Erfiður vetur fyrir Framsókn framundan

Jón Sigurðsson

Nú hefur Jón Sigurðsson, iðnaðar- og viðskiptaráðherra, setið á formannsstóli í Framsóknarflokknum í heilan mánuð. Það er framundan erfiður vetur fyrir Framsóknarflokkinn. Það má fullyrða að stór hluti þess hvernig ganga muni ráðist senn á kjördæmisþingum flokksins vítt um land þar sem að valið verður á framboðslista. Mér sýnist að Framsóknarflokkurinn ætli allsstaðar að nota sömu aðferðina við val frambjóðenda sinna, það er að hafa tvöfalt þing með kosningu um sæti. Þá er kosið um hvert sæti fyrir sig í raun. Þetta er vissulega nokkuð sniðug lausn og tryggir með því að öll svæði kjördæmisins, t.d. hinna víðfeðmu landsbyggðarkjördæma, fái sinn fulltrúa og þar verði fulltrúar beggja kynja.

Mér finnst lítið hafa borið á Jóni sem formanni Framsóknarflokksins. Það er kannski eðlilegt að vissu leyti. Mér sýnist hann aðallega vera að undirbúa sig fyrir kosningaveturinn og þau verkefni sem verða innan flokkskjarnans í vetur. Enn er þeirri spurningu ósvarað hvar formaður Framsóknarflokksins ætlar fram. Hann sagði aðspurður af Helga Seljan, frænda mínum, í viðtali á NFS í kjölfar formannskjörsins að hann ætlaði sér ekki í slag við neinn um forystusess eða reyna að forðast það allavega. Þá eru fáir staðir eftir svo vægt sé til orða tekið. Væntanlega er þar fyrst og fremst horft á leiðtogastól Halldórs Ásgrímssonar í Reykjavík norður. Þar er eini lausi leiðtogastóllinn fyrir þessar kosningar.

Jón hefur verið áhrifamaður í flokkskjarnanum lengi en nær alla tíð til baka í honum. Hann þekkir innviði flokksins giska vel. Það er öllum ljóst að hann mun reyna að stilla saman strengi í flokknum og tryggja að hann komi standandi og vígfimur til kosninganna að vori. Þar er svo sannarlega mikil vinna framundan. Framsóknarflokkurinn beið afhroð í fjölda sveitarfélaga í vor, gott dæmi er hér á Akureyri svo og Kópavogur. Með þessa staði svona vængbrotna í starfinu á flokkurinn vart von á góðu. Ég hef lengi verið að vasast í stjórnmálum hér og þekki ágætlega til en ég man aldrei t.d. eftir Framsóknarflokknum eins illa á sig kominn hér og nú. Það verður fróðlegt að sjá hversu mikið skipbrot Framsóknar verður t.d. hér hjá utanríkisráðherranum í Norðausturkjördæmi.

Ég fjallaði nokkuð ítarlega um flokksstarf Jóns hjá Framsókn og bakgrunn hans þar í ítarlegri bloggfærslu skömmu eftir formannskjör hans. Ég bendi á þau skrif. En spurningar stjórnmálaáhugamanna hljóta nú enn að snúast um það hver Jón Sigurðsson sé í íslenskum stjórnmálum. Mér finnst verulega lítið hafa enn reynt á þennan einn valdamesta stjórnmálamann landsins sem kom eiginlega bakdyramegin inn í forystusveit íslenskra stjórnmála í sumar. Hann kom þar óvænt inn til forystu. Það verður gaman að kynna sér pólitík hans og forystu í þessari kosningabaráttu sem senn hefst. Það verður eldskírn hans sem stjórnmálamanns.

Eins og staðan er núna getur Framsóknarflokkurinn vart vænst fleiri en 9 þingsæta að vori. Jón fer fram væntanlega í leiðtogasæti Halldórs Ásgrímssonar við kosningarnar 2003 þar sem fyrir eru ungstirni flokksins, Guðjón Ólafur og Sæunn. Hér í Norðaustri stefnir að óbreyttu í afhroð þar sem eru Dagný og Birkir Jón. Falla þau? Það verður fróðlegt að sjá hvort að allir ungliðarnir sem eru í þingflokknum missi sæti sín á einu bretti eða hvort þau standa af sér væntanlegt fylgistap flokksins að vori. Ef ég væri framsóknarmaður væri ég allavega hræddur um stöðuna. Það eru því varla nein undur að framsóknarmenn ætli sér að reyna að velja lista með þeim aðferðum sem nefndar eru.

Ég held að þetta séu örlagaríkustu kosningar Framsóknar í áratugi. Grunntilvera flokksins og staða þeirra næstu árin mun þar ráðast að mörgu leyti. Þetta er 90 ára flokkur með langa og litríka sögu. Það mun verða mjög örlagaríkt fyrir flokkinn ef ungliðarnir hrynja af þingi (t.d. vegna væntanlegrar innkomu Jóns í borginni) og eftir stendur gamall þingflokkur liðinna tíma úr formannstíð Halldórs Ásgrímssonar. Nú reynir væntanlega á það hvernig að nýr formaður stýrir sínu liði.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband