22.12.2007 | 13:07
Yndislegar jólamyndir
Um jólin er svo sannarlega viðeigandi að horfa á góðar úrvalsmyndir og sérstaklega við hæfi að horfa á góðar myndir sem fjalla um boðskap jólanna og eða bara létta og kæta hugarþelið. Nokkrar þeirra standa upp úr í mínum huga og hafa alla tíð gert. Fjalla ég um þær nú.
Kvikmynd Frank Capra, It's a Wonderful Life er ein þekktasta fjölskyldumynd 20. aldarinnar, gleðigjafi fyrir alla heimsbyggðina allt frá frumsýningardegi. Sextug eðalmynd sem kemur manni ávallt í sannkallað jólaskap. Hér segir frá George Bailey sem eyðir ævi sinni í að fórna lífsdraumum sínum til að vinna í haginn fyrir bæinn sinn, Bedford Falls, og að lokum sér tækifæri sín renna í súginn. Myndin gerist á aðfangadag og horfir hann yfir ævi sína, komið er að tímamótum, hann er niðurbrotinn maður og til alls líklegur þegar jólahátíðin gengur í garð.
Hann er orðinn þreyttur á því hvaða stefnu líf hans hefur tekið og gæti gripið til örþrifaráða. Til bjargar kemur verndarengill hans, Clarence, til að reyna að sýna honum fram að án hans hefði bærinn aldrei verið samur og að hann á marga að, fjölskyldu og fjölda vina. Hann sýnir honum lífið eins og það hefði verið ef hann hefði aldrei komið til og vonast til að með því verði hægt að snúa hlutunum við. James Stewart á stórleik í hlutverki George, að mínu mati er þetta ein af allra bestu leikframmistöðum hans á glæsilegum ferli. Ennfremur fara Donna Reed, Lionel Barrymore, Thomas Mitchell, Beulah Bondi, Henry Travers og Ward Bond á kostum.
Myndin var tilnefnd til fimm óskarsverðlauna, þ.á m. sem mynd ársins, fyrir leikstjórn og leik Stewart. Ómótstæðilegt meistaraverk, sem á jafnt við árið 2007 og 1946; fyrir sex áratugum, er hún var frumsýnd. Sígildur boðskapurinn á alltaf við. Fastur partur á jólunum - ómissandi þáttur heilagra jóla að mínu mati.
Ein besta jólamynd allra tíma er hin sígilda kvikmynd George Seaton, Miracle on 34th Street. Segir frá því er gamall maður að nafni Kris Kringle, fer að vinna sem jólasveinn í stórmarkaði. Segist hann vera hinn eini sanni jólasveinn. Er hann þarmeð talinn galinn og hann verður að sanna hver hann er fyrir dómstólum. Einstaklega hugljúf mynd sem skartar Edmund Gwenn, Natalie Wood (rullan sem gerði hana að yndi heillar kynslóðar), Maureen O'Hara og Thelmu Ritter (í hlutverki mömmunnar sem gerði hana að stórstjörnu kómíkersins) í aðalhlutverkum.
Gwenn hlaut óskarinn 1947 fyrir magnaðan leik sinn í hlutverki hins hugljúfa manns - þetta var hlutverk ferils hans, eftirminnilegasta stund hans á hvíta tjaldinu. Og hann er yndislegur í rullunni. Þessi kemur alltaf í gott jólaskap, skylduáhorf að mínu mati á jólum. Myndin var endurgerð árið 1994. Þar voru Sir Richard Attenborough, Mara Wilson, Dylan McDermott og Elizabeth Perkins í aðalhlutverkum. Tókst vel upp, en stenst hinni eldri ekki snúning. Hún er alveg einstök.
Ein af bestu jólamyndum seinni tíma er hin óviðjafnanlega breska gamanmynd Love Actually. Hún hefur verið mér mjög kær allt frá því að ég sá hana fyrst í bíói fyrir fjórum árum, rétt fyrir jól. Þetta er í senn bæði ljúf og sykursæt mynd. Í aðalhlutverki eru Hugh Grant, Liam Neeson, Emma Thompson, Alan Rickman, Keira Knightley og Rowan Atkinson. Semsagt topplið breskra leikara. Þessi góða ástarsaga fjallar um átta mjög ólík pör í London rétt fyrir jól, sem glíma við ýmis vandamál í ástarlífinu.
Ástin er þemað í myndinni. Saga þessa ólíka fólks spinnst mjög skemmtilega saman í lok hennar. Mögnuð mynd sem ég mæli eindregið með. Er algjörlega fullkomin. Punkurinn yfir i-ið er flottur flutningur Billy Mack (í glæsilegri túlkun Bill Nighy) á laginu Christmas is all around (áður Love is all around með Wet, Wet, Wet). Þessi er alveg ómissandi yfir jólin seinni árin - verður svo væntanlega um ókomin ár!
Jólin verða ekki fullkomnuð fyrr en horft hefur verið á hinar ómótstæðilegu Home Alone I og II. Frábærar jólamyndir. Kevin McAllister er fyrir hin mestu mistök skilinn eftir einn heima á meðan að fjölskyldan er á leið í jólaleyfi til Parísar. Á meðan reyna tveir misheppnaðir þjófar sig að gera sig heimakomna heima hjá Kevin og stela þar öllu steini léttara. Kevin grípur til varna og reynir allt sem hann getur til að bjarga heimili sínu frá þjófunum. Sprenghlægileg og flott. Myndin sem gerði Macaulay Culkin að stjörnu. Joe Pesci og Daniel Stern eiga stórleik sem þjófarnir.
Í Home Alone 2 gerist hið sama að fjölskyldan gleymir Kevin, en í þetta skiptið verður hún viðskila við hann í flugstöðinni þar sem þau eru á leið til Flórída í jólaleyfi. Kevin tekur vitlausa vél og endar í New York, borg háhýsanna. Hann tékkar sig þar inn á Plaza, með öllum þeim mögnuðu tækifærum sem því fylgir. Á leið um borgina hittir hann þjófana sem reyndu allt sem þeir gátu til að ræna heimilið hans, en þeir eru þá sloppnir úr fangelsi. Þeir eiga harma að hefna gegn Kevin, sem ver sig með kjafti og klóm. Frábær kvikmynd. Culkin, Pesci og Stern í toppformi en senuþjófurinn er óskarsverðlaunaleikkonan Brenda Fricker í hlutverki hinnar kærleiksríku dúfnakonu. Báðar ómissandi um jólin.
Fastur hluti jólanna er svo auðvitað að sjá National Lampoon´s Christmas Vacation. Chevy Chase leikur fullkomnunarsinnann Clark Griswold enn eina ferðina. Að þessu sinni ætlar hann að gera fullkomnustu jól fjölskyldunnar fyrr og síðar að veruleika. Hann telur sig eiga von á hnausþykkum jólabónus sem kengur er í og leggur allt sitt í að skreyta húsið og gera allt sem best er nokkur möguleiki er að tryggja. Allt fer hinsvegar úrskeiðis sem getur mögulega gert það. Hápunkti nær það þegar að bróðir Clarks mætir með fjölskylduna og þá fyrst fer sælan að fara í vaskinn.
Þessi mynd er pottþétt. Gott dæmi um að plana ekki of mikið jólin að hætti fullkomnunar, heldur njóta þess sem maður á og gera gott úr lífinu. En þessi verður aldrei léleg. Sérstaklega fannst mér hún frábær þegar að ég dró hana fram nú skömmu eftir helgina. Fór endanlega í ekta gott jólaskap. Það ættu allir að geta hlegið frá sér allt vit og forpokaða skammdegisfýlu yfir þessari mögnuðu mynd.
Fleiri myndir mætti nefna t.d. Meet me in St. Louis (þar sem Judy Garland söng allra fyrst hið ódauðlega Have Yourself a Merry Little Christmas), Elf, Die Hard I og II (sem báðar gerast á jólahátíð), Bad Santa, Scrooge, A Christmas Story, How the Grinch Stole Christmas (1966-útgáfan), A Charlie Brown Christmas, A Christmas Carol, The Santa Clause, Frosty the Snowman, Surviving Christmas, The Shop Around the Corner (jamm vissulega ekki jólamynd en jólaandinn í lok myndarinnar er óviðjafnanlegur), The Ref, White Christmas, The Nightmare Before Christmas og Family Man.
Ef þið eigið uppáhaldsjólamynd, endilega kommenta þá hér með þær. Annars eigið þið öll vonandi góð bíójól og horfið á góðar myndir um jólin heima og í kvikmyndahúsum. Það er nóg af góðum myndum um jólin í bíó og í sjónvarpi. Sá t.d. að Stöð 2 ætlar að sýna Miracle on 34th Street og The Sound of Music um jólin.
Flokkur: Kvikmyndir | Breytt 23.12.2007 kl. 10:32 | Facebook
Athugasemdir
Christmas Vacation er mynd sem ég horfi á fyrir hver jól
Gleiðileg jól Stefán og farsælt komandi ár. Hafðu það sem allra best yfir hátíðina.
Huld S. Ringsted, 22.12.2007 kl. 13:24
Takk kærlega fyrir kveðjuna Huld mín. Óska þér og þínum gleðilegra jóla. Hafið það sem allra best.
mbk.
PS: Christmas Vacation er ómissandi - skólabókardæmi hvernig ekki á að undirbúa jólin. Chevy Chase er flottur.
Stefán Friðrik Stefánsson, 22.12.2007 kl. 13:52
Ólöf frænka (IP-tala skráð) 22.12.2007 kl. 14:16
Vönduð samantekt eins og þín er von og vísa. Þakka málefnaleg skrif þín á árinu og gleðileg jól. Náði sólstöðumynd á hádegi úr Eyjafjörð. Sjá blogg. Já, og gleðilegt ár.
Gísli Baldvinsson (IP-tala skráð) 22.12.2007 kl. 14:58
Flott grein og góðar uppástungur. Reyndar finnst mér Love Actually og Bad Santa hafa þemu sem henta ekki allri fjölskyldunni, þó að þær séu báðar stórskemmtilegar fyrir eldri áhorfendur. Ég held að E.T. sé líka frábær jólamynd þó svo að hún gerist á hrekkjarvöku.
Hrannar Baldursson, 22.12.2007 kl. 18:42
Flott upptalning. Margar klassískr og ómissandi, sérstaklega þessar gömlu. En nýju myndirnar með Chevy Chase eru eiginlega skylduáhorf. Hafðu það gott um jólin Stebbi minn.
Ásdís Sigurðardóttir, 22.12.2007 kl. 21:08
Home alone myndirnar eru í uppáhaldi hjá mér. Gleðileg jól
Jónína Dúadóttir, 23.12.2007 kl. 06:22
Góðan daginn,
ekki má gleyma listaverkinu frá Tim Burton; The Nightmare Before Christmas til þess að koma manni í árlega jólaskapið.
Gleðileg jól!
Davíð Halldór Lúðvíksson (IP-tala skráð) 23.12.2007 kl. 10:19
Takk kærlega fyrir kommentin og góð orð um skrifin. Sammála ykkur öllum með myndir. Þær eru allar yndislegar og eiga vel við um jólin. Klikka aldrei. :)
Óska ykkur öllum gleðilegra jóla!
bestu jólakveðjur
Stefán Friðrik Stefánsson, 24.12.2007 kl. 15:45
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.