Í minningu Jóns Páls

Jón Páll

Í gærkvöldi fór ég í bíó til að sjá nýja heimildarmynd um Jón Pál Sigmarsson, sem ber heitið: Þetta er ekkert mál. Jón Páll Sigmarsson var goðsögn í lifanda lífi og einn mest áberandi Íslendingur níunda áratugar 20. aldarinnar. Frægð hans var enn í miklum blóma þegar að hann varð bráðkvaddur á besta aldri í janúar 1993, þá aðeins 32 ára að aldri. Þegar að ég var að alast upp var Jón Páll sigursæll út um allan heim, margverðlaunaður fyrir hreysti sína og styrkleika. Hann varð sterkasti maður heims fjórum sinnum, sem var auðvitað glæsilegt afrek og mjög oft sterkasti maður Íslands. Hann var glæsileg landkynning fyrir Íslands hönd og telst hiklaust einn af bestu sonum landsins.

Ég leit alltaf gríðarlega mikið upp til Jóns Páls og fylgdist með afrekum hans þegar að ég var yngri. Hann var gríðarlega virtur allavega af mínum vinahópi og ég held að allir ungir Íslendingar á frægðarárum Jóns Páls minnist hans sem öflugs átrúnaðargoðs. Ég gleymi aldrei fyrsta skiptinu sem að ég hitti Jón Pál. Það var þegar að hann var að árita plaköt á bílasýningu í Reykjavík árið 1987. Það verður reyndar aldrei sagt um mig að ég sé bílaáhugamaður en ég fór þangað gagngert, tíu ára gamall, bara því að ég vissi að hann væri þar og ég talaði heillengi við hann þennan dag.

Ég fylgdist mjög vel með sigrum Jóns Páls á þessum frægðarárum hans og ég á reyndar enn þessi nokkur plaköt sem að hann áritaði fyrir mig og ég átti reyndar eftir að hitta hann síðar á aflraunasýningu á Akureyri og svo í Reykjavík, nokkrum mánuðum áður en að hann dó. Það var öllum unnendum Jóns Páls Sigmarssonar gríðarlega mikið áfall þegar að hann dó í blóma lífsins í janúar 1993. Það voru verulega sorgleg endalok á merkum ferli. Í myndinni er ævi Jóns Páls lýst virkilega vel. Þar er farið yfir alla sigrana hans, vonbrigðin og endalokin sorglegu, sem enn sitja í mörgum sem mátu mikils frækna sigra þessa eins af bestu sonum þjóðarinnar.

Það er mikilvægt að þessi mynd hafi verið gerð. Það varð að festa ævipunkta Jóns Páls, frægðarsöguna og öll ógleymanlegu augnablikin á sigurgöngu hans í eitt heilsteypt form. Mikið myndefni er til um hann og þessi saga er sett saman með mjög glæsilegum og vönduðum hætti. Minning Jóns Páls var tekin að gleymast, enda margir sem ekki upplifðu frægðarsögu hans og þekktu persónu hans - það er því gríðarlega mikilvægt að til sé þessi góða heimildarmynd um hann.

Hjalti Úrsus Árnason, vinur Jóns Páls og félagi í aflraununum, á heiður skilið fyrir þessa góðu mynd, en hann hefur gert hana með miklum myndarskap og staðið með því vörð um minningu Jóns Páls. Nú þegar er þetta orðin vinsælasta heimildarmynd Íslandssögunnar og hefur hún verið jafnvinsæl í bíó á þessu hausti og vinsælustu Hollywood-myndirnar. Það umfram allt sýnir okkur að íslenska þjóðin metur minningu Jóns Páls mikils.

Þetta er vönduð og vel gerð mynd og ég hvet alla til að fara og sjá hana. Þetta er mynd sem er gerð af líf og sál um mann sem var virtur og dáður af þjóð sinni fyrir að vera heilsteyptur fulltrúi þjóðarinnar á erlendri grundu.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband