Jospin ekki í framboð - Royal forsetaefni?

Lionel Jospin

Flest bendir til þess að Segolene Royal verði forsetaefni sósíalistaflokksins í Frakklandi, en forsetakjör fer fram í Frakklandi að vori. Í gær tilkynnti Lionel Jospin, fyrrum forsætisráðherra Frakklands, sem var forsetaefni sósíalista 1995 og 2002 að hann myndi ekki gefa kost á sér. Jospin tapaði naumlega fyrir Jacques Chirac í kosningunum 1995 en náði ekki í seinni umferðina árið 2002. Jospin var forsætisráðherra Frakklands 1997-2002 og deildi því völdum með keppinaut sínum í kosningunum 1995 í um fimm ár. Það var erfið valdasambúð. Jospin hætti í stjórnmálum eftir afhroðið árið 2002. Velt hafði verið því fyrir sér síðustu mánuði hvort hann færi aftur fram nú.

Draumadís vinstrimanna fyrir kosningar er hin 53 ára gamla Segolene Royal. Fyrir aðeins nokkrum árum hefði það þótt draumórar að halda að Royal hlyti nær afgerandi sess sem kandidat sósíalista til framboðs en svo hefur nú farið. Hún hefur ekki enn lýst yfir framboði en er með langsterkustu stöðuna þrátt fyrir það. Valdamikill armur flokksins vill hana ekki í framboð og hefur reynt allt sem þeir geta til að draga niður vinsældir hennar, en án árangurs. Ef marka má skoðanakannanir nú er hún einnig draumadís Frakka sem telja sig sjá ferskan vindblæ breytinga og uppstokkunar í Royal, og nýtur hún mikilla vinsælda meðal landsmanna.

Margir virðast vilja kvenforseta í Frakklandi og margir vinstrimenn telja hana einu von flokksins til sigurs og áhrifa að vori. Eiginmaður Royal er áhrifamaður í frönskum stjórnmálum, Francois Hollande, formaður Sósíalista, og hefur jafnvel heyrst að hann hafi áhuga á forsetaembættinu ennfremur. Margir vinstrimenn í andstæðingahópi Royal höfðu nefnt nafn Jospin sem þess eina sem gæti komið í veg fyrir sigur hennar í forvali sósíalista um útnefninguna í forsetakjörið sem fer fram á næstu dögum. Jospin sá að hann gæti aldrei unnið útnefningu og þaðan af síður kosningarnar. Frambjóðandi hans arms verður því Dominique Strauss-Kahn, fyrrum fjármálaráðherra, og hefur hann tilkynnt um framboð.

Segelene Royal og Nicolas Sarkozy

Flest bendir því til að Segolene Royal fái útnefningu sósíalistaflokksins og eigi góðan séns í forsetaembættið. Telja flestir að andstæðingur hennar þar verði Nicolas Sarkozy, innanríkisráðherra Frakklands, sem stendur langsterkast að vígi hægrimannanna í frönskum stjórnmálum. Ef marka má kannanir er Royal eini sósíalistinn sem geti farið í alvöru slag við Sarkozy. Það stefnir altént í spennandi kosningar að vori, bæði um þing og forseta í Frakklandi. Hægrimenn líta kvíðnir sérstaklega til þingkosninganna og óttast að það sama gerist og árið 1997 þegar að þeir misstu yfirráð yfir þinginu, reyndar mjög óvænt þá.

Sérstaklega virðist kosningabaráttan um forsetaembættið og það hver verði húsbóndi í Elysée-höll ætla að verða spennandi og mjög óvægin. Enn hefur Jacques Chirac ekki lýst því yfir hvað hann ætli að gera en flestir telja að hann muni hætta eftir tólf ára forsetaferil. Barátta um kandidata vinstri- og hægriblokkanna verður hörð. Hvorki Sarkozy og Royal eru óumdeild innan sinna raða en eru þeir kandidatar sem landsmenn vilja helst í slaginn.

Framundan eru áhugaverðir tímar í frönskum stjórnmálum. Sumir tala um Sarko-Sego tíma framundan í franskri pólitík. Það skal ósagt látið - en það verður mjög áhugavert að sjá hverjir muni berjast að lokum um hið valdamikla forsetaembætti í Frakklandi, áhrifaembætti í alþjóðastjórnmálum.

mbl.is Jospin sækist ekki eftir forsetaembættinu í Frakklandi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband