Vinsældir eilífðartöffarans Bó Hall

Bó Hall Fjórum áratugum eftir að Björgvin Halldórsson var kjörinn poppstjarna Íslands í Laugardalshöll virðist ekkert lát vera á vinsældum hans. Hvernig sem tónlistarmenningin hér heima hefur snúist í hringi á þessum tíma hefur Björgvin staðist tímans tönn. Hann er einn af þeim bestu, þar spilar eflaust inn í að hann gerir hlutina af fagmennsku og hefur tekið fleiri en eitt form tónlistar upp á sína arma, verið bæði ljúfur ballöðusöngvari og tekið væna sveiflu og á þeirri leið t.d. spilað kántrý og gospel, svo fátt eitt sé nefnt.

Hef t.d. alltaf metið mikils hversu öflugur hann er í textaframburði, hann er einn af þeim fáu hér heima sem getur sungið ensku af fagmennsku og hann syngur hvert orð af innlifun, tært og undurljúft. Það skilja allir hvert orð í söng Björgvins. Hann er svona eins og Raggi Bjarna og Haukur Morthens sinnar kynslóðar. Reyndar er Bubbi Morthens aðeins fimm árum yngri en Björgvin en það er ekki rétt að bera þessa tvo tónlistarmenn saman, svo stórir eru þeir báðir í tónlistarsögu okkar og hafa markað mikil áhrif á sínum vettvangi bransans.

Björgvin hefur líka staðið sig vel í jólatónlist og virðist helst vera í umræðunni þessa dagana vegna tónleikanna um næstu helgi og útgáfu nýrrar jólaplötu. Það eru tveir áratugir síðan að Björgvin gaf út sína fyrstu jólagestaplötu. Þar var fókusinn ekki á að syngja gömlu jólalögin sem allir þekktu heldur spáð í nýjum lögum - leitað var til Ítalíu og settar jólakúlur á góð ítölsk lög. Þetta form hefur ekki klikkað og mörg eftirminnilegustu jólalög síðustu áratuga eru ítalíuskotnu jólalögin hans Björgvins.

Nokkur jólalög með Björgvini og gestum hans eru í tónlistarspilaranum hér á vefnum. Eins og allir ættu að taka eftir er kominn jólabragur á spilarann, enda viðeigandi, þar sem aðeins tuttugu dagar eru til jóla. Best allra þessara jólalaga sem Björgvin ættleiddi frá Ítalíu og gerði að sínum er dúett hans og Ruth Reginalds - það er að sjálfsögðu í spilaranum.

mbl.is Bó plataði Loga í beinni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Björgvin Halldórsson og Ragnar Bjarnason eru dæmi um að það sem einu sinni er gott verður alltaf gott þótt tískusveiflur þoki til hliðar um stund.

Ég hef áður minnst á það í bloggi mínu að í janúar 2003 komust valdir "álitsgjafar", helstu poppsérfræðingarnir sem Fréttablaðið fékk til að velja bestu íslensku dægurlagasöngvarana frá upphaf,i að þeirri niðurstöðu að Ellý Vilhjálms stæði þar fremst. Óumdeilanlegt. Bróðir hennar og Haukur og Bubbi voru þarna að sjálfsögðu í fremstu röð.

Síðan taldi blaðið upp langan lista þeirra sem hefðu komist á blað. Meira að segja komumst við Jón Ólafsson á Bíldudal á þennan lista. En Ragnar Bjarnason komst ekki á blað.

Ég varð mjög leiður og sár yfir þessu og með tilbúna blaðagrein í kollinum um þetta, en afar erfiðlega stóð á vegna vinnu við myndina "Á meðan land byggist" og ég hafði ekki tíma.

Í greininni ætlaði ég að spyrja hvort það hefði verið misskilningur hjá þjóðinni á sínum tíma þegar þeir Ragnar og Haukur börðumst um toppinn á vinsældalistunum á árunum 1955-1970 og hafði Ragnar oftast betur.

Ég ætlaði líka að skora á sérfræðingana að nefna söngvara sem gæti sungið eins vell og Ragnar jafn ólík lög og Vorkvöld í Reykjavík, Kokkur á kútter frá Sandi, Komdu í kvöld, Án þín, Litla stúlkan mín og Ship ohoj.

Já, þetta var súrt, en ég vissi að það sem einu sinni var gott yrði alltaf einhvern tíma aftur gott. Og það hefur gerst.

Þessir góðu listamenn, Björgvin og Ragnar, uppskera nú laun alúðar, erfiðis og hæfileika og eru vel að því komnir.

Ómar Ragnarsson, 4.12.2007 kl. 11:38

2 Smámynd: Stefán Friðrik Stefánsson

Kærar þakkir fyrir þetta komment Ómar. Er algjörlega sammála þér. Ragnar Bjarnason er að mínu mati fremsti núlifandi söngvari þjóðarinnar. Hann er goðsögn í lifanda lífi, hefur alltaf haldið velli, sungið sig í gegnum hjarta okkar allra og á sess í huga okkar allra. Það er bara svo einfalt. Finnst hann okkar Frank Sinatra - sá besti í sínum bransa tónlistarinnar. Haukur Morthens var annars að mínu mati besti söngvari 20. aldarinnar; allt í senn einstök rödd, einstakur karakter og einstakur performer.

Ellý Vilhjálms hefur alltaf átt sess í huga mér, besta söngkona sem við höfum nokkru sinni eignast. Hún var okkar Ella Fitzgerald; skýrmælt og undurljúf söngkona sem söng frá hjarta til hjarta allra sem hlustuðu á. Hún og Vilhjálmur bróðir hennar voru einstök saman og jólaplatan þeirra er sú fyrsta og síðasta sem ég hlusta á hver jól, tímalaus klassík. Það var sorglegt að þeim skyldi ekki auðnast að eiga fleiri ár í bransanum og gefa út meira. En það eru gullmolar sem eftir þau standa, sem minna okkur á farsælt verk þeirra.

Björgvin er eins og öll þau fyrrnefndu frábær söngvari, syngur eins og engill og hefur taug til okkar allra. Það sést hversu vinsælir tónleikar hans nú og í fyrra eru; hann er í þungamiðju bransans og verður alla tíð. Eins er með Bubba, sem er einn okkar besti. Að mínu mati eru þau öll einstök. Og það finnst mér með þig reyndar líka, þú ert einn okkar allra besti sviðsskemmtikraftur og hefur skipt okkur öll svo miklu máli.

Fyrsta platan sem ég eignaðist var barnaplatan þín um árið. Hún er einhversstaðar í kassa í geymslunni núna, slitin og búin á því, en ég á hana hinsvegar á disk núna. Við verðum aldrei of gömul fyrir perlur á borð við þær. Á einstakar minningar um hana, sem gleymast ekki. Það er gæfa okkar Íslendinga að við eigum einstakt tónlistarfólk sem á sess í huga okkar allra. Það á við alla sem ég hef nefnt.

bestu kveðjur

Stefán Friðrik Stefánsson, 4.12.2007 kl. 11:53

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband