Spennandi keppni um gullhnöttinn framundan

Tom Hanks og Julia Roberts í Charlie Wilson´s War Tilnefningar til Golden Globe-verðlaunanna voru kynntar í vikunni. Það stefnir í spennandi baráttu um gullhnöttinn - enginn virðist með afgerandi forskot, ólíkt í fyrra þegar að heildarmyndin var meira og minna ljós á þessum tímapunkti, hvað varðar leikverðlaunin hið minnsta. Atonement sem hefur hlotið góða dóma hlaut flestar tilnefningar, alls sjö. Charlie Wilson´s War, með Tom Hanks og Juliu Roberts, hlaut fimm og Michael Clayton, No Country for Old Men og Sweeney Todd eru allar með fjórar.

Það eru alls sjö kvikmyndir tilnefndar í dramaflokknum, sem er hið mesta í tvo áratugi, en jafnan eru fimm myndir tilnefndar. Fimm myndir eru sem fyrr tilnefndar sem besta gaman- og söngvamyndin. Það eru því alls tólf myndir sem berjast um hnossin tvö og það er því erfitt að segja nokkuð um hvernig landið liggur hvað varðar Óskarinn. Golden Globe hefur um árabil verið fyrirboði þess hvernig Óskarinn verði, en í ljósi mikils fjölda tilnefndra mynda er óhætt að segja að nokkur óvissa sé yfir hvaða myndir fái óskarstilnefningu í janúar, þó nokkrar myndir teljist vænlegri en aðrar.

Í fyrra vann Babel gullhnöttinn sem dramatíska mynd ársins en hlaut svo aðeins einn óskar og tapaði kapphlaupinu um bestu mynd fyrir The Departed. En það hafði vissulega verið lengi í kortunum að komið væri að sigurstund Martin Scorsese og hann átti það skilið, eftir að hafa verið sniðgenginn af akademíunni í Hollywood áratugum saman. Helen Mirren og Forest Whitaker drottnuðu yfir gullhnettinum í fyrra, og hlutu svo óskarinn, en Mirren hlaut reyndar tvo gullhnetti fyrir tæpu ári; fyrir að leika drottningarnar Elísabetu I og Elísabetu II. Nú er hinsvegar enginn með svo voldugt forskot. Leikaraflokkarnir sýnist mér vera nokkuð opnir.

Fljótt á litið myndi ég telja að allar dramatísku myndirnar ættu séns, þó er ólíklegast að Eastern Promises og The Great Debaters (í leikstjórn Denzel Washington) vinni. Þetta er galopin barátta. Hvað varðar gaman- og söngvamyndirnar eru Charlie Wilson´s War og Sweeney Todd ansi vænlegar báðar og Hairspray var virkilega góð. Myndi telja þær tvær fyrrnefndu sigurstranglegastar í þessum flokki. Fyrir leikstjórn eru reynsluboltar tilnefndir. Ridley Scott hefur aldrei unnið óskar eða gullhnött og verður áhugavert að sjá hvort að hann fær loksins verðlaun af þessu tagi, sem hann er greinilega að fiska eftir með American Gangster.

Í leikaraflokkunum er jöfn barátta svo sannarlega. Í dramahlutanum eru miklir risar; Daniel-Day Lewis, George Clooney, Viggo Mortensen og Denzel Washington tilnefndir með efnilegum nýliða James McAvoy sem ku víst eiga stórleik í Atonement. Varð reyndar nokkuð hissa á að McAvoy hlyti ekki meira lof fyrir leik sinn í The Last King of Scotland í fyrra, en hann féll algjörlega í skuggann á Forest Whitaker. Í gamanhlutanum hlýtur Johnny Depp að teljast ansi vænlegur kostur, þó sjaldan sé hægt að vanmeta sjálfan Tom Hanks.

Það eru miklar kjarnakonur tilnefndar fyrir leik. Í dramahlutanum hlýtur Julie Christie að teljast mjög vænleg til árangurs fyrir eftirminnilega túlkun sína á Fionu, alzheimer-sjúklingnum sem smám saman fjarlægist í annan heim, í Away From Her. Þessi mynd er auðvitað tær snilld, keypti mér hana um helgina og horfði á aftur. Christie á þarna bestu túlkun sína frá því í Darling og Dr. Zhivago fyrir rúmum fjórum áratugum, en hún vann óskarinn fyrir Darling sællar minningar. En þarna eru vissulega líka Jodie Foster, Angelina Jolie, Keira Knightley og Cate Blanchett. Held samt að Christie sé nokkuð örugg um verðlaunin.

Í gaman- og söngvamyndaflokknum er Marion Cotillard nokkuð örugg um sigur tel ég, þó ekki sé rétt að útiloka þær Amy Adams og Helenu Bonham Carter sem hafa fengið góða dóma fyrir túlkun sína. Cotillard varð hinsvegar Edith Piaf, ein besta söngkona 20. aldarinnar, með slíkum glans að ekki verður leikið eftir. Með sannkölluðum töfrum færir hún Piaf okkur ljóslifandi á hvíta tjaldið; bæði sigra hennar og sorgir. Piaf söng eins og engill í gegnum litríkt líf. Yrði mjög hissa ef Cotillard fengi ekki þessi verðlaun og ég tel er á hólminn kemur að þetta verði barátta hennar og Christie um leikkonuóskarinn.

Hvað varðar tilnefningar fyrir aukahlutverk er allt algjörlega opið. Sé engan afgerandi í forystu svosem; ólíkt aðalleikkonuflokkunum. Casey Affleck hefur verið að fá góða dóma fyrir túlkun sína á Robert Ford, morðingja útlagans Jesse James, Tom Wilkinson er auðvitað rock solid, sem jafnan fyrr í hlutverki Edens í Michael Clayton, Philip Seymour Hoffman er auðvitað í frábæru leikaraliði í Charlie Wilson´s War og myndin virðist pottþétt - hann veldur sjaldan vonbrigðum, John Travolta er skemmtilega ofvirkur í hlutverki mömmunnar í Hairspray og Javier Bardem er víst leiftrandi í No Country for Old Men.

Sama gildir svosem um aukaleikkonuflokkinn, þó ég telji að þar verði baráttan fyrst og fremst á milli Cate Blanchett og Juliu Roberts. Cate fór í gervi rokkgoðsins ódauðlega Bob Dylan í I´m Not There með slíkum tilþrifum að margir telja hana nær örugga um verðlaunin. Yrði ekki hissa þó að hún fengi gullhnött miðað við þær klippur sem ég hef séð. Julia á víst bestu túlkun sína frá því í Erin Brockovich í Charlie Wilson´s War. Tilda Swinton var pottþétt í Michael Clayton og hin þrettán ára Saoirse Ronan (sem ég hef aldrei séð áður) fer víst á kostum í Atonement. Amy Ryan man ég eftir úr Capote en hef ekki séð þessa túlkun hennar.

Fjalla ekkert um sjónvarpshlutann, en það er erfitt að spá um það svosem, oft hefur gæfan ein ráðið því hverjir vinna þar, en ekki bara besta efnið. Heilt yfir er þetta æsispennandi barátta sem er framundan um gullhnöttinn og fróðlegt að sjá hvernig fer. Bendi annars á tilnefningarnar (í heild sinni) til Golden-Globe verðlaunanna, en verðlaunin verða afhent í Los Angeles í 65. skiptið þann 13. janúar 2008.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Já, þetta verður vonandi spennandi "keppni" framundan sem vonandi fellur ekki alvarlega í skuggann af leiðindaverkfalli handritshöfunda. En mín tilfinning er sú að þetta sé að komast í fastar skorður. Ég myndi t.d. veðja stórum upphæðum á það að No Country For Old Men og Atonement verði útnefndar til Óskarsins sem besta myndin, Charlie Wilson's War er að koma sterkari inn núna síðustu daga, en fram að gullhnattarútnefningum hafði hún í raun verið "potential". There Will Be Blood er líka ansi heit. Og sjáðu til ... Juno mun koma á óvart - hún er Little Miss Sunshine þessa árs. Ég spái henni heitri í flokknum besta gamanmyndin/söngvamyndin.

Ég held samt að þú og fleiri séuð á villigötum hvað varðar aukaleikkonuna. Ef þú kíkir á www.awardsdaily.com þá sérðu, að Amy Ryan hefur unnið öll þau verðlaun sem eru talin upp þar (eru að vísu bara þrjú ... en samt...) Cate Blanchett vann fyrir stuttu fyrir The Aviator og ég held að það sé dreifingarandi í akademíunni þessi misseri. Javier Bardem og Casey Affleck munu berjast um verðlaunin í aukahlutverki karla. Bardem fer á kostum í myndinni!

En þetta er skemmtilegt verðlauna-síson ... sem því miður er að falla í skugga verkfallsins... 

Doddi - Þorsteinn G. Jónsson (IP-tala skráð) 16.12.2007 kl. 02:02

2 Smámynd: Stefán Friðrik Stefánsson

Sæll Doddi

Takk fyrir kommentið.

Já, verkfallið er auðvitað búið að hafa vond áhrif en vonandi fer það að leysast. Það verður í forgrunni alls ef það stendur enn um miðjan janúar, sem verður reyndar suddalegt ef það dregst svo lengi.

Það er engin ein mynd sem drottnar yfir. Það er ekkert öruggt svosem. Hvað varðar óskarinn tek ég undir það að þetta er að verða fast í sessi. Samt vekur athygli að sjá sjö tilnefndar myndir í dramaflokknum. Það hefur ekki gerst síðan 1988 að mig minnir. En það eru nokkrar myndir öruggar; það eru auðvitað Charlie Wilson´s War, Atonement og No Country for Old Men. Þá eru tvö pláss laus.

Yrði ekki hissa þó að American Gangster eða Michael Clayton fengju annað, myndi frekar veðja á Michael þó. Akademían hefur oft verið hrifin af svona hetjusögum. Það er alltaf hið minnsta eitt wild card þarna. Man vel eftir því þegar Seabiscuit var tilnefnd, en það voru ekki margir sem höfðu þorað að spá því. Einnig þegar að Babe var tilnefnd, sem vakti mikla athygli. Fleiri dæmi má nefna.

Það gerist ansi oft að fimmta myndin í flokknum er óvænt. En það eru margar mjög öflugar nefndar núna. Svo hefur akademían stundum hafnað sigurstranglegum myndum. Í fersku minni er þegar að hvorki Cold Mountain og Dreamgirls sem voru mikið umtalaðar fengu ekki tilnefningu sem besta mynd, t.d. Dreamgirls síðast sem þó var með flestar tilnefningar.

Erfitt um að spá. Akademían getur oft verið ansi óvænt með val en stundum mjög fyrirsjáanleg. Erfitt að sjá hvernig er hitt á hana. Það eru þó allavega þrjár klárlega öruggar um útnefningu myndi ég segja. Juno gæti vel orðið mynd af því tagi sem kæmi á óvart. Ekki hægt að útiloka það. Svo mætti líka spyrja sig að því hvort Sweeney Todd tæki ekki pláss af þessu tagi. Það eru sannarlega galopin pláss þarna.

Hvað varðar leikaraflokkana yrði ég ekki hissa þó að Daniel Day-Lewis fengi óskarinn núna. Hann vann 1989 fyrir My Left Foot, sem var alveg yndisleg, og ég hélt reyndar að hann myndi vinna 2003 fyrir Gangs of New York, en þá vann Adrien Brody, en hann var vissulega unaðslega góður í Pianist - mynd sem reyndar átti mun frekar að vinna þá en Chicago. Margir tala um George Clooney, hann mun ekki vinna, en verður tilnefndur tel ég. Auk þeirra eru Denzel, Tom Hanks og Johnny Depp líklegir.

Julie Christie og Marion Cotillard munu berjast um leikkonuverðlaunin tel ég. Sé ekki annað í stöðunni. Þær eru einfaldlega langbestar þeirra sem eru í sínum flokkum og voru báðar unaðslega góðar. Amy Ryan hef ég ekki séð í sinni mynd, en það er mikið látið með Cate Blanchett sem Dylan og Juliu í Charlie Wilson´s War. Það er allt opnara þar. Gæti allt gerst. Blanchett gæti reyndar fengið tvær tilnefningar; fyrir myndina um Elizabeth I og Dylan.

Það er löngu kominn tími til að Javier Bardem fái óskarinn. Ætla að vona að það gerist núna. Hann var frábær í Before Night Falls og The Sea Inside. Myndi velja hann af þessum fimm tilnefndu í aukaleikaraflokknum og ég tel líklegast að hann vinni, ef allt er eðlilegt. Leikstjóraflokkurinn er tvísýnn. Neita því ekki að mér finnst kominn tími til að Scott sé verðlaunaður. Efast þó um að það gerist. GG hefur ekki alltaf verðlaunað saman mynd og leikstjórn.

Þetta verður spennandi... það eiga eftir að koma margar pælingar áður en yfir lýkur. :)

mbk. Stebbi

Stefán Friðrik Stefánsson, 16.12.2007 kl. 02:28

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband