Spennandi leiðtogaslagur í Suðurkjördæmi

Lúðvík, Björgvin og Jón

Það stefnir í spennandi leiðtogaslag í prófkjöri Samfylkingarinnar í Suðurkjördæmi, sem fram fer laugardaginn 4. nóvember nk. Margrét Frímannsdóttir, sem hefur leitt lista á Suðurlandi í tvo áratugi, hefur tilkynnt að hún sé að hætta í stjórnmálum og aðrir þingmenn flokksins í kjördæminu hafa áhuga á leiðtogasæti hennar. Þeir Lúðvík Bergvinsson, Björgvin G. Sigurðsson og Jón Gunnarsson stefna allir á forystu framboðslistans og bendir flest til þess að fleiri fari ekki fram í leiðtogasætið en þeir. Allir hafa þeir sterka stöðu á sínum heimaslóðum í stjórnmálum og því má búast við spennandi og jöfnu prófkjöri um forystusessinn.

Bendir flest til þess að Margrét Frímannsdóttir muni styðja Björgvin G. Sigurðsson í leiðtogastólinn, enda kemur hann frá sama svæði og hún í stjórnmálum. Margrét hefur alla tíð stutt Björgvin G. til verka og hann varð varaþingmaður flokksins í kjördæminu árið 1999 og svo þingmaður í prófkjörinu 2002. Hann hefur verið öflugur forystumaður flokksins á þessu svæði og lykilmaður í pólitíska starfinu þar með Margréti. Á móti kemur að Lúðvík Bergvinsson telst lykilmaður í armi formanns flokksins og studdi Ingibjörg Sólrún Gísladóttir hann til varaformennsku flokksins á landsfundi vorið 2005. Sterkasta svæði Jóns í stjórnmálum teljast svo auðvitað Suðurnesin.

Sigríður Jóhannesdóttir

Nú hefur Sigríður Jóhannesdóttir, fyrrum alþingismaður, tilkynnt að hún gefi kost á sér í 2. - 3. sætið. Sigríður hefur verið lengi í stjórnmálum og var lengi forystumaður innan Alþýðubandalagsins í gamla Reykjaneskjördæmi. Hún varð alþingismaður við afsögn Ólafs Ragnars Grímssonar af þingi árið 1996, er hann var kjörinn forseti Íslands. Hún hafði verið varaþingmaður Ólafs Ragnars allt frá árinu 1991. Sigríður náði ágætum árangri í prófkjöri Samfylkingarinnar í Reykjaneskjördæmi árið 1999 en féll hinsvegar í prófkjöri flokksins í hinu nýju Suðurkjördæmi árið 2002. Flestir telja að þar hafi innkoma Jóns Gunnarssonar haft mest að segja, enda þau bæði frá sama svæði.

Auk þeirra virðist bæjarstjórnarflokkur Samfylkingarinnar í Árborg nær allur kominn í prófkjörið eftir að flokkurinn missti völdin í sveitarfélaginu. Ragnheiður Hergeirsdóttir stefnir á 2. - 3. sætið og Gylfi Þorkelsson á 4. - 6. sætið. Auk þeirra eru t.d. Guðrún Erlingsdóttir, fyrrum bæjarfulltrúi í Vestmannaeyjum, og Önundur Björnsson, sóknarprestur og varaþingmaður flokksins í kjördæminu, komin í framboð. Von er á fleirum væntanlega, en mörg nöfn hafa að auki verið í umræðunni.

Það stefnir því í spennandi prófkjör þarna og allnokkrar sviptingar. Mesta spennan verður auðvitað um það hverjum tekst að ná leiðtogastólnum. Hætt er enda við að þeir sem verða undir í þeim slag geti fallið niður listann, enda sterkt fólk úr sveitastjórnum og af öðrum vettvangi sem takast á um sætið fyrir neðan leiðtogastólinn.

mbl.is Býður sig fram í 2.- 3. sæti í prófkjöri Samfylkingarinnar í Suðurkjördæmi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband