Spennandi tímar í Svíþjóð



Samgleðst innilega með Svíum að hafa kosið rétt og skipt út krötunum fyrir nýja tíma undir forystu nafna míns Fredrik Reinfeldt. Svíar voru búnir að fá nóg af Göran Persson og stjórn hans og vildu stokka upp. Það var nokkuð glapræði hjá Persson að halda í enn einar kosningarnar og það fór sem fór hjá honum. Er sammála Guðmundi Árna Stefánssyni, sendiherra og fyrrum kratahöfðingja hér heima á Íslandi, um það að þessar breytingar voru fyrirsjáanlegar. En ég held að kratar í Svíþjóð hafi haldið í vonina gríðarlega lengi að sjá sveifluna sem myndi redda þeim. Hún kom aldrei - framundan er allsherjar uppstokkun þar núna þegar að Persson hverfur af sviðinu. Þar bíður allavega enginn af kalíber Önnu Lindh eftir að taka við. Þetta verður þeim erfitt.

Mér finnst Fredrik mjög spennandi stjórnmálamaður. Hann kemur með ferska vinda nýrra tíma inn í þetta. Fyrst og fremst held ég að fólk hafi verið að kalla á nýjar áherslur og ferska vinda inn í forystu sænskra stjórnmála. Reinfeldt hefur allavega með sér blæ velvilja þegar að hann tekur við. Munurinn varð reyndar ekki mikill milli valdablokkanna en nógu mikill samt til að stokka hlutina drastískt upp. Nú reynir á Reinfeldt úr hverju hann er í raun gerður. Fólk vill væntanlega að hann byrji af krafti og efni öll fögru fyrirheitin. Ég ætla að vona að hann standi við það sem hann lofaði. Það voru falleg kosningaloforð og ef þau standast öll munu vonandi hægrimenn standa saman aðrar kosningar í röð og verða valdablokk sem getur vænst annars sigurs á eftir þessum.

Fróðlegast verður að sjá hverjir koma inn með Fredrik til valda. Sérstaklega merkilegt verður að sjá hver verði utanríkisráðherra og taki við af Jan Eliasson. Á eftir að sakna Eliasson, enda var það fagmaður í utanríkismálum sem verðskuldaði þann sess að verða utanríkisráðherra Svíþjóðar. Hann var allavega betrungur þeirrar skessu sem Laila Freivalds var í utanríkismálum og í raun skandall Perssons að velja hana til að taka við af hinni gríðarsterku Önnu Lindh. Ég sé á vefum dagsins í Svíþjóð að kratar sakna Önnu. Skarð hennar er ófyllt og söknuður sænskra krata í hennar garð er ósvikinn. Ég hlakka til að sjá hver geti tekið við hlutverki Perssons við þessar aðstæður. Þar verður harður slagur.

Á meðan verða sænskir hægrimenn að taka við völdunum af krafti og standa sig vel. Það verður þolraun fyrir þá að taka við völdunum og standa undir væntingum. Ég hef fulla trú á því að sú verði raunin. En nú byrjar fjörið í Svíaríki fyrir fullt og fast, tel ég.


mbl.is Ný ríkisstjórn tekur væntanlega við í Svíþjóð 6. október
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband