14.9.2006 | 00:39
Hentistefna Samfylkingarinnar í stóriðjumálum
Það hefur ekki farið framhjá neinum stjórnmálaáhugamanni í landinu að fylgi Samfylkingarinnar hefur dalað mjög á kjörtímabilinu. Ingibjörg Sólrún Gísladóttir gaf kost á sér til formennsku í Samfylkingunni á síðasta ári til að leiða flokkinn til nýrra pólitískra sigra og ráðandi stöðu í íslenskum stjórnmálum. Allir sem kynna sér fylgi Samfylkingarinnar frá landsfundi Samfylkingarinnar í fyrra er Ingibjörg Sólrún tók við formennsku sjá að fylgi flokksins minnkar sífellt. Samfylkingin hefur misst fylgi jafnt og þétt og er nú svo komið að Samfylkingin og Vinstrihreyfingin - grænt framboð standa á pari í skoðanakönnunum Gallups. Það hlýtur að jafnast á við martröð fyrir stuðningsmenn Samfylkingarinnar að vakna upp við svona fylgistap, enda ekki beint draumsýn þeirra sem studdu Ingibjörgu Sólrúnu til forystu í flokknum.
Það blasir við að Samfylkingin hefur misst mikið fylgi til vinstri og reyndar víðar en það, enda hafa margir hægrikratar yfirgefið flokkinn og gengið til liðs við Sjálfstæðisflokkinn. Samfylkingin virðist því vera í mikilli krísu, þrátt fyrir vist í stjórnarandstöðu alla sína tíð. Ekki hagnast flokkurinn á stjórnarandstöðutali sínu allavega. Nú virðist eiga að gera tilraun innan flokksins að snúa vörn í sókn. Í gær kynntu Ingibjörg Sólrún og nokkrir þingmenn flokksins áherslur flokksins í umhverfismálum. Þar kemur fram að flokkurinn vill fresta þeim stóriðjukostum sem eru nú á borðinu og hafa verið ræddir seinustu árin. Það væri reyndar fróðlegt að heyra hvernig Samfylkingarfólki í Þingeyjarsýslu líði með þessa afstöðu. Varaþingmaður flokksins hér, Örlygur Hnefill Jónsson, hefur verið baráttumaður fyrir álveri við Húsavík og staðið fyrir álgöngu til stuðnings við hana. Honum er varla mikið skemmt yfir þessari nýju ásýnd flokksins.
Það er greinilegt þegar að litið er yfir tillögur Samfylkingarinnar að þar á að snúa við blaðinu og reyna nú að ná einhverju af því vinstrafylgi sem þeir hafa misst yfir til VG og fá það aftur til sín. Þessi stefnuáhersla Samfylkingarinnar kemur mörgum spánskt fyrir sjónir þegar að litið er á þá staðreynd að Samfylkingin var mjög afgerandi í stuðningi sínum við Kárahnjúkavirkjun og álver á Austurlandi fyrir nokkrum árum. Sérstaklega voru þingmenn flokksins í Norðausturkjördæmi, þeir Kristján L. Möller og Einar Már Sigurðarson, afgerandi stuðningsmenn þess og sagði Kristján í viðtali að loknum blaðamannafundinum að hann væri enn þeirrar skoðunar að álver hafi verið réttur kostur austur við Kárahnjúka. Enn merkilegra var að heyra tal formanns flokksins við að kynna þessa stefnu enda studdi hún virkjun og álver fyrir austan í borgarstjórn á sínum tíma.
Allir þeir sem kynna sér tal Samfylkingarinnar í stóriðjumálum nú og bera saman við það sem áður hefur þaðan komið í þeim efnum sjá vandræðagang og tækifærismennsku. Samfylkingin hefur lengst af verið dyggur stuðningsaðili stóriðjuframkvæmdanna á Austurlandi, þó vissulega ekki verið eindrægni um þann stuðning á öllum stöðum. En hann var engu að síður mjög ráðandi innan flokksins. Allir þeir sem telja sér trú um annað eru á villigötum. Samfylkingin hefur verið þekktust allra flokka hérlendis fyrir að skipta um skoðanir í takt við vindáttir stjórnmálanna. Hún brást ekki þeirri grundvallarreglu í þessu máli frekar en öðrum. Fyrst í stað var flokkurinn á móti virkjun og álveri fyrir austan. Kaflaskil urðu á árinu 2002 þegar kannanir hófu að sýna að meirihluti landsmanna studdi framkvæmdina. Þá snerist Samfylkingin!
Í kosningu um virkjunina á þingi í apríl 2002 studdu flestir þingmenn Samfylkingarinnar málið, en nokkrir þingmenn voru andvígir vissulega, t.d. Þórunn Sveinbjarnardóttir. Skömmu síðar snerist forysta flokksins algjörlega til stuðnings við helstu þætti málsins. Dyggustu málsvarar þess allan tímann voru þó forystumenn Samfylkingarinnar í gamla Austurlandskjördæmi, og var afstaða þeirra lengi vel algjörlega andsnúin því sem Samfylkingin á landsvísu hafði um málið að segja. Ingibjörg Sólrún Gísladóttir hafði sem borgarstjóri tjáð mikla andstöðu sína og R-listans við virkjun og álver á Austurlandi. Í kjölfar þess að hún varð forsætisráðherraefni Samfylkingarinnar í ársbyrjun 2003 snerist hún til fylgilags við málið, allt að því með óbragð í munni, enda hafði hún sem stuðningskona Kvennalistans verið andsnúin öllum meginhugmyndum um stóriðju.
Mjög frægt varð þegar að Ingibjörg Sólrún, sem lengi vel var einbeitt baráttukona gegn stóriðjuuppbyggingu, snerist eins og laufblað í vindi í borgarstjórn í janúar 2003 til fylgilags við virkjunina. Það voru merkileg þáttaskil en augljóslega vegna tækifærismennsku vegna landsmálaframboðs síns þar sem að hún þurfti stuðning landsbyggðarfólks. Í alþingiskosningunum 2003 tjáði Samfylkingin einarðlega stuðning við álverið, einkum í Norðausturkjördæmi, þar sem helstu málsvarar framboðsins voru eitt sinn hluti af óánægjuhópnum sem börðust fyrir málinu frá upphafi, t.d. Einar Már Sigurðarson, alþingismaður frá Neskaupstað. Frægt varð þegar Samfylkingarforystan var á kosningaferðalagi á Austurlandi og hélt eins og ekkert væri sjálfsagðara að skilti við væntanlegt framkvæmdasvæði og lét mynda sig við það og notuðu í kosningabaráttunni.
Það var óneitanlega athyglisvert að sjá helsta málsvara gegn stóriðju til fjölda ára, Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur, sem aldrei studdi hugmyndir um stóriðju meðan Kvennalistinn sálugi var til, gera sig að málsvara stóriðju á Austurlandi sem hún neyddist til að lýsa yfir stuðningi við til að friða öfl innan Samfylkingarinnar á landsbyggðinni. Enginn vafi er á því að stuðningur Samfylkingarinnar var alla tíð tengdur vinsældapólitík, ekkert annað lá þar að baki. Andstaða við málið lengst framanaf hjá forystunni og snögg umskipti vegna stuðnings landsmanna við málið blasa við öllum þegar fjallað verður um allt málið af sagnfræðingum framtíðarinnar. Ólíkt Samfylkingunni var Vinstrihreyfingin - grænt framboð heiðarleg í málinu allt frá upphafi og afstaða þeirra öllum ljós frá því fyrst var farið að tala um álver á Austurlandi seinnihluta tíunda áratugarins.
VG var frá upphafi andsnúinn öllum hugmyndum um þessar framkvæmdir fyrir austan og flokkurinn í Norðausturkjördæmi hugsaði þá frekar um öll umhverfissjónarmið málsins, en hagsmuni almennings, fólksins á Austfjörðum sem barðist fyrir málinu. Það var til marks um stjórnmálabaráttu VG sem hugsaði frekar um gæsirnar til fjalla en fólkið í byggð. Það er öllum hollt að rifja upp sagnfræðina í þessum stóriðjumálum og ekki er hún forystufólki Samfylkingarinnar í hag, þó að reynt sé nú af sumum forystumönnum flokksins að sá fræjum efasemdar um þessa framkvæmd sem meginþorri þingflokks og forystuhóps flokksins studdi einarðlega í atkvæðagreiðslu á þingi og á ögurstundu er gengið var síðast til alþingiskosninga. Sama fólk og studdi virkjun og álver fyrir austan þá talar um að álver sé ekki rétt nú. Undarleg afstaða sé litið til þess sem áður hefur gerst.
Það er því óneitanlega nokkuð skondið að sjá Samfylkinguna stíga nú í sviðsljósið og lýsa yfir að vænlegast til pólitískra afreka sé að spila vinstri grænu aðferðina í stóriðjumálum. Síðast spilaði hún sig sem talsmann stóriðju en skiptir um plötur eftir því hvernig árar í kringum flokkinn. Kannski fara forystumenn flokksins að fylgja ráði Ögmundar Jónassonar og skella hurðum á nefndafundum þingsins? Tja, hver veit? Það er Ekki kemur það neinum að óvörum þó að Þórunn Sveinbjarnardóttir sé ánægð með þennan nýja kosningabúning flokksins á meðan að Kristján Möller, félaga hennar í þingflokknum, er lítið skemmt. Það sáu það allir að hann var að tala sér þvert um hug við að verja nýja afstöðu formanns flokksins og hersveitar hennar í áróðurspólitík.
Samfylkingin hefur verið þekktust fyrir það í formannstíð Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur að eiga verulega erfitt með að staðsetja pólitískar áherslur sínar og baráttumál. Þar hefur eitt verið sagt í dag og annað gert á morgun. Þessi tækifærismennska blasir við öllum og hún er lykilástæða þess hvernig flokknum hefur gengið. Þar hefur hvorki gengið né rekið í formannstíð Ingibjargar Sólrúnar. Nú á í aðdraganda kosninga að flýja undan fyrri merkjum og skreyta sig með nýjum táknum í takt við VG, enda skynjar forysta Samfylkingarinnar að þangað leitar fylgið sem lekur af Samfylkingunni eins og grýlukerti í vorvindunum.
Það er erfitt að skipta um skoðanir og áherslur á einni nóttu án þess að verða að athlægi. Það er enda ekki furða að fjölmiðlamenn hafi í viðtölum gærdagsins minnt þingmennina á þessi vandræðalegu vistaskipti skoðana og pólitískra leikjabragða sem þarna sjást með afgerandi hætti. Samfylkingin spilar sig klárlega til vinstri og reynir að slá inn í stuðningskjarna VG með því að skipta um stefnu í miðri siglingu. Þessi breytta afstaða Samfylkingarinnar hlýtur að leiða til þess að þau verði að gera upp fyrri baráttu sína fyrir stóriðju og verja sinnaskiptin. Það er að tala fyrir einu í dag og gera svo allt annað á morgun.
Vandræðagangur Samfylkingarinnar í stefnumótun hefur verið rómaður og það er sérstaklega ánægjulegt að fylgjast með þessu brölti þeirra á milli átta. Það heitir á góðri íslensku vinsældabrölt í stefnumótun. Þeir sem alltaf elta kannanir og einhverja vinda í kringum sig enda hlægilegir fyrir rest. Það er því varla furða að Samfylkingin sé með blæ vindhana á öllum póstum þessar vikurnar. Við fylgjumst öll spennt með þessu kapphlaupi Samfylkingarinnar við að elta pópúlismann uppi.
Breytt 18.9.2006 kl. 08:02 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Þú ert innskráð(ur) sem .
Innskráning