Haustar að hjá Blair í Downingstræti 10

Tony Blair

Það er ekki hægt að segja annað en að breski Verkamannaflokkinn minni stjórnmálaskýrendur þessar vikurnar hreinlega á hinn blóðugasta vígvöll. Armar flokksins takast á orðið fyrir opnum tjöldum og án nokkurs hiks um pólitíska framtíð Tony Blair, forsætisráðherra Bretlands, sem leitt hefur flokkinn nú í rúm tólf ár. Í maí í vor voru níu ár liðin frá sögulegum kosningasigri flokksins. Þá varð Tony Blair húsbóndi í Downingstræti 10 eftir að hafa leitt flokk sinn til valda eftir 18 ára stjórnarandstöðu. Er Blair kom í Downingstræti 10 sem forsætisráðherra að loknum fundi með drottningu var hann hylltur af mannfjölda sem þar var saman kominn. Blair þótti þá táknmynd heiðarleika og nýs upphafs í breskum stjórnmálum. Hann naut mikils fylgis lengi vel og þótti hafa níu líf sem slíkur á valdaferlinum. Nú er öldin önnur.

Ef marka má fréttir í dag eru andstæðingar forsætisráðherrans innan þingflokks Verkamannaflokksins orðnir óþreyjufullir. Þess hafa sést skýr merki að forsætisráðherrann ætlar sér ekki að fara frá strax, þrátt fyrir vilja margra í gagnstæða átt. Í vor lýsti forsætisráðherrann því yfir í fyrsta skipti að hann hefði ekki hug á að sitja út allt kjörtímabil sitt, en áður hafði hann margoft lýst yfir að þetta yrði hans síðasta kjörtímabil í stjórnmálum. Hefur verið tekist á um það seinustu mánuði hvenær að Blair muni hætta og þrýst á tímasetningu frá honum. Nú talar Blair með þeim hætti að hann verði við völd fram á næsta ár og hafi alls ekki í hyggju að hætta fyrir maímánuð 2007, þegar að áratugur er liðinn frá valdatöku flokksins. Það er augljóst að hart er sótt að Blair og harkan er meiri en nokkru sinni áður.

Tony Blair er orðinn óvinsæll og markvisst hefur hallað undan fæti hjá honum frá þingkosningunum í Bretlandi í fyrravor, er hann tryggði flokknum völdin þriðja kjörtímabilið í röð. Hann hefur enda verið í miklum átökum við andstæðinga sína innan flokksins sem hafa sterkari stöðu nú en áður. Flestum má ljóst vera að breskir kjósendur hafa fengið nóg af Blair og telja hann orðið gerspilltan sem ómast í skoðanakönnunum. Skv. þeirri nýjustu telja yfir 70% landsmanna stjórn Blairs jafnspillta og ríkisstjórn John Major á tíunda áratugnum, þar sem hvert hneykslismálið reið yfir. Blair hefur virkað þreytulegur og úr tengslum við kjarnann, bæði í flokknum og hinn almenna kjósanda. Í nóvember 2005 beið hann þó sinn táknrænasta ósigur á ferlinum - þá tapaði hann í fyrsta skipti í atkvæðagreiðslu í breska þinginu.

Gordon Brown

Innan flokksins hefur lengi staðið einvígi milli hægri- og vinstriaflanna. Þessar átakalínur eru ekki nýjar. Tony Blair hefur alla tíð barist við vinstrihlutann í flokknum. Sá armur hefur aftur á móti eflst til mikilla muna eftir að halla tók undan fæti hjá forsætisráðherranum í kjölfar Íraksstríðsins og ýmissa undangenginna hneykslismála á þessu ári. Þessi armur sækir nú fast að honum og krefst þess að hann víki, helst sem fyrst. Blair gefur ekki eftir og segist ekki ætla að nefna tímaplan breytinga á forystu flokksins. Munu raddir þess efnis að hann verði að taka af skarið aukast til muna nú og nú þegar hafa allt að 80 þingmenn (óánægjuarmurinn) ljáð máls á að senda opið formlegt bréf til Blair með þessari ósk.

Spurningin sem nú blasir við flestum stjórnmálaspekúlöntum í Bretlandi er tvíþætt - í fyrra lagi hversu lengi mun hann vera við völd og mun hann geta komið málum sínum í gegn? Forsætisráðherrann varð fyrir miklu áfalli í vor, sennilega því mesta á 25 ára stjórnmálaferli sínum, þegar að flokkurinn beið afhroð í byggðakosningum og missti rúmlega 300 sveitarstjórnarfulltrúa sína. Hann svaraði tapinu með umfangsmikilli uppstokkun á stjórn sinni og setti hann t.d. Jack Straw og Charles Clarke út og gerði Margaret Beckett að utanríkisráðherra, fyrst kvenna, og John Reid að innanríkisráðherra. Í fyrra náði flokkurinn varnarsigri í þingkosningum. Það tókst þá með því að senda Gordon Brown með forsætisráðherranum á kosningafundi og sýna þá saman. Með því var skýrt auglýst að Blair var ekki lengur segull flokksins.

Það er öllum ljóst að óánægjan með forsætisráðherrann innan flokks og utan er opinber og dylst ekki lengur, þó lengi hafi henni verið haldið niðri. Það gat ekki gengið eftir seinustu þingkosningar er þingmeirihluti flokksins rýrnaði það mikið að óánægjuarmurinn var kominn í oddastöðu. Athygli hefur vakið að Gordon Brown, fjármálaráðherra, og sá sem helst er talinn líklegur næsti leiðtogi breska Verkamannaflokksins hvetur til stillingar og rólegri samskipta milli fylkinganna um stöðu mála. Hann vill reyna að lægja öldur. Það er auðvitað athyglisvert að Brown vilji leyfa Blair að yfirgefa bresk stjórnmál með þeim hætti sem hæfir honum eftir langan valdaferil.

Gordon Brown og Tony Blair

Það kemur mér ekki á óvart að Gordon Brown kippist við eins og staðan er orðin og vilji reyna að finna lausn sem hentar báðum aðilum. Ég tel að Gordon Brown vilji ekki verða Michael Heseltine Verkamannaflokksins (Michael Heseltine skoraði Margaret Thatcher á hólm í leiðtogakjöri íhaldsmanna 1990). Gordon Brown skynjar að það verði ekki flokknum né honum til heilla að taka flokkinn yfir með þeim hætti sem sumir fylgismanna hans vilja. En kannski kemur að því að hjá því verði ekki komist.

Öllum er ljóst að það styttist óðum í að Blair verði að láta af embætti. Hvort að það gerist með innri uppreisn, eins og var í tilfelli Margaret Thatcher árið 1990, eða með því að hann víki sjálfviljugur er stóra spurningin. Framundan eru spennandi tímar, sem fyrr, í breskum stjórnmálum.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Hver er summan af tveimur og þremur?
Nota HTML-ham

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband