Leiftrandi einvígi hinna ósigruðu í Las Vegas

Mayweather og HattonÞað var stórskemmtilegt að fylgjast með hnefaleikaeinvígi hinna ósigruðu Floyd Mayweather og Ricky Hatton í Las Vegas í nótt. Því lauk er Mayweather rotaði Hatton kaldan í tíundu lotu og batt enda á litríka sigurgöngu hans í bransanum. Held að það megi segja að sigur Mayweather hafi verið verðskuldaður. Annars mátti skilja á honum eftir bardagann að þetta væri jafnvel hans síðasti á ferlinum. Það eru vissulega stórtíðindi ef hann hættir, en hann hættir allavega á toppnum fari svo.

Annars var greinileg gremja á bresku fréttastöðvunum í morgun með tap Hattons en Bretar töldu sinn mann virkilega eiga séns og höfðu mikið fjallað um möguleika hans. Greinileg sárindi eru sérstaklega í heimahéraði Hattons sem eðlilegt er. Annars spilaði Hatton sig mjög stóran í aðdraganda þessa bardaga og var heldur betur ögrandi við Mayweather á blaðamannafundi á föstudaginn og litlu munaði að bardaginn myndi hefjast þá þegar. Minnti hann svolítið á hinn skrautlega Prince Naseem Hamed á sínum tíma.

Hef annars alltaf haft nokkuð gaman af hnefaleikabardögum. Það er alltaf skemmtilegt kikk út úr því að horfa á. Þeir Bubbi og Ómar hafa haldið vel utan um boxið í sjónvarpslýsingu sinni. Þeir hafa lifað sig inn í keppnina með öllu sem til þarf og það hefur jafnan verið sérstaklega gaman bara eitt og sér að fylgjast með töktum þeirra við að lýsa. Það er viss list að gera eina íþrótt enn skemmtilegri bara með vandaðri umgjörð en þeir Bubbi og Ómar hafa gert boxið enn skemmtilegra sjónvarpsefni fyrir okkur hérna heima.

Það er líka alltaf áhugavert að horfa á myndir tengdar boxinu. Raging Bull er ein besta mynd sem nokkru hinni hefur verið gerð. Besta sagan úr boxbransanum á hvíta tjaldinu alveg hiklaust. Það var auðvitað með hreinum ólíkindum að meistari Scorsese fékk ekki óskarinn fyrir þá eðalræmu, bæði fyrir leikstjórn og kvikmynd. Robert De Niro var aldrei betri á sínum leikferli en í hlutverki LaMotta, þar sem öll svipbrigði sjást og skapsveiflurnar verða hrein unun á tilfinningaskalanum. Þetta er mynd sem allir sannir kvikmyndaunnendur verða að sjá.

Rocky-myndirnar eru tær snilld. Sú fyrsta gerði Sylvester Stallone að heimsfrægri stórstjörnu og hlaut óskarinn á sínum tíma, fram yfir eðalræmur á borð við All the President´s Men, Taxi Driver og Network. Glæsilegur árangur það. Auk þess er The Great White Hope mynd sem ég fæ aldrei leið á. Túlkun James Earl Jones þar er auðvitað tær snilld. Hann hefði eflaust unnið óskarinn árið 1970 ef Scott hefði ekki farið svo eftirminnilega á kostum sem Patton og raun bar vitni. Jones er öllum þekktur sem rödd Svarthöfða í Star Wars og CNN.

En rifjum aðeins upp Raging Bull. Mynd sem klikkar aldrei.




mbl.is Mayweather rotaði Hatton í 10. lotu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Gils N. Eggerz

Ótrúlegt að þú skulir kalla þig viti borna manneskju og glápa svo á menn með greindarvísitölu á við apa-unga slást eins og fífl. Það eitt er víst að ekki er af mörgum heilasellum að taka í öllum höggunum, svo að kannske er skaðinn eigi svo mikill?

Gils N. Eggerz, 9.12.2007 kl. 22:19

2 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Ég gerði það til tilbreytingar að blogga um bardagann tvívegis í sama bloggpistlinum í nótt.

Ómar Ragnarsson, 9.12.2007 kl. 22:26

3 Smámynd: Jónína Dúadóttir

Sæll Stefán, ertu alveg búin að loka á athugasemdir og líka búinn að opna aðra síðu ?

Jónína Dúadóttir, 10.12.2007 kl. 21:43

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband