JFK óttaðist tilræði í Chicago - ráðgátan mikla

JFK rétt fyrir morðið Í gær voru 44 ár liðin frá morðinu á John F. Kennedy, 35. forseta Bandaríkjanna, í Dallas í Texas. JFK hafði aðeins ríkt í rúma 1000 daga er hann var lagður að velli. Myndræn endalok þessa nútímalega bandaríska þjóðhöfðingja eru sama ráðgátan nú og var þá. Þótt liðinn sé langur tími frá þessum atburðum eru þeir mörgum Bandaríkjamönnum enn í fersku minni og blandast þar saman sorg, söknuður og tilfinningin um að þjóðin hafi verið svipt ungum og kraftmiklum leiðtoga.

Spurningunni um morðingja Kennedys er enn ekki svarað að fullu. Opinber rannsóknarnefnd, Warren-nefndin, komst að þeirri niðurstöðu að Lee Harvey Oswald hefði framið morðið og verið einn að verki en margir aðhyllast þá kenningu að árásarmennirnir hafi verið tveir og sumir segja allt að fjórir, eins og vel kom fram í umdeildri kvikmynd Oliver Stone, JFK, árið 1991. Einnig hafa komið fram kenningar um að mafían, bandaríska leyniþjónustan, útsendarar erlendra ríkja eða jafnvel Lyndon B. Johnson, eftirmaður Kennedys á forsetastóli, hafi skipulagt ódæðið. Allt frá fyrsta degi hafa tilgáturnar verið margar og þeim mun fjölga á næstu árum er opinber skjöl málsins verða loks opinberuð.

Ætla að horfa á JFK aftur um helgina. Horfi alltaf á þessa mynd einu sinni á ári, enda finnst mér hún lifandi vísbending þess sem ég tel að hafi orðið, að Kennedy hafi fallið vegna innri átaka með verk hans. Það er djörf samsæriskenning en engu að síður mjög líkleg að mínu mati. Kvikmyndin kemur með aðra útgáfu en þá opinberu og þær samsæriskenningar sem þar komu fram hafa alltaf verið umdeildar. Ólíklegt er að niðurstaða, sem allir sætta sig við, fáist nokkurn tíma en ekkert lát er á umfjöllun um morðið, bæði í bókum og fjölmiðlum þótt rúmir fjórir áratugir séu liðnir frá morðinu á forsetanum.

Það er áhugavert að heyra nú hulunni svipt endanlega af áhyggjum Kennedys forseta á tilræði í Chicago í Illinois í nóvemberbyrjun 1963. Lengi hefur verið lífseig sagan að Kennedy hafi hætt við þá ferð vegna morðtilræðis sem komið hafi verið upp um og hann hafi óttast svæðið, enda mjög umdeildur þar. Engu að síður mun ég samt aldrei skilja ákvörðun forsetans að halda í gegnum Dallas í óvörðum bíl, algjört skotmark andstæðinga sinna. Enda hefur bandarískur forseti ekki ekið með þessum hætti í stórborg í opnum bíl.

En örlög Kennedys voru sorgleg, en hann lifir með heimsbyggðinni. Svipmynd hans gleymist ekki. Í ferð minni til Washington í október 2004 fór ég í Arlington-þjóðargrafreitinn að grafreit Kennedys forseta. Á gröf hans og Jacqueline, konu hans, sem lést árið 1994, lifir hinn eilífi logi, táknmynd þess að vonarneistinn slokknar aldrei, hvað sem á bjátar.

mbl.is Áform um að myrða Kennedy í Chicago
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Hér er mjög fróðleg heimildarmynd um dauða JFK http://youtube.com/profile_videos?user=TMWKK&p=r

Andri (IP-tala skráð) 23.11.2007 kl. 12:29

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband