6.9.2006 | 22:56
Blair gefur eftir - átakafundur Blair & Brown
Það var tilkynnt á Sky News nú er líða tók á kvöldið að Tony Blair, forsætisráðherra Bretlands og leiðtogi breska Verkamannaflokksins, muni tilkynna á morgun um allar megintímasetningar endaloka stjórnmálaferils síns. Hann neyddist að lokum til að beygja sig undir vilja fjölda flokksmanna, sumra mjög holla honum í áraraðir, um að gefa upp hvenær hann muni láta af embætti og hætta þátttöku í stjórnmálum. Aðeins fyrir nokkrum dögum þótti slíkt óhugsandi. Dagurinn í dag markaði þáttaskil fyrir Blair, hann gat eftir atburði dagsins ekki haldið áfram með sama hætti. Pólitískur ferill hans var á einu augabragði kominn í verulega hættu og við blasti svipuð grimmileg örlög honum og Margaret Thatcher er henni var án miskunnar steypt af stóli innan breska Íhaldsflokksins í nóvember 1990. Fall Thatcher er lexía fyrir alla stjórnmálamenn.
Í níu ár hefur Tony Blair verið stjórnmálamaður sem hefur viljað forðast að láta aðra ráða sinni för. Hann var lengst af sigursæll og afgerandi leiðtogi, sterkur og afgerandi leiðtogi sem mótaði stefnuna og aðrir fylgdu honum án hiks á þeirri vegferð. Þeim tíma er nú einfaldlega lokið. Eftir að Blair hafði náð sama markmiði og Margaret Thatcher að sigra þrennar þingkosningar var honum umhugað um aðeins eitt: hann vildi ekki falla í sömu dimmu gryfjuna og Margaret Thatcher féll í þegar að hún missti yfirsjón á flokki sínum og vilja landsmanna. Hún sagðist ætla að halda áfram eins lengi og stætt væri og taldi fjarstæðu að aðrir ættu að ráða örlögum sínum. Blair hefur séð það á atburðarás seinustu daga að sömu örlög voru í sjónmáli að óbreyttu. Hann hefur nú sætt sig við að hann er algjörlega upp á náð og miskunn flokksmanna kominn.
Það hefur nú verið staðfest að samskipti Tony Blair og Gordon Brown hafa í raun hrunið vegna atburða seinustu daga. Hafi þau verið slæm fyrir hafa þau náð algjörum botni nú. Blair lítur svo á að stuðningsmenn Gordon Brown hafi hafið þessa styrjöld innan flokksins og þar ráði persónulegur metnaður hans. Á fundi þeirra undir kvöld krafðist Brown þess að forsætisráðherrann myndi hætta þátttöku í stjórnmálum fyrir jól og stíga niður af sviðinu sem fyrst. Það væri komið nóg. Um var að ræða mikinn átakafund og er lýsingu af því sem þar fór fram og vísbendingar um annað sem gerst hefur í dag að finna á vef Guardian. Það er greinilegt að veruleg krísa er orðin innan Verkamannaflokksins. Lykilforystumenn talast vart orðið við og heift er á milli þeirra sem þó talast við í þeim örmum sem tekist hafa á seinustu árin.
Það er fyrir löngu orðið ljóst að samkomulag var gert á milli Brown og Blair um skiptingu valda eftir valdatöku flokksins árið 1997, sem gerði ráð fyrir að Blair viki fyrir Brown þegar að liði undir lok annars tímabilsins, ríkti flokkurinn það lengi. Blair sveik það samkomulag með eftirminnilegum hætti og síðan hafa samskipti þeirra verið aðallega sýndarmennska á yfirborðinu fyrir fjölmiðla og flokkskjarnann. Nú er allt slíkt tal greinilega liðið undir lok og Brown telur nú vera kominn tíma til að Blair víki. Hann hefur sett fram afgerandi kröfur um að þau valdaskipti verði innan 16 vikna en ekki fjölda mánaða eins og Blair hefur gefið í skyn af yfirlýsingum í blöðum eyrnamerktum Rupert Murdoch, velgjörðarvins hans og flokksins í valdatíð hans. Blair lítur svo á að Brown sé að kúga sig út í afsögn og telur hann standa að baki því sem gerst hefur.
Á morgun er semsagt komið að örlagastund og Blair tekur af skarið með hvernig hann vill skilja við forsætisráðherrastólinn og leiðtogastöðu Verkamannaflokksins, með því í raun binda enda á aldarfjórðungslangan stjórnmálaferil sinn. Búast má því við stórtíðindum á morgun og verður mjög spennandi að sjá hver viðbrögðin verða við yfirlýsingu forsætisráðherrans. Það er greinilegt að í mesta lagi mánuðir lifa enn af valdaferli Tony Blair, eða Teflon Tony eins og hann hefur jafnan verið nefndur. Búast má við að eftir það sem á undan er gengið að Blair vilji reyna með öllum ráðum að koma í veg fyrir að Brown fái rósagöngu í leiðtogastólinn.
Það eru spennandi tímar framundan í breskum stjórnmálum, sama hvert stefnir úr þessu. Tony Blair berst nú opinberlega fyrir því að ná að yfirgefa Downingstræti hnarreistur eftir tæpan áratug á valdastóli en ekki leiddur burt af vettvangi valdanna af þeim sem annaðhvort hafa svikið hann innan flokksins eða gefið í skyn að tími hans sé einfaldlega liðinn.
Örlög Margaret Thatcher fyrir 16 árum hafa nú þröngvað hann til að gefa út tímaplan endalokanna. Hvort þau endalok verða með þeim hætti sem hann vill er stóra spurningin nú. Verða pólitísk endalok hans þau sömu og Thatcher hlaut?
Breytt 18.9.2006 kl. 08:02 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Þú ert innskráð(ur) sem .
Innskráning