Dagný og Birkir takast á um annað sætið

Dagný og Birkir Jón

Fastlega er búist við að Dagný Jónsdóttir og Birkir Jón Jónsson, alþingismenn Framsóknarflokksins í Norðausturkjördæmi, muni berjast um að skipa annað sæti framboðslista flokksins í kosningunum að vori. Jón Kristjánsson, fyrrum heilbrigðis- og félagsmálaráðherra, sem setið hefur á þingi í yfir tvo áratugi, skipaði sætið í kosningunum 2003 en hefur ákveðið að gefa ekki kost á sér til endurkjörs í komandi kosningum. Í aðdraganda kosninganna 2003 átti Framsóknarflokkurinn aðeins tvo þingmenn í kjördæmahlutunum og tókust því þau Jón og Valgerður Sverrisdóttir á um fyrsta sætið á tvöföldu kjördæmisþingi á Hrafnagili í janúar 2003. Vann Valgerður þar nokkuð auðveldan sigur.

Í þriðja og fjórða sæti listans völdust þau Dagný og Birkir Jón. Þau voru þá formaður og varaformaður SUF og voru í augljósu bandalagi þá um að veljast saman í þau sæti sem þau sóttust eftir og náðu með stuðningi Valgerðar og Jóns að verjast áhlaupi Þórarins E. Sveinssonar, fyrrum forseta bæjarstjórnar á Akureyri, um að fá annað af sætunum. Varð hann þess í stað í fimmta sætinu. Nú blasir við að þau muni takast á um annað sætið við brotthvarf Jóns Kristjánssonar úr stjórnmálum. Dagný er augljós fulltrúi Austfirðinga í flokkskjarna framsóknarmanna í sæti Jóns en engum hefur blandast hugur um að Birkir Jón stefnir hærra og hefur verulegan áhuga á forystustörfum innan flokksins.

Það stefnir því í ungliðaslag meðal framsóknarmanna hér. Það kemur svosem ekki bara til vegna valdabaráttu þeirra á milli heldur einfaldlega þeirri staðreynd að Framsóknarflokkurinn á verulega undir högg að sækja í kjördæminu. Eins og staðan er núna eru einfaldlega tvö nokkuð örugg sæti eftir að sækjast í kjördæminu. Árið 2003 vann Framsóknarflokkurinn afgerandi sigur í kjördæminu og tókst að hljóta fjögur þingsæti. Öllum að óvörum felldi Birkir Jón Samfylkingarkonuna Láru Stefánsdóttur útaf þingi undir lok talningar í kosningunum. Nú þykir staða flokksins öllu óvissari, hér sem og í raun um allt land. Það fer því væntanlega svo að þau berjast um að færast upp.

Úrslit sveitarstjórnarkosninganna í vor voru t.d. gríðarlegt áfall fyrir framsóknarmenn hér á Akureyri sem hlutu aðeins einn bæjarfulltrúa kjörinn. Það var sögulegt botnskrap hjá Framsóknarflokknum á Akureyri og ótrúlegt áfall fyrir fyrrum forystuflokkinn í bæjarmálum Akureyringa um áratugaskeið. Það áfall varð einmitt tilfinnanlega mikið fyrir flokksmenn alla í kjördæminu, enda vita allir að sterk staða í kosningum í Norðausturkjördæmi ræðst mikið af hlutfalli flokkanna í kosningum meðal Akureyringa og Eyfirðinga, þar sem stór hluti íbúa kjördæmisins býr.

Það verður spennandi að sjá hvernig þetta fer hjá Framsókn hér að vori í Norðaustri og hversu miklu rýrari útkoman verður þá. Við öllum blasir að verulegt fylgistap verður hjá þeim nú hér og því skiljanlegt að slegist sé um þann stól sem öruggur telst.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband