Leiðtogakreppa sænskra krata



Göran Persson gekk á fund forseta sænska þingsins í dag og baðst lausnar fyrir sig og ráðuneyti sitt. Fredrik Reinfeldt, verðandi forsætisráðherra, er hafinn myndun nýrrar stjórnar og ætlað að hún muni taka við valdataumunum eigi síðar en 6. október nk. Vinstraskeiðinu er því lokið í sænskum stjórnmálum og væntanlega verða íslenskir jafnaðarmenn að leita annað en til Svíþjóðar núna til að segja frægðarsögur af vinstrisigrum. Staðan er reyndar sú að í norðurlöndunum fimm verða jafnaðarmenn aðeins við völd í Noregi (Jens Stoltenberg) þegar að Persson hefur látið af embætti. Annarsstaðar eru miðju- eða hægrimenn við völd að þessu loknu, sem er gleðiefni.

Ég sé að sænskir fréttaskýrendur eru þegar farnir að velta vöngum yfir því hver verði eftirmaður Görans Perssonar á leiðtogastóli jafnaðarmannaflokksins. Það er ekki beint um auðugan garð að gresja þar og eins og fyrr sagði í dag er enginn augljós eftirmaður, eins og var þegar að Anna Lindh var utanríkisráðherra og afgerandi forystukona innan flokksins. Enn eru kratarnir að jafna sig á dauða hennar, en þá dó krónprinsessa flokksins og augljós eftirmaður eftir valdadaga Perssons. Sænsku spekingarnir spá konu embættinu. Þeir telja Margot Wallström, kommissar hjá ESB, vænlegasta.

Tek ég undir þá spádóma. Það var reyndar talað um það snemma ársins 2005 að Persson ætti að víkja og láta Wallström sviðið eftir. Það fór ekki. Ekki undarlegt að hennar nafn sé þarna í pottinum. Enn og aftur heyrist nafn Monu Sahlin. Hún var talin líklegasti eftirmaður Ingvars Carlssons lengi vel, en hann var leiðtogi kratanna 1986-1996 og forsætisráðherra 1986-1991 og 1994-1996. Svo fór að vegna kreditkortahneykslis varð Sahlin að segja af sér árið 1995 og hnossið féll fjármálaráðherranum Persson í skaut. Sahlin hefur verið umdeild og skandalarnir hafa elt hana uppi lengi.

Margot Wallström Mona Sahlin

Einhverjir nefna Wönju Lundby-Wedin, verkalýðskrata í flokknum, en ég tel það langsótt val. Ætli það verði ekki Wallström sem verði að teljast líklegust. Annars eru pælingarnar bara rétt að byrja svosem. Finnst það reyndar kostulega dramatískt að nefna nafn Sahlin enn og aftur, en hún er orðin frekar slitin sem stjórnmálamaður eftir sína skandala.

Reyndar fannst mér það alveg kostulegt þegar að Sahlin var valin í bakgrunni allra auglýsinga Perssons í baráttunni og eiginlega til marks um hvað yfirgangur Perssons í flokknum hefur leitt til þess að leiðtogafátækt einkennir flokkinn nú þegar að hann hrökklast frá völdum. Þar eru fáir kostir eftir ef kratarnir þarna líta á Sahlin sem rétta aðilann sem eigi að leiða þá aftur til vegs og virðingar eftir þennan ósigur.


mbl.is Persson baðst lausnar og borgaraflokkarnir hefja stjórnarmyndun
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband