Halldór Blöndal gefur ekki kost á sér

Halldór Blöndal

Halldór Blöndal, leiðtogi Sjálfstæðisflokksins í Norðausturkjördæmi, lýsti því yfir á aðalfundi Sjálfstæðisfélags Akureyrar í Kaupangi á Akureyri í kvöld að hann myndi ekki gefa kost á sér til endurkjörs í alþingiskosningunum að vori. Þetta er stór ákvörðun, enda á Halldór að baki langan og glæsilegan stjórnmálaferil. Hann var varaþingmaður Sjálfstæðisflokksins 1971-1979 og alþingismaður Norðurlandskjördæmis eystra 1979-2003 og Norðausturkjördæmis frá 2003. Halldór var landbúnaðar- og samgönguráðherra 1991-1995 og samgönguráðherra 1995-1999. Hann var forseti Alþingis 1999-2005.

Það er okkur sjálfstæðismönnum á Akureyri mikill heiður að Halldór skuli hafa ákveðið að tilkynna þessa stóru ákvörðun sína á aðalfundum sjálfstæðisfélagsins okkar. Hér á Akureyri hóf Halldór þátttöku í stjórnmálum og hann hefur allan sinn stjórnmálaferil unnið mikið og óeigingjarnt starf fyrir sjálfstæðismenn hér í Eyjafirði og í þeim kjördæmum sem hann hefur starfað fyrir öll þessi ár. Ég hef þekkt Halldór lengi og alla tíð metið hann mikils. Hann hefur alla tíð verið okkur gríðarlega mikilvægur í öllu stjórnmálastarfi okkar. Það hefur verið okkur öllum styrkur að geta leitað til hans.

Persónulega vil ég færa Halldóri og eiginkonu hans, Kristrúnu Eymundsdóttur, mínar bestu kveðjur við þessi þáttaskil og þakka þeim báðum gríðarlega góð störf í okkar þágu. Kristrún hefur alla tíð verið sem klettur á bakvið Halldór og stjórnmálasaga Halldórs Blöndals verður aldrei rituð nema að nafn þessarar miklu kjarnakonu verði þar áberandi. Kærar þakkir fyrir allt Dóri og Rúna!

Þetta eru mikil þáttaskil sem hér verða nú við þessa ákvörðun.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband