Styttist í forkosningarnar - er Hillary ósigrandi?

Bill og Hillary Rúmum mánuði fyrir forkosningar demókrata í Iowa virkar Hillary Rodham Clinton ósigrandi í flokki sínum - sú sem hefur afgerandi stöðu í könnunum og sú sem hefur allt í höndum sér. Hún er meira að segja farin að tala sem kona valdsins. Ný skoðanakönnun Zogby sýnir þó vel að kosningabarátta hennar er brothætt og að lokamánuðurinn í aðdraganda forkosninganna gæti orðið spennandi. Kannski gæti svo farið að forkosningarnar yrðu jafnari og meira spennandi en spáð var.

Það er nefnilega það versta sem fyrir Hillary getur komið á lokasprettinum fyrir forkosningarnar að mælingar sýni að hún sé vissulega vonarstjarna innan flokksins en sé hinsvegar talin geta tapað í forsetakosningunum sjálfum og það fyrir hvaða frambjóðanda repúblikana sem er. Þessi nýjasta könnun verður án nokkurs vafa eitt sterkasta vopn bæði Barack Obama og John Edwards gegn Hillary í aðdraganda forkosninganna - þeir munu keyra á því dag og nótt allt til enda forkosninganna að Hillary muni ekki geta sigrað t.d. Rudy Giuliani eða John McCain. Hún sé of umdeild meðal hinna ýmsu hópa samfélagsins til að ná lýðhylli.

Hitinn í kosningaslag demókrata hefur verið að aukast stig af stigi. Hann var settlegur lengst af, en er orðinn persónulegur og kuldalegur. Athygli vöktu nýlegar persónulegar árásir Edwards á Hillary. Hún svaraði fyrir sig mjög hvasst og stingandi í garð Edwards í kappræðum forsetaefna demókrata fyrir nokkrum dögum. Þar var Hillary reyndar langöflugust og náði aftur afgerandi forskoti, eftir að hún hafði sýnt merki þess að vera farin að hökta. Það hefur vissulega ekki verið vafi nokkuð lengi hvert stefni í slag demókrata - Hillary hefur um eða yfir 20 prósentustiga forskot og stefnir að því að vinna stórt.

Howard Dean hafði líka vænt forskot á þessum tímapunkti fyrir fjórum árum en missti það niður eftir vont upphaf í forkosningum og eftir fræga ræðu þar sem hann öskraði eins og galinn maður. Eftir það var hann talinn lame duck og fólk flúði hann unnvörpum. Hillary veit að hún er í þeirri stöðu að allir ráðast á hana, jafnt samherjar í flokknum sem og frambjóðendur repúblikana. Hún er í miklum hita verandi sú sem virðist ein örugg um að vera í slagnum til enda, vera raunverulegur keppinautur um Hvíta húsið eftir tæpt ár. Það gerir það að verkum að sótt er að henni ekki síst innan flokksins.

Hillary Rodham Clinton veit að hún fær aðeins þetta eina tækifæri til að verða forseti Bandaríkjanna. Mistakist henni nú er aðeins tímaspursmál hvenær hún hætti í stjórnmálum. Hún mun því verða miskunnarlaus í baráttunni, leggja allt undir og vera áberandi og beitt - við hlið eiginmannsins, sem sjálfur var á forsetavakt í átta ár. Þau hafa verið draumateymi Demókrataflokksins í fimmtán ár. Hann er eini forseti demókrata frá því að Reagan vann Hvíta húsið af Carter og þau hafa sögu að verja. Tap núna myndi veikja sögulega stöðu þeirra beggja til lengri tíma litið.

Það eru spennandi átök framundan. Þessi könnun veitir sóknarfæri gegn Hillary innan eigin flokks. Það verður áhugavert að sjá hvernig henni gangi í gegnum viðkvæmasta hluta baráttunnar. Persónulega tel ég að forkosningar demókrata gætu orðið spennandi. Annaðhvort vinnur Hillary stórt í upphafi eða þetta verður harkaleg barátta þar sem allt getur gerst. Hillary þarf að vinna stórt og það fljótt til að verða sigurstjarna.

mbl.is Repúblikanar vinsælli en Clinton
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Fyrst þú nefnir John McCain og Rudy Guiliani þá mætti kannski benda þér á Ron Paul sem er einn sá vinsælasti að ég held heilt yfir ...

http://www.youtube.com/watch?v=G7d_e9lrcZ8

Bjarni (IP-tala skráð) 27.11.2007 kl. 02:05

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband