Opinskátt uppgjör Guðna við Halldór og Davíð

Guðni Ágústsson Guðna Ágústssyni, formanni Framsóknarflokksins, er að ganga vel að kynna ævisögu sína - enda að opinbera merkilega þætti fjölmiðlafrumvarpsins, mesta hitamáls íslenskra stjórnmála síðustu árin. Þar er vitnað t.d. í merkileg einkasamtöl við Ólaf Ragnar og í ákafa Davíðs Oddssonar við að koma fjölmiðlamálinu áfram. Guðni var svo í viðtölum á báðum stöðvum í kvöld og í settlegu viðtali hjá Loga Bergmanni þar sem mikið var talað um ævisöguna.

Það sem er áhugaverðast að mörgu leyti er þó að heyra lýsingar á því hvernig Halldórsarmurinn ætlaði gjörsamlega að svína á Guðna er Halldór Ásgrímsson ákvað að hætta í stjórnmálum, lotinn að kröftum og með Framsóknarflokkinn í algjöru rusli, þó hann hefði forsæti ríkisstjórnarinnar í höndum sér. Halldór naut sín aldrei sem forsætisráðherra og minna 21 mánaða ferill hans í embættinu, sem hann þráði svo lengi, einna helst á píslargöngu frekar en sigurstund litríks stjórnmálaferils. Guðni var ekki metinn verðugur eftirmaður og taka átti hann með sér í fallinu, er kom að því að Halldór brast þrek og þróttur.

Það varð flestum ljóst þegar að Framsóknarflokkurinn tapaði stórt í sveitarstjórnarkosningunum í fyrra að Halldór var á útleið. Þreytan og vonbrigðin láku af honum sem svitaperlur. Einna best skynjaði ég það er ég sá viðtal Helga Seljan, frænda míns, við Halldór á hinni sálugu NFS síðla kosninganætur í hófi flokksmanna í Þjóðleikhúskjallaranum. Þar fór bugaður maður sem talaði um að hann þyrfti að axla ábyrgð á vondum kosningaúrslitum. Flokkurinn tapaði stórt í þessum kosningum; missti t.d. tvo menn í gamla höfuðvígi sínu hér á Akureyri og ennfremur í Kópavogi, þar sem Sigurður Geirdal hafði drottnað árum saman - náði hinsvegar naumlega að tryggja Björn Inga Hrafnsson, örlagamann borgarmálanna, inn í borgarstjórn.

Það var greinilega gengið mjög harkalega fram í því að reyna að draga Guðna út af sviði stjórnmálanna með Halldóri. Það er alveg með ólíkindum að heyra lýsingarnar af því hvernig Guðni var beðinn um að afsala sér réttinum til formennsku í flokknum, sem sitjandi varaformaður, vegna þess að Halldór hafði misst stöðu sína, var búinn að vera en gat ekki hugsað sér að varaformaðurinn tæki við. Enda muna flestir mómentið á Þingvöllum kvöldið sem Halldór sagði af sér, gjörsamlega bugaður og flokkurinn í eymd, að þar talaði hann mikið um Finn og framlag hans til flokksins og allt að því flutti pólitíska líkræðu yfir Guðna með orðavali sínu.

Guðni er djarfur í frásögnum greinilega, fer alla leið í uppgjöri. Hann vitnar bæði í einkasamtöl sem eru mjög nálæg í tíma og fellir þunga dóma yfir þeim sem hann vann mest með í stjórnarsamstarfi Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks; þeim Davíð Oddssyni og Halldóri Ásgrímssyni. Uppgjörið verður öflugra en ella vegna þess að báðir menn eru enn sprelllifandi og atburðirnir mjög nálægir í tíma - heitustu lýsingarnar eru enda á málum sem lítið hefur verið skrifað um, enda aðeins eins til þriggja ára. Uppgjör Guðna á pólitíska hitasumrinu 2004 virkar altént mjög tæpitungulaus.

Það verður eflaust mjög freistandi fyrir fjölmiðlamenn að leita viðbragða þeirra sem Guðni gerir hvað mest upp við; framsóknarforingjans fallna og norræna diplómatsins í Köben og yfirmannsins í Svörtuloftum. Enda er mjög merkilegt að heyra lýsingar á ofríki Davíðs og linkind Halldórs, sem einna helst er lýst sem hugleysingja undir lok samstarfsins við Davíð. Guðni er tæpitungulaus og er mikið í mun að gera upp við báða þessa menn. Það uppgjör eru stærstu tíðindi þessarar bókar.

Það verður gaman að fá sér eintak á morgun og byrja að lesa!

mbl.is Hörðum átökum Guðna og Halldórs lýst í nýrri bók
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Já það kom að því að Guðni sagði hug sinn allan í sambandi við hann Halldór.Hann á hrós skilið hann Guðni. Ég bíð spennt að geta lesið bókina hans.

Guðbjörg Elín Heiðarsdóttir (IP-tala skráð) 23.11.2007 kl. 23:58

2 Smámynd: Óðinn Þórisson

örgugglega skemmtileg lesning. vandamál guðna í dag er ekki hvort bókin seljist eða ekki heldur hvort hann nái að gera framsóknarflokkin aftur að fjöldahreyfingu

Óðinn Þórisson, 24.11.2007 kl. 09:54

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband