Samfylkingin blandar geði við almenning

ISG

Þeir sem fóru í verslunarmiðstöðvar á höfuðborgarsvæðinu í gær voru minntir vel á það að alþingiskosningar eru í nánd þegar að Ingibjörg Sólrún Gísladóttir og fleiri þingmenn Samfylkingarinnar blönduðu geði við almenning og kynntu þeim stefnu sína til lækkunar matarverðs. Það var svolítið merkilegt að sjá þingmenn þarna á stangli við að kynna sig og reyna að dreifa fjölblöðungum til fólksins. Það er svolítið merkilegt að sjá tillögur Samfylkingarinnar í þessum efnum og ánægjulegt að flokksforystan sé tilbúin til að lifa svo hættulega eftir hina algjörlega misheppnuðu umhverfisstefnu flokksins sem minnti á vandræðagang flokksins umfram allt annað.

Mesta athygli mína vakti að sjá drottningarfrétt Sjónvarpsins um þessi efni. Þar fór Ingibjörg Sólrún að versla í Hagkaup í Smáralind með Helga H. Jónssyni, eiginmanni bæjarstjórans í Fjarðabyggð og fyrrum fréttastjóra Sjónvarps með meiru. Er ekki Helga bæjarstjóri í Fjarðabyggð annars ein besta vinkona Ingibjargar Sólrúnar? Það væri kannski ágætt að rifja það upp hvernig að framsóknarkonan Helga og eiginkona "fréttamannsins" gekk inn og út úr Samfylkingunni til að kjósa ISG til formennsku í fyrra. Það hafa ekki allir stjórnmálaleiðtogar fengið svona mjúkt og innilegt viðtal lengi eins og þarna sást í Ríkissjónvarpinu út að versla. Kannski teljast þetta vart tíðindi þegar að Helgi H. er annars vegar.

Það var talsverður skaði að Jón Baldvin Hannibalsson, fyrrum fjármálaráðherra og formaður Alþýðuflokksins, skyldi ekki vera þarna staddur með þingmönnum Samfylkingarinnar að kynna þessa stefnu. Það var Jón Baldvin sem kom matarskattinum umfram allt á í ríkisstjórn, hinni sögufrægu þriggja flokka stjórn sem sprakk haustið 1988. Það er alltaf kostulegt að lesa skrif Össurar kratahöfðingja Skarphéðinssonar um þessi mál því að hann reynir alltaf fimlega að verjast þeirri staðreynd að það var einkum Jón Baldvin Hannibalsson sem kom matarskattinum á og barðist fyrir honum.

Eflaust eru það óþægilegar staðreyndir fyrir vinstrimenn. Jón Baldvin hefði fallið vel í kramið með þingmönnunum og hefði getað frætt fólk um það af hverju skatturinn var lagður á. Jón Baldvin var óvinsælasti stjórnmálamaður landsins meðan að atið um matarskattinn stóð sem hæst. Ríkisstjórn Þorsteins Pálssonar sprakk svo vegna þess að Sjálfstæðisflokkurinn vildi fella niður skattinn og vildi  Jón Baldvin það skiljanlega ekki eftir að hafa vaðið eld og brennistein fyrir því að koma honum á. En já þetta er sagan, sem reyndar er oft svo gott að rifja upp.

En það er svosem gott að Samfylkingin hefur einhverja stefnu í þessu máli. Vonandi verður hún eitthvað staðfastari en umhverfisstefnan sem virkar frekar tómleg með fulltrúa Samfylkingarinnar um allt land vælandi yfir því að fá álver í sínar byggðir - allir vilja þar auðvitað undanskilja sig stefnunni því að þar sé að koma álver sem hafi verið marglofað. Þvílík vandræði og pína í einum flokki, hlýtur hver og einn að segja við að horfa á svona ráðleysi.


mbl.is Samfylkingin kynnir tillögur sínar um aðgerðir til að lækka matarverð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Elfur Logadóttir

Það er rétt. Það er örugglega ekki hægt að gera ráð fyrir því að Helgi H. hafi verið hlutlaus í sínum fréttaflutningi, ekki frekar en hægt er að gera ráð fyrir því að Elín Hirst, nú eða Jóhanna Vilhjálms séu hlutlausar í sínum umfjöllunum og ákvörðunum um efnistök.

Viltu virkilega fara í þennan leik?

Elfur Logadóttir, 24.9.2006 kl. 15:00

2 Smámynd: Stefán Friðrik Stefánsson

Jóhanna Vilhjálmsdóttir hefur alla tíð verið mjög beitt í sinni umfjöllun, bæði á Stöð 2 og síðar hjá Sjónvarpinu. Flestir muna eftir skattaumfjöllun hennar í Kastljósi fyrir um ári. Sú fréttaskýring var allavega ekki á nokkurn hátt hliðholl t.d. fjármálaráðherra Sjálfstæðisflokksins.

Þessi frétt Helga í gærkvöldi var afskaplega undarleg. Það er allavega mín skoðun, þeir sem skoða fréttina hljóta að spá í þessu. Ég vil svo sannarlega vekja athygli á þessu. Ég fer yfir það sem ég tel allavega. Það má vel vera að einhverjir séu ósammála mér. Það er ekki mitt mál.

Stefán Friðrik Stefánsson, 24.9.2006 kl. 18:04

3 Smámynd: Þórir Hrafn Gunnarsson

Ég held að sjálfstæðimenn ættu að hafa sig hæga þegar að það kemur að því að draga hlutleysi fréttamanna á fréttastofu sjónvarpsins í efa. Orðið Bláskjár á ennþá vel við.

Kveðjur :)

Þórir Hrafn Gunnarsson, 26.9.2006 kl. 16:31

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband