Well, I used to vote for John Howard, but.....

John Howard Það er ekki hægt að segja annað en að stjórnmálaferli John Howard, forsætisráðherra Ástralíu, ljúki með háðuglegum hætti. Hann ætlaði að storka örlögunum og halda í fimmtu kosningarnar sem leiðtogi frjálslyndra en tapar völdum til kratanna og þingsætinu sínu í Bennelong, sem hann hefur haldið með glans í yfir þrjá áratugi, til landsþekktrar sjónvarpskonu. Það er oft erfitt að þekkja vitjunartíma sinn í stjórnmálum og það verða pólitísk eftirmæli Howards, sem oft hefur haldið velli með ótrúlegum hætti.

Ég heyrði oft hjá áströlskum vinum mínum og stjórnmálaskýrendum í Eyjaálfu í þessari kosningabaráttu eina smellna setningu sem verður eflaust litríkasta setning þessa kjördags þar sem John Howard er hafnað - vísað á dyr; Well, I used to vote for John Howard, but.... Að því kom að landsmenn fengu einfaldlega nóg af Howard og þeir hafa nú sent honum reisupassann, vissulega kuldalega og miskunnarlaust. En þetta þarf ekki að koma neinum að óvörum. Howard hafði verið lengi í stjórnmálum og mátti vita að það væri að tefla á tæpasta vað að reyna við þessar kosningar.

Það er oft gallinn með þaulsetna leiðtoga að þeir kunna ekki þá list að fara af hinu pólitíska sviði með sæmd. Geta ekki hætt leik þá er hann hæst stendur og fara hnarreistir og öflugir frá völdum. Howard hafði mörg gullin tækifæri á síðasta kjörtímabili að fela Peter Costello völdin. Í þeim efnum hefði hann getað tryggt hægrimönnum annað kjörtímabil í Ástralíu. Hann gerði það ekki, taldi sig ómissandi. Howard fer nú í flokk með stjórnmálamönnum á borð við Margaret Thatcher og Helmut Kohl, sigursæla stjórnmálamenn sem skynjuðu ekki endalokin sem voru öllum öðrum orðin ljós.

Segja má að flokksfélagar Howards hafi verið of kurteisir við hann í aðdraganda þessara kosninga. Margir vöruðu hann við áhættunni, sem hann lét sem vind um eyrun þjóta. Eflaust taldi Howard það geta gengið að feta í fótspor Tony Blair og veifa mögulegum eftirmanni sem gulrót fyrir kjósendur: Ef þið kjósið mig fáið þið þennan í þokkabót. Blair tókst að selja sig með Gordon Brown með nákvæmlega þessum hætti árið 2005. En pólitískt kapítal Howards var búið. Þetta er persónulegur ósigur hans, áfellisdómur með að hafa ekki getað hætt standandi.

Enda hefði ekkert þurft að kalla á stjórnarskipti í Ástralíu beint. Ástralir standa vel að mjög mörgu leyti. Þrátt fyrir að Howard auglýsti sig með góðum efnahag og farsælum verkum að mörgu leyti fékk hann reisupassann, rétt eins og John Major í Bretlandi fyrir áratug. Vindarnir höfðu einfaldlega blásið í aðrar áttir. Kevin Rudd varð sameiningartákn breytinganna eins og Blair forðum í Bretlandi.

Dómgreindarbrestur Howards verður hægriblokkinni í Ástralíu dýrkeyptur. Það verður fróðlegt að sjá hver tekur við af Howard sem leiðtogi þessa hóps. Peter Costello hefði verið ídeal eftirmaður hans en það hefur margt breyst í dag. Forsætisráðherraembættið er runnið Costello úr greipum að sinni og ekki undrunarefni ef hann færi í aðrar áttir.

mbl.is Howard viðurkenndi ósigur sinn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband