Krýning eða leiðtogaslagur í kraganum?

Þorgerður Katrín GunnarsdóttirBjarni Benediktsson

Öllum varð ljóst við tilkynningu Árna M. Mathiesen um að gefa kost á sér til forystu framboðslista Sjálfstæðisflokksins í Suðurkjördæmi við næstu alþingiskosningar að Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, menntamálaráðherra og varaformaður Sjálfstæðisflokksins, teldist langlíklegasti eftirmaður hans í Suðvesturkjördæmi. Það duldist engum að Þorgerði Katrínu var það lítt að skapi við kosningarnar 2002 að þurfa að taka áfram fjórða sætið, sem hún vann, reyndar verulega óvænt og taldist þá gríðarlegur pólitískur sigur, í prófkjörinu 1999 í það skiptið. Þorgerður Katrín vildi þá prófkjör en varð undir með þá afstöðu. Öllum var ljóst að prófkjör þá hefði styrkt stöðu hennar gríðarlega.

Nú hefur Þorgerður Katrín þegar lýst yfir leiðtogaframboði í kraganum og hefur mjög sterka stöðu til forystu af skiljanlegum ástæðum. Flestir telja þar um krýningu að ræða, enda sé hún varaformaður og leiði öflugt ráðuneyti. En þær raddir heyrast að Bjarni Benediktsson, alþingismaður, sé enn að hugsa sitt og hvort hann eigi að stefna á fyrsta sætið eða hið annað. Bjarni kemur af Engeyjarætt eins og fleiri mætir menn. Hann hefur komið mjög sterkur til leiks í stjórnmálum. Hann tók við formennsku í allsherjarnefnd árið 2003 og hefur staðið sig þar með miklum sóma. Hann var kom t.d. mjög vel fram í hinu umdeilda fjölmiðlamáli árið 2004.

Hefur Bjarni vakið mikla athygli fyrir glæsilega frammistöðu í fjölmiðlum og hefur æ oftar verið nefndur sem einn af helstu forystumönnum Sjálfstæðisflokksins síðar meir. Hvernig sem fer nú á næstu mánuðum í aðdraganda þessara kosninga deilir enginn um sterka stöðu hans og stjörnusjarma sem stjórnmálamanns. Hann hefur algjörlega slegið í gegn sem framtíðarmaður frá innkomu sinni á þing. Síðast var hann í fimmta sæti, allir vita að hann stefnir mun ofar nú. Valið er um að gefa kost á sér í fyrsta sætið eða annað. Hægt er að slá því algjörlega föstu að hann mun ná mun ofar að þessu sinni.

Það stefnir í mikla uppstokkun í kraganum í næstu þingkosningum. Tveir þingmenn flokksins, kjörnir árið 2003, eru hættir. Árni farinn í Suðrið og Gunnar Birgisson hefur helgað sig bæjarmálunum í Kópavogi. Það er mikið talað um hvort að sveitarstjórnarmenn flokksins í kjördæminu, Ragnheiður Ríkharðsdóttir, bæjarstjóri í Mosfellsbæ, og Ármann Kr. Ólafsson, forseti bæjarstjórnar í Kópavogi, fari fram. Svo er talað um framboð Sigurrósar Þorgrímsdóttur, sem tók sæti Gunnars á þingi í fyrra og varð fullgildur þingmaður eftir kosningarnar í vor og Jóns Gunnarssonar, en bæði koma þau úr Kópavogi eins og Ármann.

Spáð er og spekúlerað líka í stöðu Sigríðar Önnu Þórðardóttur, fyrrum umhverfisráðherra. Hægt er að slá því föstu að Ragnheiður fer ekki fram gegn Sigríði Önnu, enda gæti slíkt þýtt að Mosfellingar missi þingsæti. Margar pælingar eru á döfinni, sem væntanlega verða enn meira áberandi eftir kjördæmisþingið í kraganum. Stóra spurningin nú er: Verður krýning eða leiðtogaslagur í kraganum? Þessari spurningu getur aðeins Bjarni Benediktsson í Garðabæ svarað fyrir okkur.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband