Cherie Blair kallar Gordon Brown lygara

Cherie Blair

Mitt í framboðsræðu Gordon Brown á flokksþingi Verkamannaflokksins í dag, þar sem hann reyndi að lofsyngja Tony Blair, mun Cherie Blair hafa muldrað orðið "lygari" örg á svip. Gordon Brown flutti ræðuna í morgun og snerist hún að nær öllu leyti um að byggja sig upp sem leiðtoga og kynna framtíðina sem hann vill færa flokknum. Fór hann fögrum orðum um forsætisráðherrann og talaði lofsamlega um hann og verk hans. Eitthvað mun lofsöngurinn hafa farið illa í forsætisráðherrafrúna sem mun hafa snúið upp á sig yfir ræðunni og muldrað þessi orð um fjármálaráðherrann. Það er greinileg gjá á milli þeirra hjóna og Browns, en í gær vildi Blair ekki lýsa yfir stuðningi við Brown.

Það á ekki af bresku krötunum að ganga í þessum mánuði. Fyrst er Tony Blair næstum hrakinn úr embætti af samverkamönnum Gordon Brown og svo reynir Brown að lofsyngja þann sem hann reyndi að grafa undan í framboðsræðunni. Það er merkilegur kúltúr þarna. En já Cherie tókst allavega að stela senunni, þó að hún hafi eflaust viljað gera það við aðrar aðstæður en þessar. Það þarf varla að taka það fram að talsmaður forsætisráðherrans neitar auðvitað að forsætisráðherrafrúin hafi kallað Gordon Brown lygara með þessum hætti. Þvílíkur vandræðagangur. Ekki batnar yfir óeiningunni innan Verkamannaflokksins og greinilegt að Blair-hjónin ætla sér ekki að styðja Brown til forystu.

Gordon Brown

Gordon Brown virðist reyndar eiga í verulegum erfiðleikum. Það er enda tekið að molna undan honum rétt eins og forsætisráðherranum. Í könnun Daily Telegraph í dag kemur fram að meirihluti Breta vilji ekki að hann verði eftirmaður Blairs og mælist nú David Cameron mun vinsælli meðal þjóðarinnar en Brown. Fallandi gengið í könnunum hlýtur að vera honum mikið umhugsunarefni. Hann allavega nýtti tímann sinn vel í ræðunni í Manchester í morgun og reyndi að gera sig að nýjum valkosti í breskum stjórnmálum.

Oft er sagt að það sé þunn línan á milli þess að vera erfðaprins í stjórnmálum og lúser. Þegar að menn hafa verið krónprinsar lengi getur svo farið að menn endi sem hlægilegir og missi af lestinni í orðsins fyllstu merkingu. Það verður fróðlegt að sjá hvernig fer fyrir Gordon Brown. Ef marka má orðaval Cherie Blair í dag munu þau hjón frekar dauð liggja en að styðja hann opinberlega sem leiðtogaefni flokksins í leiðtogakjöri sem verður innan árs í Verkamannaflokknum.

mbl.is Cherie Blair sögð hafa kallað Brown lygara
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband