Áhugaverðar pólitískar lýsingar hjá Guðna

Guðni Ágústsson Það er mjög áhugavert að lesa þær pólitísku lýsingar á hitamálum síðustu tveggja áratuga í íslenskri pólitík sem er að finna í ævisögu Guðna Ágústssonar, formanns Framsóknarflokksins. Er að hugsa um að kaupa mér bókina strax á morgun og hefja lesturinn fljótlega. Hafði hugsað mér að bíða fram í desember með að lesa bókina - sé þó að þarna er talað það tæpitungulaust um helstu mál að ráðlegast er að byrja strax um helgina.

Guðni hefur verið í pólitísku starfi mjög lengi, svo hann hefur vissulega frá mörgu að segja. Hann hefur setið á þingi fyrir Suðurland í tvo áratugi, var landbúnaðarráðherra í tvö kjörtímabil, varaformaður Framsóknarflokksins í sex ár og tók við flokksformennsku á krossgötum flokksins í vor, eftir að honum var hafnað af landsmönnum og horfðist í augu við stjórnarandstöðu í þriðja skiptið á fjórum áratugum. Þetta er því eflaust saga manns á krossgötum eftir að hafa verið í eldlínu stjórnmálanna í áraraðir.

Guðni er reyndar að gera upp margt í þessari bók - greinilega fyrst og fremst að gera upp við Halldór Ásgrímsson. Það er ekkert hernaðarleyndarmál að þeir áttu ekki skap saman og tókust oft harkalega á. Framsóknarflokkurinn stendur illa núna, hefur ekki náð að lyfta sér af sínum botni og margir telja Guðna biðleik innan flokksins, sé aðeins millibilsformaður. Það eru giska vond örlög fyrir mann sem hefur beðið lengi eftir tækifærinu að leiða flokkinn, en tók við honum í rúst. Talað er um hvort Framsóknarflokkurinn sé einfaldlega að líða undir lok, sérstaklega þegar að traust flokksfólk eins og Anna Kristinsdóttir er farin úr honum.

Það er að ég tel einsdæmi að starfandi flokksformaður í hita og þunga íslenskra stjórnmála skrifi sögu sína og það var mjög vel ráðið hjá Guðna að fá Sigmund Erni til að leggja sér lið við bókina. Þar fer enginn flokkshestur Framsóknarflokksins og því alveg ljóst að farið er gagnrýnið yfir pólitíska sögu Guðna, sem um leið verður pólitísk saga Framsóknarflokksins á umbrotatímum - það er saga sem hefur ekki verið rituð af hreinskilni fyrr og því áhugavert að fá sér eintak og lesa.

mbl.is Forsetinn ætlaði einnig að hafna breyttum fjölmiðlalögum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband