Línur skýrast hjá sjálfstæðismönnum í kraganum

Ármann Kr. Ólafsson

Það stefnir í prófkjör hjá sjálfstæðismönnum í kraganum, Suðvesturkjördæmi, laugardaginn 18. nóvember nk. Stjórn kjördæmisráðs hefur samþykkt tillögu um það fyrir kjördæmisþingið þann 4. október nk. Frambjóðendur eru byrjaðir að senda út frá sér framboðstilkynningar. Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, menntamálaráðherra, hefur gefið kost á sér í fyrsta sætið. Í þessari viku hafa Bjarni Benediktsson, alþingismaður, tilkynnt um framboð í annað sætið, Ragnheiður Elín Árnadóttir, aðstoðarmaður forsætisráðherra, í fjórða sætið og Bryndís Haraldsdóttir, varaþingmaður, í það fjórða til fimmta. Beðið er eftir ákvörðun Sigríðar Önnu Þórðardóttur, fyrrum ráðherra og þingflokksformanns.

Í dag tilkynnti Ármann Kr. Ólafsson, forseti bæjarstjórnar Kópavogs og fyrrum aðstoðarmaður Árna M. Mathiesen, fjármálaráðherra, um framboð sitt í þriðja sætið. Ármann Kr. hefur verið lengi í stjórnmálum. Hann hefur verið bæjarfulltrúi í Kópavogi allt frá árinu 1998. Hann byrjaði reyndar í pólitík hér fyrir norðan, enda ættaður héðan. Ármann var lengi öflugur í starfi Varðar, félags ungra sjálfstæðismanna hérna á Akureyri, og flokksstarfinu almennt. Sjálfur kynntist ég Ármanni fyrst árið 1995, þegar að hann var kosningastjóri flokksins hérna í Norðurlandskjördæmi eystra. Hann vann rosalega vel í þeirri baráttu, sem var full af lífi og krafti undir hans stjórn.

Það eru margir sem enn liggja undir feldi í kraganum og eru að velta fyrir sér sinni stöðu og hvort fara eigi í prófkjörið. Það er því alveg hægt að fullyrða að þetta verði áhugavert prófkjör og verður fróðlegt að sjá hvernig listinn verði að lokum. Þegar má fullyrða að Þorgerður Katrín muni leiða lista flokksins í kjördæminu, enda virðist staða hennar mjög sterk. Þorgerður Katrín yrði með því aðeins önnur konan til að leiða framboðslista af hálfu flokksins í þingkosningum, en Arnbjörg Sveinsdóttir leiddi listann í Austurlandskjördæmi árið 1999.


mbl.is Ármann Kr. Ólafsson býður sig fram í Suðvesturkjördæmi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband