Harður leiðtogaslagur Kristjáns og Benedikts

Benedikt Sigurðarson Kristján Möller

Það stefnir í mjög harðan leiðtogaslag hjá Samfylkingunni í Norðausturkjördæmi milli Benedikts Sigurðarsonar, aðjúnkts við Háskólann á Akureyri, og Kristjáns L. Möllers, alþingismanns. Ákveðið hefur verið að flokksbundnir Samfylkingarmenn hafi kjörrétt og mun verða um póstkosningu að ræða sem lýkur í októberlok. Framboðsfrestur rennur þó ekki út fyrr en miðvikudaginn 27. september nk. Talið verður í prófkjörinu hér á Akureyri laugardaginn 4. nóvember nk. En leiðtogaslagurinn er hafinn af krafti. Greinilegt er að Benedikt Sigurðarson sækir að Kristjáni af miklum krafti og ætlar sér stóra hluti í þessu prófkjöri.

Mikla athygli hefur vakið að Bensi hefur þegar hafið mikla auglýsingaherferð með flenniauglýsingum í dagskrármiðlunum hér á Akureyri, t.d. birtist opnuauglýsing í miðopnu stóru dagskrárinnar sem dreift var í öll hús hér á Akureyri og nærsveitir á miðvikudag. Hann hefur í hyggju að opna heimasíðu og mun greinilega leggja allt undir í þennan leiðtogaslag. Bensi hefur löngum verið nokkuð umdeildur og vakið athygli. Hann var til fjölda ára skólastjóri Brekkuskóla en hefur síðustu árin unnið sem aðjúnkt við HA. Bensi var stjórnarformaður Kaupfélags Eyfirðinga um skeið, t.d. komst hann í fjölmiðla vegna frægra starfsloka Andra Teitssonar sem kaupfélagsstjóra.

Kristján L. Möller hlýtur að þurfa að gefa verulega í á næstunni og mun hafa það í hyggju. Kristján hefur farið í gegnum tvö prófkjör og ætti að geta startað sömu maskínu aftur. Altént þarf hann þess til að halda velli í baráttu við herferð Benedikts, sem mun njóta ráðgjafar reyndra fjölmiðla- og auglýsingamanna í framsetningu sinni. Kristján vann Önnu Kristínu Gunnarsdóttur í prófkjöri Samfylkingarinnar í Norðurlandskjördæmi vestra árið 1999 og varð leiðtogi flokksins í Norðausturkjördæmi með afgerandi hætti í prófkjöri í nóvember 2002, þar sem hann sigraði Einar Már Sigurðarson, alþingismann frá Neskaupstað.

Lára Stefánsdóttir

Kristján hefur löngum haft sterka stöðu hér á þessu svæði, en nú gæti það stefnt í aðra átt. Við blasir enda að Akureyringar vilji meiri áhrif við forystu flokksins í kjördæminu. Hér á Akureyri er Samfylkingin í meirihlutasamstarfi og á þrjá bæjarfulltrúa. Það er því eðlilegt að flokksmenn þar vilji verulega uppstokkun, verandi langöflugasti flokkskjarni Samfylkingarinnar í Norðausturkjördæmi og með mestu völdin á sveitarstjórnarstiginu. Lára Stefánsdóttir, varaþingmaður, sækist eftir öðru sætinu í slag við Einar Má og ber öllum saman um að Lára hafi gríðarlega sterka stöðu. Lára missti af þingsæti á síðustu sprettum talningar vorið 2003.

Það stefnir því í spennu og fjör í prófkjöri Samfylkingarinnar hér í kjördæminu. Það blasir við að mesti hasarinn við val á framboðslista í Norðausturkjördæmi verði hjá okkur sjálfstæðismönnum og ennfremur Samfylkingarmönnum. Þetta verða áhugaverð prófkjör og þar gætu orðið stór pólitísk tíðindi og mikið og spennandi uppgjör.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband