Guðmundur Hallvarðsson gefur ekki kost á sér

Guðmundur Hallvarðsson

Guðmundur Hallvarðsson, alþingismaður, sendi í morgun út fréttatilkynningu þar sem fram kemur sú ákvörðun hans að gefa ekki kost á sér í alþingiskosningunum að vori. Guðmundur hefur setið á þingi frá árinu 1991, og því verið á Alþingi í fjögur kjörtímabil. Guðmundur hefur verið formaður samgöngunefndar Alþingis frá afsögn Árna Johnsen af þingi fyrir fimm árum. Guðmundur hefur allan sinn þingferil verið fulltrúi verkalýðsarms flokksins á þingi, en hann hefur í áratugi verið forystumaður innan Sjómannahreyfingarinnar og verið málsvari þeirra, t.d. innan Hrafnistu og í raun tók hann við af Pétri Sigurðssyni sem fulltrúi þeirra á lista flokksins í borginni.

Það verður fróðlegt að sjá hvort að á framboðslista flokksins í borgarkjördæmunum komi fulltrúi úr þeim kjarna til framboðs. Það stefnir í spennandi prófkjör, nú þegar hafa margir nýir frambjóðendur gefið kost á sér. Fyrir liggur að tveir af níu þingmönnum Sjálfstæðisflokksins í borginni hætta: Guðmundur og Sólveig Pétursdóttir, forseti Alþingis. Það verður því eflaust uppstokkun og telja má öruggt að mikil breyting verði. Ekki er langt í prófkjörið, en það verður eftir innan við fjórar vikur og framboðsfrestur rennur út í vikunni.

mbl.is Guðmundur Hallvarðsson hættir á þingi í vor
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband