Norðlensk bókaútgáfa

Það hefur verið áhugavert að fylgjast með bókaútgáfunni Tindi á síðustu árum. Helgi Jónsson hefur rekið útgáfuna með miklum myndarbrag og gefið út fjölda bóka á undanförnum árum. Þekktastar þeirra og fyrstar í röðinni voru barna- og unglingabækur. Fyrir þessi jól gefur Helgi út tólf bækur og skrifar hann þrjár þeirra sjálfur, meðal annars sína fyrstu skáldsögu. Leit ég í nokkrar bækur frá Tindum nýlega og vil endilega fjalla um þær hér og um leið benda á norðlenska bókaútgáfu, enda er það gleðitíðindi fyrir samfélagið okkar hér að eiga öfluga bókaútgáfu.


Blá birta er fyrsta skáldsaga Helga Jónssonar, bókaútgefanda hjá Tindi. Í henni er sagt frá eldri hjónum, Ásdísi og Jónmundi, sem standa á krossgötum og verða að bregða búi eftir áratugavist í sveitinni sem þau bæði unna - bærinn verður fúinn og jörðin rýrnar í takt við nútímastrauminn úr sveitabyggðunum. Það er í senn hugljúfur tónn í þessari en líka mjög hreinskilinn. Talað er hreint út um vandamál hjónanna og krossgöturnar sem þau eru á. Einnig kynnist lesandinn vel þeim nýja veruleika sem þau horfast í augu við.  

Tónn minninganna er líka sterkur í þessari bók. Eins og hjá öllu venjulegu fólki einkennast þær í senn af ljúfum tímum en einnig sárum. Frásögnin einkennist af eftirsjá eftir hinum liðna tíma og blæ sveitalífsins fyrr á árum, tíma sem sannarlega er liðinn, bæði tíma mikillar vinnu og sárinda en lifir þó innst í hjartarótinni sem hugljúfur. Helgi segir sögu hjónanna með notalegum hætti, þarna er skrifað af tilfinningu og innlifun. Það var áhugavert að lesa fyrstu skáldsögu Helga og vonandi er stutt í þá næstu.


Helgi er þekktur fyrir Gæsahúðarbækur sínar, spennusögur skrifaðar fyrir krakka. Þær eru orðnar fleiri en tíu talsins og hafa vakið athygli á Helga sem rithöfundi en þær hafa notið vinsælda hjá börnum og unglingum. Í nýjustu bókinni í flokknum Villi Vampíra skrifar Helgi fyrir eldri krakka sérstaklega og fetar þar nýja slóð, bókin verður dekkri og beittari en þær hinar fyrri. Það er áhugavert að sjá hvernig Helgi staðsetur bókina hér á Akureyri og spinnur sögu sem virkar fjarstæðukennd vegna allra aðstæðna en verður samt svo öflug og sönn.

Helgi boðar framhald þessa bókaflokks. Það verður sannarlega spennandi að sjá í hvaða átt hann fetar með þennan nýja flokk spennusögu fyrir eldri krakka, sem er fjarri því sárasaklaust ævintýri heldur alvara hin mesta, saga sem snýst um líf og dauða. Helgi hefur verið bestur að mínu mati við að byggja þessar spennusögur fyrir krakka og hefur notið vinsælda fyrir þau skrif sín. Það er sniðugt hjá honum að feta lengra með þær frásagnir og taka nýtt skref í þeim skrifum, prófa hvernig þessi skrif passa við eldri krakka. Bókin var sannarlega spennandi og áhugaverð.


Júlíus Júlíusson, þúsundþjalasmiður á Dalvík, er landskunnur fyrir stjórn sína á fiskideginum mikla á Dalvík síðustu árin. Auk þess hefur hann orðið frægur fyrir að halda úti vinsælum jólavef, þar sem fjallað er um jólahátíðina með fjölbreyttum og litríkum hætti. Það kemur því ekki að óvörum að fyrsta bók Júlla sé notaleg jólasaga fyrir börnin - Blíð og bangsi litli.

Helstu kostir jólabarnsins í Júlla koma þar vel fram og bókin er sannarlega lifandi í frásögn og áhugaverð, einkum og sér í lagi fyrir glæsilegar myndir Sunnu Bjarkar Hreiðarsdóttur sem glæðir söguna lífi. Það voru einna helst myndir Sunnu sem vakti athygli mína og hún skapar myndrænan blæ utan um hugljúfa jólasögu.


Vil óska Helga góðs gengis í bókaútgáfu sinni. Það er alltaf gott þegar að fólk sinnir áhugamálum sínum og byggir upp fyrirtæki á heimavelli, byggir upp eitthvað nýtt og áhugavert.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband