Vinstrisigur í Ástralíu - Howard tapar þingsætinu

John Howard Verkamannaflokkurinn hefur sigrað, mjög afgerandi, í áströlsku þingkosningunum. John Howard, forsætisráðherra Ástralíu, hefur meira að segja tapað þingsæti sínu í Bennelong í Sydney til sjónvarpskonunnar Maxine McKew. Endi hefur því verið bundinn á ellefu ára valdaferil Howards og frjálslyndra í Ástralíu. Kevin Rudd, hinn fimmtugi leiðtogi ástralskra jafnaðarmanna, verður nú forsætisráðherra.

Þessi úrslit eru vægast sagt háðugleg endalok á litríkum stjórnmálaferli Howards, sem hafði unnið fjórar þingkosningar og var orðinn einn þaulsetnasti forsætisráðherra Ástralíu. Hann hafði setið við völd allt frá sögulegum kosningasigri í ársbyrjun 1996 er hann felldi Paul Keating frá völdum. Hann hafði verið eins og teflon-maður alla tíð síðan og kötturinn með níu lífin á sínum forsætisráðherraferli. Howard verður annar forsætisráðherrann í ástralskri sögu sem missir þingsætið.

Flestir töldu hann búinn að vera í aðdraganda kosninganna 2004 en hann vann að lokum góðan sigur á Mark Latham, sem spáð var forsætisráðherraembættinu um langt skeið. Þá tókst honum að snúa vörn í sókn. Hann sá hinsvegar aldrei til sólar í þessari kosningabaráttu. Mjög umdeilt þótti hjá honum að halda í fimmtu kosningarnar, enda þótti flestum tími hans vera liðinn sem framlínustjórnmálamanns. Hann storkaði þar örlögunum með sama hætti og hinn þýski Helmut Kohl.

Margir vildu að hann rýmdi til fyrir Peter Costello, augljósum arftaka hans allan valdaferilinn, frekar en að sækjast eftir fimmta kjörtímabilinu. Það hefði verið virðulegri endalok fyrir Howard en þessi slátrun sem ástralskir hægrimenn verða fyrir nú. Þessi ólga varð það mikil að Howard tilkynnti að myndi hann sigra í kosningunum yrði rýmt til fyrir arftakanum Costello fljótlega á næsta kjörtímabili. Landsmenn voru orðnir hundleiðir á Howard og honum hefur nú verið refsað harkalega. Litlar líkur eru annars á að Peter Costello taki við frjálslynda flokknum og fari frekar í viðskiptaheiminn.

Nú er Kevin Rudd, verðandi forsætisráðherra Ástralíu, með öll spil á hendi - hann verður nú örlagavaldur ástralskra stjórnmála, hefur fellt Howard af stalli sínum. Flestir muna eftir athyglisverðu eyrnamergsáti Rudds, en í kosningabaráttunni var myndband af þeirri lítt geðslegu iðju hans opinberað. Það hafði engin áhrif, eins og sést á úrslitunum, þó farið væri með þá fregn eins og stórtíðindi.

mbl.is Ástralskir jafnaðarmenn lýsa yfir sigri
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband