Hermann Jón sver af sér græningjastefnuna

Hermann Jón Tómasson

Hermann Jón Tómasson, leiðtogi Samfylkingarinnar á Akureyri, formaður bæjarráðs og verðandi bæjarstjóri á Akureyri (árin 2009-2010) var á fullri ferð í kvöldfréttunum við að afneita feik-umhverfisstefnu þeirri sem Ingibjörg Sólrún Gísladóttir og félagar hennar í forystusveit Samfylkingarinnar hafa boðað nú nýlega. Þar segir að ekki sé pláss fyrir álver næstu fimm árin. Hermann Jón telur merkilegt nokk hugmyndir um álver við Húsavík ekki falla undir þessar hugmyndir og tekur þar með undir það sem Kristján L. Möller, leiðtogi flokksins í kjördæminu, og Húsvíkingurinn Örlygur Hnefill Jónsson, varaþingmaður, hafa sagt í fjölmiðlum. Þvílík afneitun!

Það leggur stæka gervilykt frá þessari umhverfisvænu stefnu. Hún virðist ekki halda vatni, enda eru Samfylkingarmenn um allt land að segja að þessi stefna sé ekki sniðin að þeim. Fulltrúar flokksins á kragasvæðinu eru lagðir á flótta frá þessari stefnu eins og félagar þeirra hérna fyrir norðan. Það er merkilegast af öllu að sjá flokksleiðtogann hérna á Akureyri segja að þessi stefna sé ekki sniðin fyrir þá hér og auðvitað séu þeir undanskildir henni. Þetta er alveg kostulega fyndið og það þarf varla Spaugstofuna í Sjónvarpið meðan að svona er ástatt fyrir Samfylkingunni, eins og allir sjá þessa dagana. Þetta er alveg óborganlegt.

Það er skiljanlegt að þessir "höfðingjar" eigi líka erfitt að verja þessa umhverfisstefnu í byggðum sínum þegar að nær dregur kosningum að vori. Ég hlakka líka til að sjá Samfylkingarframbjóðendur reyna t.d. að telja fólki í Þingeyjarsýslu trú um að stefnan gildi allsstaðar annarsstaðar en þar á meðan að fólk í kraganum segir það sama um sitt svæði. Þetta er alveg með ólíkindum klént og lélegt. En það er eiginlega ekki hægt annað en að kenna í brjósti um þessa Samfylkingarmenn að þurfa að verja þessa nýju tískustefnu leiðtogans síns í græningjadressinu.

Það verður erfitt verkefni á kosningavetri, spái ég altént.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband