Betri tímar á Alþingi með nýjum þingsköpum

Alþingi Það er gleðiefni að ný þingsköp hafi loks verið samþykkt á Alþingi, eftir klaufalega tilraun vinstri grænna til málþófs. Það var löngu kominn tími til að taka til hendinni í þessum efnum; stokka upp vinnutíma þingsins, efla nefndastarfið og stytta ræðutímann. Það er engan veginn í takt við nútímann að þingmenn geti talað heilu og hálfu stundirnar endalaust, það þarf styttri og hnitmiðaðri ræður og gera störf þingsins þannig að fólk nenni að fylgjast með því.

Það hefur verið talað um þessar breytingar í alltof mörg ár. Man að bæði Halldór Blöndal og Sólveig Pétursdóttir höfðu þetta á stefnuskrá sem þingforsetar en samkomulag náðist ekki milli aðila að neinu marki, enda var vissulega eðlilegt að taka sinn tíma í starfið. Nú loksins verður eitthvað úr öllu talinu. Það er hrútleiðinlegt stundum að fylgjast með störfum þingsins, sérstaklega vegna suddalega leiðinlegra og langra ræðuhalda sumra þingmanna. Það eru til þingmenn sem tala von úr viti og tefja störf þingsins um of. Það þarf að vera mikill áhugamaður um störf þingsins til að haldast yfir þeim.

Það er ekki hægt annað en að kenna í brjósti um vinstri græna. Þeir líta hálf klaufalega út í þessu þingskapamáli. Þingmenn þeirra hafa verið vanir að setja ræðumet á hverju þingi, tala mikið og lengi, án þess að flest að því verði minnisstætt. Kannski er skiljanlegt að þeir vilji ekki breyta þingsköpum og stytta ræðutímann. En þeir eru með algjörlega glataðan málstað í höndunum. Þeir eru ekki margir sem hafa stutt málstað þeirra, enda held ég að flestir landsmenn vilji að þingið verði markvissara og þar verði tekið til hendinni, einkum í að breyta leikreglunum þar.

Vinstri grænir hafa verið utanveltu í stjórnarandstöðunni í þessu máli. Meirihluti andstöðunnar stendur enda að frumvarpinu um þingsköpin. Framsóknarflokkurinn og Frjálslyndi flokkurinn hafa komið fram af mikilli ábyrgð í málinu og stutt það eindregið. Enda á þetta ekki að vera flokkspólitískt mál. Þetta snýst um að stokka upp störf þingsins. Tiltrú almennings á þinginu hefur sífellt minnkað og er ekki viðunandi lengur að sjá þá hnignun, sem er að verða ansi áberandi. Þar skipta ný vinnubrögð miklu máli til að taka á vandanum.

mbl.is Þingskapafrumvarp orðið að lögum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jóhannes Ragnarsson

Einræðissinnaðir íhaldsmenn með vonda samvisku eru áreiðanlega himinlifandi yfir að hafa tekist að þjösna haltukjaftilögunum í gegnum þingið. Það léttir af þeim áhyggjum. 

Jóhannes Ragnarsson, 14.12.2007 kl. 22:34

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband