...um hræðsluáróður og rökfimi

Friðrik Sophusson

Skólarnir eru byrjaðir hér á Akureyri sem og annarsstaðar, það er farið að rökkva frekar snemma á kvöldin og atvinnumótmælendurnir virðast vera farnir frá Austfjörðum, enda heyrast ekki lengur fréttir af kostulega lélegu verklagi þeirra. Það hlýtur því að fara að líða að hausti, ekki satt, lesandi góður? Ég verð að viðurkenna að ég hef fylgst nokkuð með fréttum og tali um ágreining þann sem virðist uppi núna enn eina ferðina vegna Kárahnjúkastíflu, en nú styttist óðum í framkvæmdum fyrir austan ljúki og lónið verður fyllt í næsta mánuði. Það var vel gert hjá ráðherrum og forystumönnum Sjálfstæðisflokksins að halda með Ómari Ragnarssyni austur og kynna sér stöðu mála, eflaust var það fræðandi og góð ferð. Hún breytir þó auðvitað, eins og ég sagði hér í síðustu viku, engu um þær ákvarðanir sem liggja fyrir í málinu.

Ég verð að viðurkenna að hjartað í mér tók aukaslag yfir lestri frétta í Morgunblaðinu og fréttaflutningi NFS-sjónvarpsstöðvarinnar fyrir nokkrum dögum vegna Kárahnjúkastíflu. Var þar vitnað í bandaríska konu, sem titluð var prófessor í vatnafræðum, sem kom með sannkallaðar dómsdagsspár um stífluna og sennilega hræddi með því landsmenn alla sem og þá sem hafa komið að þessari framkvæmd fyrir austan. Nú virðist hafa verið afhjúpað að þarna var á ferð enn einn mótmælandinn, sem hafa seinustu mánuði reynt að hrella Austfirðinga og þröngva sér upp á þeirra rausnarlegu og höfðinglegu gestrisni, nú reyndar voru mótmælin pökkuð inn í frekar höfðinglegar umbúðir sem voru er á hólminn kom litlu höfðinglegri en nýju fötin keisarans sem lýst var í ævintýrinu forðum með svo eftirminnilegum hætti. Að fjölmiðlar skuli gleypa svona tal hrátt!

Atli Rúnar Halldórsson fer yfir alla vitleysuna í málflutningi sínum í góðum skrifum á bloggvef sínum. Mæli með þeim skrifum. Ekki má heldur gleyma yfirlýsingu forystumanna Verkfræðingafélags Íslands, sem afvopnar að fullu málflutning hinnar bandarísku fræðikonu, sem flokkast ekki undir neitt annað en einn mótmælandanna enn sem reynir að hrella Austfirðinga, að þessu sinni með dómsdagsspám sem eiga ekki neitt skylt við fræðimennsku heldur áróður. Það er reyndar með algjörum ólíkindum hvað er reynt í því skyni að skaða þessar framkvæmdir fyrir austan og hræða fólkið sem þar býr. Þessi nýjasti málflutningur er sínu verstur, enda er þar reynt að hræða almenning fyrir austan um að algjör eyðilegging gæti orðið þar. Það er gustukaverk að það tókst að afvopna þann áróður áður en lengra var haldið.

Í kvöld mættust Friðrik Sophusson, forstjóri Landsvirkjunar, og Guðmundur Páll Ólafsson, náttúrufræðingur og þekktur bókahöfundur um náttúrumál, í Kastljósi í spjalli undir stjórn Kristjáns Kristjánssonar. Það var fróðlegt spjall og athyglisvert að mjög mörgu leyti. Þar fannst mér Friðrik algjörlega brillera í því að tala af yfirvegun útfrá rökum um staðreyndir þessa máls alls. Þar reif hann niður gagnrýni Guðmundar Páls lið fyrir lið og algjörlega fór á kostum. Hann var gríðarlega rólegur en samt mjög ákveðinn. Það er ekki undrunarefni að Friðrik skyldi komast ungur til áhrifa í stjórnmálum, enda gríðarlega rökfastur og fimur í því að svara fyrir sig. Friðrik var þarna í toppformi og afvopnaði allt tal Guðmundar Páls með rökfimi og einbeitni sinni, sem hann var svo þekktur fyrir á stjórnmálaferli sínum.

Aumingja Guðmundur sat þarna frekar lúpulegur og nuddaði saman höndunum meðan Friðrik flysjaði tal hans niður eins og góður kokkur í eldhúsi á fimm stjörnu hóteli afhýðir hinn vænsta lauk. Friðrik er sjóaður eftir ólgusjó stjórnmálanna og átti ekki í erfiðleikum með þetta. Mér finnst reyndar gríðarleg örvænting komin í andstæðinga virkjunarinnar nú þegar að sumrinu er tekið að halla og styttist óðum í að lónið verði fyllt. Það er ekki óeðlilegt, best af öllu sést örvæntingin í því að flytja hingað inn útlendinga til að reyna að hrella og hræða landsmenn með gerviðblaðri sem ekki stenst.

Já mikil er örvænting þín maður minn, sagði frægur stjórnmálamaður eitt sinn við andstæðing sinn sem fór halloka með eftirminnilegum hætti og tapaði baráttu sinni með lélegum rökum. Mér dettur það einna helst í hug, í fullri einlægni og í sannleika sagt lesandi góður, þegar að ég hugsa til þessarar glötuðu baráttu þeirra sem reyna að hrella Austfirðinga núna, með þessum líka lélega árangri.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Hver er summan af fimm og fjórum?
Nota HTML-ham

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband