Fjölgar í leiðtogaslag Samfylkingarinnar í NA

Örlygur Hnefill Jónsson

Það stefnir í fjörugan leiðtogaslag hjá Samfylkingunni hér í Norðausturkjördæmi. Nú hefur Örlygur Hnefill Jónsson, héraðsdómslögmaður og varaþingmaður flokksins í kjördæminu, tilkynnt um framboð sitt í 1.-3. sæti framboðslista flokksins og fer því í leiðtogaslaginn við þá Benedikt Sigurðarson, aðjúnkt við Háskólann á Akureyri, og Kristján L. Möller, alþingismann. Það hefur lengi verið ljóst að leiðtogaslagur Kristjáns og Benedikts yrði óvæginn og spennandi. Benedikt hefur þegar hafið harðan prófkjörsslag við Kristján og auglýst mikið og nýlega opnað heimasíðu. Það er alveg ljóst að leiðtogaslagur þremenninganna gæti orðið það jafn að erfitt yrði að spá um úrslit mála.

Örlygur Hnefill hefur lengi verið í stjórnmálum, en hann hefur verið varaþingmaður Samfylkingarinnar hér á þessu svæði allt frá árinu 1999. Hann sigraði í flokkshólfi Alþýðubandalagsins innan Samfylkingarinnar í prófkjörinu í Norðurlandskjördæmi eystra árið 1999. Það varð reyndar sögulegt prófkjör, en Sigbjörn Gunnarsson sigraði prófkjörið en var síðar neyddur til að víkja á brott. Svanfríður Jónasdóttir, sem nú er bæjarstjóri í Dalvíkurbyggð, var í þriðja sæti og öðru sæti Alþýðuflokkshólfsins og leiddi listann í kosningunum með Örlyg Hnefil í öðru sætinu. Úrslit kosninganna þóttu vonbrigði fyrir Samfylkinguna sem fengu mun minna fylgi en VG á svæðinu.

Í aðdraganda kosninganna 2003 gaf Örlygur Hnefill kost á sér í forystusveit Samfylkingarinnar í kjördæminu. Hann varð í þriðja sætinu í prófkjörinu, á eftir alþingismönnunum Kristjáni L. Möller og Einari Má Sigurðarsyni. Fjórða varð Lára Stefánsdóttir, hér á Akureyri. Svo fór að vegna þrýstings var ákveðið að bæta kynjastaðal framboðslistans og var Lára færð því uppfyrir Örlyg Hnefil á listanum með valdi á kjördæmisþingi Samfylkingarinnar í aðdraganda kosninganna þar sem listann varð endanlega samþykktur. Örlygur Hnefill var aldrei sáttur við niðurstöðuna en tók þó fjórða sætið og hefur verið annar varaþingmaður flokksins í kjördæminu á þessu kjörtímabili.

Örlygur Hnefill setti fram þær kröfur á kjördæmisþingi Samfylkingarinnar að Skjólbrekku fyrr í mánuðinum að úrslit prófkjörs yrðu látin standa. Svo fór þó að kjördæmisþingið samþykkti að tryggt verður að í einu af þrem efstu sætunum verður kona, sama hvernig niðurstaða prófkjörsins verður. Það er öllum ljóst að þessi niðurstaða hagnast best Láru Stefánsdóttur, varaþingmanni, sem þykir langsterkasti kvenframbjóðandinn í prófkjörinu, enn sem komið er allavega. Framboðsfrestur í prófkjörið er hinsvegar að renna út og mér skilst að dagurinn í dag sé síðasti dagurinn sem hægt sé að gefa kost á sér og því ljóst væntanlega fyrir helgina hversu margir muni verða í kjöri.

Það er ljóst að leiðtogaefnin þrjú koma öll af þessu svæði kjördæmisins, annaðhvort úr Eyjafirðinum og nærsveitum eða austan úr Þingeyjarsýslu. Það gæti því orðið naumt á munum og spennandi kosning. Það er ljóst að Benedikt ætlar sér stóra hluti og heldur ófeiminn í slaginn við Kristján. Þó er jafnframt ljóst að Kristján og Örlygur eiga sér mun lengri og öflugri sögu í flokkskjarnanum en Benedikt. En það er hætt við að barist verði af hörku og svo gæti t.d. farið að Austfirðingar fengju engan fulltrúa í öruggt sæti í svona hörðum Norðanmannaslag.

Þess má að lokum til gamans geta að stjúpmóðir Örlygs Hnefils var Svava Jakobsdóttir, rithöfundur og fyrrum alþingismaður Alþýðubandalagsins. Svava lést árið 2004. Meðal systkina hennar eru t.d. Jökull Jakobsson og Þór veðurfræðingur Jakobsson. Faðir Örlygs Hnefils, Jón Hnefill Aðalsteinsson, var lengi prófessor við guðfræðideild Háskóla Íslands og var um tíma sóknarprestur á Eskifirði. Hann er af hinni frægu Vaðbrekkufjölskyldu. Jón Hnefill þótti litríkur prestur fyrir austan og margar sögur hef ég heyrt af honum en hann skírði t.d. tvö elstu systkini mín.

mbl.is Örlygur Hnefill býður sig fram
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband