og góð list. Við eigum öflugan Myndlistaskóla, Tónlistaskóla og svona má lengi telja. Menning og listir er fyrsta flokks hér. Marga þekki ég sem farið hafa norður síðustu árin og litið í leiðinni á verkin sem eru til sýningar í gamla og notalega leikhúsinu okkar og heillast algjörlega af vönduðum og vel gerðum sýningum. Með ráðningu Magnúsar Geirs Þórðarsonar í stöðu leikhússtjóra var stefnt að öflugu starfi og því að tryggja undirstöður leikhússins og sækja fram. Það hefur svo sannarlega tekist. Er það mikið gleðiefni að mati okkar sem unnum leikhúsinu og leiklistinni.
Nú seinustu mánuði hafa svo að auki verið mjög spennandi sýningar á Listasafninu - metnaðarfull dagskrá eins og ávallt. Nýlega var þar sýning á verkum Louisu Matthíasdóttur sem var svo sannarlega sólargeisli í hjarta listaunnenda á góðu sumri. Við hér fyrir norðan getum verið stolt af góðu orðspori Akureyrarbæjar sem menningarbæjar - miðstöðvar lista og menningar. Það er mikilvægt að við stöndum vörð um þetta orðspor og vinnum alltaf að því að treysta undirstöður þeirra lista sem við viljum að blómstri með þeim öfluga hætti og verið hefur á seinustu árum.
Við sjáum á Akureyrarvöku hversu mikill kraftur er í listalífinu okkar og við erum stolt af því og gleðjumst mjög yfir þessari miklu menningarveislu. Sérstaklega þökkum við kærlega fyrir þessa óperutónleika sem skilja eftir sig gleðitilfinningu í huga og sál okkar Akureyringa. Hvet lesendur til að smella á tengilinn hér fyrir neðan og hlusta á útendingu Rásar 1 frá tónleikunum. Yndislegt að hlusta á tónleikana og hafa það notalegt og gott.
Útsending Rásar 1 frá óperutónleikunum í Listagilinu
Breytt 18.9.2006 kl. 08:02 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Þú ert innskráð(ur) sem .
Innskráning