Clinton stelur senunni í Manchester

Bill Clinton

Ég sé á skrifum á breskum fréttavefum og mbl.is að Bill Clinton, fyrrum forseti Bandaríkjanna, var algjör senuþjófur dagsins á flokksþingi Verkamannaflokksins í Manchester í dag. Hann flutti stormandi ræðu þar og lofaði bæði verk Tony Blair og Gordon Brown af krafti. Hann talaði af miklum móð um vináttu sína og Tony Blair. Það var sannkölluð vinarkveðja. Í raun er þetta lokakveðja Clintons til Blairs sem stjórnmálamanns, meðan að sá síðarnefndi er enn við völd. Clinton virðist hafa tekið skýra afstöðu með Brown í væntanlegu leiðtogakjöri Verkamannaflokksins og fór vart leynt með að breskir jafnaðarmenn ættu að styðja Brown.

Það er greinilegt að þetta flokksþing Verkamannaflokksins hefur verið þing sátta og samstöðu að mestu. Það þurftu flokksmenn á að halda eftir standandi rifrildi og hjaðningavíg í þessum mánuði. Merkustu tíðindi vikunnar voru þó hvorki ræða Clintons né tilfinningarík kveðjustund Blairs í gær. Það var ræða Browns. Þar lýsti hann yfir með afgerandi hætti að hann hyggst halda áfram af krafti utanríkisstefnu þeirri sem Blair hefur stundað síðustu árin. Með því er væntanlega stefnt að jafn öflugum samskiptum við ríkisstjórn George W. Bush og Blair-stjórnin hefur gert frá valdatöku Bush árið 2001, en fáir hafa verið nánari bandamenn Bush á hans valdaferli en einmitt Tony Blair.

Það eru reyndar spennandi tímar framundan í breskum stjórnmálum. Breskir fjölmiðlar velta fáu meira fyrir sér en hvenær að Blair hættir. Það er aðalmál umræðunnar og verður það sem eftir verður vistar Blairs í Downingstræti 10. Þegar eru menn farnir að máta sig við stólinn og ræður síðustu daga hafa snúist mikið um að vekja á sér athygli. Greinilegt er að allir telja orðið harðan slag framundan um völdin. Þar mun Blair-armurinn reyna að finna alvöru keppinaut fyrir Gordon Brown. Það efast fáir orðið um að alvöru átök munu fara fram. Sjálfur mun Brown telja alvöru átök aðeins styrkja sig. Stuðningur Clintons við Brown varð allavega afgerandi í Manchester.

En senuþjófur flokksþings kratanna í Manchester var þó enginn breskur krati heldur suðurríkjamaðurinn með níu lífin, sjálfur Bill Clinton. Hann ætti svo að hafa næg öflug og góð ráð fyrir Tony Blair um það hvernig hægt sé að halda sér í stjórnmálaumræðunni eftir að hann missir völdin. Fáir eru enda aktífari í umræðunni sem fyrrum þjóðarleiðtogar en einmitt fyrrnefndur Bill Clinton.

mbl.is Clinton hvetur Verkamannaflokkinn til að taka breytingum opnum örmum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sigurjón

Gordon Brown lítur samt út eins og sprellikarl.

Sigurjón, 28.9.2006 kl. 09:41

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband