Össur kjörinn þingflokksformaður Samfylkingarinnar



Össur Skarphéðinsson, fyrrum formaður Samfylkingarinnar, var í dag kjörinn formaður þingflokks Samfylkingarinnar á fundi þingflokksins í Hvalfirði. Þær voru því réttar kjaftasögurnar sem ég heyrði í gærkvöldi að það yrði Össur sem yrði þingflokksformaður í stað Margrétar Frímannsdóttur, sem er að hætta í stjórnmálum eftir langt og farsælt starf fyrir Samfylkinguna. Það eru varla tíðindi að forysta Samfylkingarinnar kalli nú á Össur til verka fyrir flokkinn. Hann hefur verið gríðarlega duglegur að blogga og tjá sig um menn og málefni samtímans eftir að hann missti formannsstólinn í flokknum fyrir ári. Hann fær með þessu vissa uppreisn æru eftir að hafa misst hlutverk sitt í forystunni eftir tapið í slagnum fyrir svilkonu sinni.

Össur hefur verið líflegur í stjórnmálum og tekur nú á sig þingflokksformennskuna, væntanlega er það skýr merking þess að nota eigi krafta hans í þeirri kosningabaráttu sem brátt hefst. Hinsvegar er það væntanlega súrt í broti fyrir norðanhöfðingjann, Kristján L. Möller, að fá ekki formennskuna, en hann var varaformaður Möggu Frímanns og verður varaformaður áfram. Kristján á reyndar framundan harðvítugan slag við Benedikt Sigurðarson hér á Akureyri á næstu vikum og þarf væntanlega á öllu sínu að halda til að koma standandi frá þeirri glímu. Það yrði altént athyglisvert ef Kristjáni yrði sparkað og yrði þar með fjórði kjördæmaleiðtogi Samfylkingarinnar sem færi frá því verki fyrir kosningar.

En ég má til með að óska Össuri til hamingju með formennskuna og vona að hann verði jafnlíflegur og hress áfram í því að blogga og hann hefur verið. Það er til marks um styrk hans að Ingibjörg Sólrún endurvinni hann í forystuna með þessum hætti. Það hefur allt gengið í handaskolum hjá svilkonunni eftir að Össur missti flokksformennskuna og því varla undur að hann sé nú kallaður til verka við að leggja henni hjálparhönd á kosningavetri. Ekki veitir henni af.... nú eða flokknum, sjáiði til.


mbl.is Össur kjörinn formaður þingflokks Samfylkingarinnar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband