9 í prófkjöri Samfylkingarinnar í Norðaustri

Samfylking

9 einstaklingar gefa kost á sér í prófkjöri Samfylkingarinnar í Norðausturkjördæmi. Framboðsfrestur rann út á miðvikudag. Mun prófkjörið verða í póstkosningaformi.  Munu atkvæðaseðlar verða sendir út um miðjan október og mun síðasti skiladagur atkvæðaseðlanna miðast við 1. nóvember. Talið verður á Akureyri laugardaginn 4. nóvember, nákvæmlega ári eftir að prófkjör Samfylkingarinnar á Akureyri fór fram fyrir bæjarstjórnarkosningarnar á þessu ári. Fjórir gefa kost á sér í fyrsta sætið: Benedikt Sigurðarson, aðjúnkt við Háskólann á Akureyri, Kristján L. Möller, alþingismaður, Ragnheiður Jónsdóttir, lögfræðingur, og Örlygur Hnefill Jónsson, lögmaður.

Kristján og Benedikt gefa bara kost á sér í fyrsta sætið en þau Ragnheiður og Örlygur Hnefill gefa kost á sér í 1. - 3. sætið. Það má því gera ráð fyrir hörkuspennandi kosningu um leiðtogastólinn. Athygli vekur að enginn Austfirðingur gefur kost á sér í fyrsta sætið og þetta verður því slagur Norðlendinganna í kjördæmastarfinu um forystuna. Í annað sætið gefa hinsvegar kost á sér Einar Már Sigurðarson, alþingismaður, og Lára Stefánsdóttir, framkvæmdastjóri. Einar Már er eini Austfirðingurinn því í kjöri um fyrstu tvö sætin. Það má því telja líklegt að Austfirðingar standi allir vörð um stöðu hans. Það má þó telja ljóst að staða Láru er gríðarlega sterk.

Í þriðja sætið gefa kost á sér þau Jónína Rós Guðmundsdóttir, framhaldsskólakennari, Kristján Ægir Vilhjálmsson, nemi, og Sveinn Arnarson, lögfræðinemi. Jónína Rós er frá Egilsstöðum og því eini fulltrúi Austfirðinga í þriðja sætið. Það eru því bara tveir Austfirðingar í kjöri í prófkjörinu, sem hljóta að teljast mikil tíðindi, miðað við að Samfylkingin er næststærsti stjórnmálaflokkur landsins. Það að ekki vilji fleiri Austfirðingar fara fram eru tíðindi.

Önnur tíðindi eru að tveir ungliðar á Akureyri berjist um þriðja sætið. Þar er um að ræða tvo fyrrum formenn ungliða kratanna á Akureyri, sem greinilega eru í baráttuhug gegn hvor öðrum. Sveinn er reyndar Hafnfirðingur að uppruna og búið á Akureyri í aðeins ár en Kristján Ægir hefur þrátt fyrir ungan aldur starfað lengur að þeim málum hér en Sveinn. Þeirra slagur er allavega mjög merkilegur að mínu mati.

Kosningin verður bundin um þrjú efstu sætin, svo að það verður spennandi kapphlaup. Mér sýnist í fljótu bragði þetta verða spurning um hvort að Einar Már heldur velli og nær sínu sæti eða missir sína stöðu. Það yrðu svo sannarlega stórtíðindi ef enginn austfirskur samfylkingarmaður næði bindandi kosningu í eitt af þrem efstu sætum á lista flokksins.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband