Uppstokkun á Alþingi Íslendinga

Alþingi Íslendinga

Í ítarlegum pistli mínum á vef SUS í dag fer ég yfir þá uppstokkun sem við blasir á Alþingi Íslendinga í væntanlegum alþingiskosningum. Á síðustu dögum hafa tveir af reyndustu þingmönnum Sjálfstæðisflokksins, þau Halldór Blöndal og Sólveig Pétursdóttir, sem bæði hafa gegnt ráðherraembætti og forsetaembætti Alþingis Íslendinga, tilkynnt að þau muni ekki gefa kost á sér til endurkjörs. Það sést vel á allri pólitískri umræðu að það styttist í kosningar, enda hafa þau og fleiri þingmenn tilkynnt að þau ætli að hætta. Framundan eru nú svo kjördæmisþingin, þar sem ákveðið verður hvernig valið verði á framboðslistana, og við taka annaðhvort prófkjör eða uppstillingar.

Meginlínur í framboðsmálum þingmanna Sjálfstæðisflokksins eru að verða nokkuð skýrar og jafnframt virðast línur með val á frambjóðendum flokksins vera að skýrast. Það stefnir í prófkjör í fimm kjördæmum. Mér telst til að 14 alþingismenn kjörnir árið 2003 séu ekki lengur á þingi, hafi þegar ákveðið að hætta í stjórnmálum á kjörtímabilinu eða tilkynnt það þessa síðustu daga að þeir ætli ekki aftur í framboð að vori og hætti því þingstörfum. Það er svo ekki útilokað að fleiri þingmenn muni tilkynna að þeir ætli að hætta á næstu dögum eða vikum, en enn hafa nokkrir alþingismenn ekki tekið ákvörðun um hvort þeir fari fram nú eður ei.

Altént er ljóst að framundan eru mjög spennandi og áhugaverðar kosningar fyrir okkur stjórnmálaáhugamennina. Það eru mörg þingsætin sem eru að losna og væntanlega verður tekist á um þau af hörku í spennandi prófkjörum víða um land á næstu vikum.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband