Spenna í prófkjöri Samfylkingarinnar í kraganum

Árni Páll Árnason

Ég sé að Árni Páll Árnason, lögmaður og sérfræðingur í Evrópurétti, hefur tilkynnt um leiðtogaframboð sitt í Suðvesturkjördæmi. Árni Páll er bróðir Þórólfs Árnasonar, forstjóra Skýrr og fyrrum borgarstjóra í Reykjavík, sem tók við borgarstjóraembættinu af Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur við merkilegar aðstæður í ársbyrjun 2003 og neyddist til að hætta vegna olíumálsins í árslok 2004. Árni Páll hlýtur að teljast ansi sterkur frambjóðandi fyrir Samfylkinguna. Það eru miklar breytingar framundan í kraganum hjá þeim og hafa átt sér stað þegar á þessu kjörtímabili.

Guðmundur Árni Stefánsson hætti á kjörtímabilinu sem leiðtogi flokksins í kjördæminu og varð sendiherra í Svíaríki. Varamaður hans, Ásgeir Friðgeirsson, ákvað að þiggja ekki þingsæti Guðmundar Árna og var þess í stað áfram almennatengslafulltrúi Björgólfsfeðga. Rannveig Guðmundsdóttir er svo að hætta eftir langan þingferil. Þegar hafa Þórunn Sveinbjarnardóttir, alþingismaður, og Gunnar Svavarsson, forseti bæjarstjórnar í Hafnarfirði, tilkynnt um framboð sín í fyrsta sætið.

Verður spennandi slagur þarna um forystuna sýnist mér. Þórunn er auðvitað orðin efst þeirra þingmanna sem eftir eru í kjördæminu og því ekki undarlegt að hún vilji fara alla leið. Gunnar hefur verið einn helsti forystumaður hreins meirihluta Samfylkingarinnar í Hafnarfirði og er greinilega fulltrúi hópsins þar sem með völdin fer. Að auki hefur Tryggvi Harðarson gefið kost á sér, en hann var framarlega í Alþýðuflokknum í Hafnarfirði í bæjarstjóratíð Guðmundar Árna 1986-1993 og varð svo síðar bæjarstjóri á Seyðisfirði.

Svo eru auðvitað Katrín Júlíusdóttir og Valdimar Leó Friðriksson, alþingismenn í kjördæminu í framboði. Katrín og Árni Páll berjast væntanlega um þann sess að vera fulltrúi Kópavogs í fremstu sveit flokksins í kjördæminu. Það hlýtur að styrkja Árna Pál að hafa að baki sterkan feril í Evrópumálum, en hann hefur verið sérfræðingur víða í tali um alþjóðastjórnmál og Evrópumál undanfarin ár og var ráðgjafi Jóns Baldvins í utanríkisráðherratíð hans. Altént stefnir í spennandi prófkjör þarna og hressileg átök.


mbl.is Árni Páll Árnason býður fram fyrir Samfylkingu í Suðvesturkjördæmi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: G. Tómas Gunnarsson

Ég held að það verði ekki síst spennandi að sjá hvernig nýkynnt umhverfisstefna Samfylkingarinnar komi til með að verða kynnt af frambjóðendum í þessu kjördæmi.

Munu væntanlegir frambjóðendur leggja á það áherslu að stækkun í Straumsvík verði sett á "ís" í u.þ.b. 5 ár eða verða þeir fylgjandi framkvæmdum?

G. Tómas Gunnarsson, 19.9.2006 kl. 17:37

2 Smámynd: Stefán Friðrik Stefánsson

Sæll

Já, satt segirðu. Það er varla þörf á Spaugstofunni þegar að við sjáum Samfylkinguna sverja af sér stóriðjustefnu en er á meðan með flokksmenn út um allt land vælandi eftir því að munað sé eftir þeim þegar að rætt er um álver. Við sjáum stöðuna í Hafnarfirði og svo segja Samfylkingarmenn hér í Norðausturkjördæmi að allt eigi að bíða nema Húsavík. Þetta er grátlega fyndið. :)

mbk. SFS

Stefán Friðrik Stefánsson, 19.9.2006 kl. 17:45

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband