Ingibjörg Sólrún horfir hikandi til vinstri

ISG

Mikið hefur verið rætt að undanförnu um möguleikann á því að stjórnarandstöðuflokkarnir myndi kosningabandalag fyrir þingkosningarnar að vori. Stjórnarandstaðan er orðin frekar örvæntingarfull, svo vægt sé til orða tekið, við að reyna að ná völdum eftir langa eyðimerkurgöngu sína. Steingrímur J. Sigfússon, formaður VG, biðlaði innilega til Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur, formanns Samfylkingarinnar, og flokks hennar í ræðu sinni nýlega og í kjölfarið bauð ISG honum og formanni Frjálslynda flokksins heim til sín á Nesveg í Reykjavík í kaffispjall. Var undir eins farið að tala um kaffibandalagið en Jón Sigurðsson, viðskiptaráðherra og formaður Framsóknarflokksins, sló svo sannarlega í gegn með því að kalla þetta hræðslubandalagið.

Í reynd var það athyglisvert að formaður Framsóknarflokksins skyldi taka svona til orða í ljósi þess að kosningabandalag Alþýðuflokks og Framsóknarflokks við kosningarnar 1956 hlaut sama nafn. Gekk því ekki sem skyldi og komst ekki til valda eftir þær kosningar nema með því að halla sér upp að Alþýðubandalaginu undir forystu Hannibals Valdimarssonar. En það er svosem önnur saga, en ein af söguhliðunum sem alltaf er vert að fara yfir. Hræðslubandalagið 1956 er eina alvöru kosningabandalagið sem stofnað hefur verið til hérlendis. Reynslan af því varð ekki til góðs og svo mikið er víst að ekki reyndi Framsóknarflokkurinn að stofna til samstarfs af þessu tagi aftur með þessum hætti, þótt að þeir ættu nokkrum árum síðar eftir að vera í heil þrjú kjörtímabil í stjórnarandstöðu á viðreisnartímabilinu.

En aftur til nútímans. Það er skemmst frá því að segja að niðurstaða kaffifundarins var sú að ekkert yrði hræðslubandalag vinstriflokkanna fyrir kosningar. Hinsvegar tóku formennirnir svo til orða að myndu stjórnarandstöðuflokkarnir fella meirihluta stjórnarflokkanna ættu þeir allt að því nokkurskonar forkaupsrétt hver á öðrum eftir kosningarnar. Með öðrum orðum: flokkarnir þora ekki að stíga skrefið til fulls en gefa hitt og þetta í skyn með mjög óljósum hætti. Það er greinilegt að Samfylkingin vill ekki binda sig VG um of og vill geta rásað til að eigin vild. Enn þáttur þessa er svo auðvitað sú staðreynd að Samfylkingin og VG standa á pari í nýjustu könnunum Gallups og hræðist forysta Samfylkingarinnar það greinilega mjög að samstarf umfram þetta yrði valdahnútukast milli flokkanna tveggja.

Um helgina kom Ingibjörg Sólrún norður á Skjólbrekku þar sem samfylkingarfólk í Norðausturkjördæmi hélt kjördæmisþing sitt. Þar fór hún yfir pólitíska andrúmsloftið svona rétt áður en að flokksmenn í kjördæminu tókust á um hvort ætti að fara prófkjörsleið Bensa Sig og sumra Akureyringanna í flokknum eða einhverja allt aðra og hógværari leið. Í máli hennar kom fram að hún horfir greinilega til vinstri en virðist ekki þora að leggja í að setja vinstriflokkanna alla undir með afgerandi hætti í kosningabandalagi heldur talar með óljósum hætti til vinstri. Það er enginn vafi á því í huga mér eftir yfirlýsingar formanns Samfylkingarinnar um helgina að hún vill vinstristjórn en telur ekki viðeigandi að festa sig VG meðan að þeir standa sig svona vel í skoðanakönnunum og nú er.

Það mun styrkja Sjálfstæðisflokkinn verulega ef að vinstrimenn munu fylkja liði með þessum hætti og allir fundu af tali formanns Samfylkingarinnar um helgina. Með þessu forkaupsréttartali vinstrimanna á hvor öðrum fækkar mjög kostum til stjórnarmyndunar og valkostirnir verða æ skýrari. Ég tel að landsmenn vilji ekki vinstristjórn og vinstristefnu til valda. Fari svo að vinstriöflin stemmi sig saman tökum við því brosandi, vitandi það að kjósendur vita hvað þeir hafa nú í góðri stöðu þjóðfélagsins heilt yfir. Það hefur enda sést vel að landsmenn vita hvað stendur á bakvið vinstristjórnir: það er óeining, valdabarátta og hnútuköst um allar hliðar stjórnmálanna. Þetta sjáum við öll með því að kynna okkur sögu vinstristjórna á Íslandi, þær hafa allar gefist upp á limminu að lokum.

Það blasir við öllum að formaður Samfylkingarinnar vill mynda vinstristjórn að vori. En hún vill ekki loka á neitt. Það er skiljanlegt hafandi séð Samfylkinguna taka þá miklu skyssu í borgarmálunum í vor að allt að því loka á Sjálfstæðisflokkinn sem kost til meirihlutamyndunar. Niðurstaðan varð enda sú eftir kosningarnar er ljóst varð að R-listaflokkarnir náðu ekki meirihluta að Samfylkingin stóð hnípin eftir á lestarpallinum og horfði á hana fara framhjá sér. Viðræðurnar eftir kosningarnar snerust í raun um það hvaða flokkur myndi vinna með Sjálfstæðisflokknum, sem var með pálmann í höndunum. Samfylkingin vill ekki brenna sig með sama hætti og hún markaði framboði Dags B. Eggertssonar í vor og vill halda öllu opnu.

...en hún horfir samt til vinstri, en þorir þó ekki að viðurkenna það - af mjög skiljanlegum ástæðum.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Hver er summan af tíu og sex?
Nota HTML-ham

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband